ég rakst á þessa grein hjá Agli Helgasyni og fannst hún svo stök snilld og raunsæ, að ég verð að sitja hana hérna.
Að vernda friðinn


14.6.2002
Uppnámið vegna Falun Gong-liða horfir dálítið öðruvísi við eftir að upplýst var í fréttum Sjónvarpsins í gærkvöldi að lögreglan hafi ekkert séð því til fyrirstöðu að taka á móti fólkinu hérna. Vanbúið lögreglulið hefur verið eitt helsta viðkvæði ráðamanna þegar þeir þurfa að réttlæta aðgerðirnar gegn Falun Gong (og hið sama hefur verið tuggið upp í leiðurum Morgunblaðsins), en samkvæmt fréttinni er þetta fyrirsláttur. Lögreglan treysti sér í þetta verkefni. Ákvarðarnirnar voru hins vegar teknar, sagði Ríkissjónvarpið, í ráðuneytum hér undir miklum þrýstingi frá kínverskum sendimönnum sem ólmuðust og tóku ekki í mál að Jiang Zemin þyrfti að horfa framan í Falun Gong-liða. Skildist manni helst á fréttinni að haft hafi verið í hótunum um að annars kæmi hann ekki til landsins. Ógurlega væri það mikill skaði.

Þetta var reyndar aldrei sannfærandi málflutningur. Hví ætti lögreglulið sem er nýbúið að klára sig af stórum Nató-fundi ekki að geta tryggt öryggi forsetans af Kína andspænis óvopnuðu fólki sem stundar leikfimi og hugleiðslu? Þetta er líka sama lögreglusveit sem á sínum tíma stóð vörð um ekki ófrægari heimsleiðtoga en Reagan og Gorbatsjof. Ég hef verið á ferli í bænum í góðviðrinu undanfarna daga og ekki orðið var við annað en prúðmannlegt fas hjá liðsmönnum Falun Gong. Flestir eru sammála um að ekki stafi ógn af þessum hópi. Upplýsingar frá útlöndum virðast staðfesta það. Hugmyndir þeirra kunna að vera annarlegar, en þetta aðkomufólk fer sannarlega ekki um með neinum ófriði.

Ef eitthvað er ógnvekjandi í miðbæ Reykjavíkur þessa dagana, þá eru það mörg hundruð Norðurlandabúar sem mér er sagt að séu komnir hingað til að taka þátt í íþróttakeppni norrænna starfsmanna heilbrigðisstofnana. Þeir hafa notað tækifærið í góða veðrinu til að kútveltast fullir um bæinn, gólandi á skandinavísku.

Þannig virðist deginum ljósara að ekki er verið að vernda friðinn með því að banna Falung Gong-liðum að koma til Íslands, heldur er einungis verið að viðhalda blekkingu kínversku stjórnarinnar sem vill láta eins og Jiang Zemin sé velkomin gestur. Útvarpið greindi frá því að kínverskir sendiráðsmenn ættu á hættu að missa vinnuna eða kannski eitthvað meira ef heimsóknin misheppnast. Maður sér næstum aumur á þeim þar sem þeir liggja á njósn í runnunum í Hljómskálagarðinum og mæta dulbúnir á blaðamannafundi. Ennfremur er hermt að kínverska sendiráðið hafi reynt að þvinga Kínverja sem eru búsettir hérna til að stíga fram og taka á móti forsetanum með fögnuði. Allt snýst þetta um látalæti sem íbúum lýðræðisríkis veitist erfitt að skilja; okkur leyfist sem betur fer að sýna pólitíkusum hæfilegt skeytingarleysi.

Æ sér gjöf til gjalda. Síðasta áratuginn hefur verið stöðugur straumur stjórnmálamanna í viðhafnarmiklar heimsóknir til Kína. Opinberar sendinefndir þangað skipta tugum og ótal mektarmenn hafa farið, sumir oftar en einu sinni. Ólafur Ragnar Grímsson, Vigdís Finnbogadóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Halldór Ásgrímsson, Davíð Oddsson og Halldór Blöndal eru í hópi gestanna. Fyrir utan alla minni spámennina, langt niður stigann í embættiskerfinu. Þrátt fyrir allar þessar heimsóknir flytjum við sama og ekkert út til Kína; við eigum sáralítil samskipti við þessa miklu þjóð nema rétt á yfirborðinu. En viðskipti eru heldur ekki aðaltilgangurinn, heldur hégómaskapur og sýndarmennska einræðisherra og áhangenda þeirra. Leikurinn gengur út á að láta eins og þeir njóti vinsemdar og virðingar út um allan heim.

Þetta eru nákvæmlega sömu aðferðir og kommúnistastjórnir gömlu austurblokkarinnar notuðu til að afla sér ímyndaðra vinsælda, enda voru þar sams konar menn við völd og sams konar veruleikafirring. Þangað var sífellt verið að bjóða sendinefndum af öllu tagi og birta myndir af herlegheitunum í flokksmálgögnum. Munurinn er bara sá að á tíma kalda stríðsins gengu færri stjórnmálamenn frá lýðræðisríkjum í gildruna. Þá þótti ófínt að eiga samskipti við harðstjórana.

Og fyrst við erum að nefna kommúnistaríki. Ætli lýðræðissinnar hefðu á sínum tíma verið glaðir með að andófsmenn frá Sovétríkjunum hefðu fengið kveðjur eins og frá forsætisráðherra í viðtali í Morgunblaðinu á fimmtudag? Þar lagði hann sig í líma um að gera Falun Gong-hreyfinguna tortryggilega. Hvað er hann til dæmis að fara þegar hann segir að fólkið komi “eingöngu hingað til þess að trufla heimsókn þessa þjóðhöfðingja”? Nú eða þegar hann talar um fjármögnun Falun Gong og segir fullur grunsemda “hvaðan sem þeir peningar nú koma”? Sumt af þessu er ábyggilega rétt að vissu leyti, en þá má á það benda að í hópi andófsmanna gegn Sovétstjórninni voru margir kynlegir kvistir, sumir höfðu meira að segja skrítnar og vondar stjórnmálaskoðanir og þeir gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að ónáða Sovétleiðtoganna hvert sem þeir fóru. Þá mátti líka oft spyrja hverjir borguðu brúsann. En þetta var auðvitað algjört aukaatriði, því barátta þeirra gegn kúgun og mannhatri var réttmæt. Það vissi Morgunblaðið fjölmiðla best á sínum tíma.

Fyrir því má raunar færa rök að ofríkið, manndrápin og pyntingarnar séu verri í Kína nútímans en var til dæmis í Sovétríkjum Krútsjofs eða Brésnefs. Er ekki kjarni málsins að Falun Gong og milljónir annarra saklausra borgara sæta ofsóknum af hendi einhverrar verstu einræðisstjórnar í heimi? Falun Gong er kannski bjánaleg hreyfing, en það réttlætir ekki hina hroðalegu meðferð sem hún má þola. Og ekki heldur þjösnaskap íslenskra stjórnvalda.

Ég sé enga ástæðu til að sýna harðstjórum kurteisi. Ég skil ekki hvað menn eins og Li Peng og Jiang Zemin eru að vilja til Íslands ár eftir ár; það væri alveg eins hægt að bjóða Saddam Hussein eða Ariel Sharon. Ekki lít ég heldur svo á, eins og fyrrverandi frambjóðandi í leiðtogakjöri hjá Samfylkingunni, að ég sé að móðga kínverska þjóð þó ég fari á Austurvöll með tíbetskan fána og hafi uppi mótmæli gegn kínverska forsetanum. Þvert á móti. Eða móðgaði Þórbegur þýsku þjóðina þegar hann talaði illa um Hitler á sínum tíma? Í ljósi atburða vikunnar spyr maður líka hvort Íslendingar geti búist við því að vera stikkfrí þegar svona atburðir eru annars vegar? Viljum við bara fá að vera í friði með okkar veislur og heimboð, smáþjóð sem telur sig hafa undanþágu frá alvörumálum heimsins? Við lifum að vissu leyti eins og á griðasvæði þar sem lítt verður vart við illsku heimsins, en maður snýr samt ekki alveg baki við afganginum af veröldinni þó maður stigi upp í Flugleiðavél, ekki heldur þótt sendiherrar standi við landganginn og reyni að bægja hættunni frá…


kv;vigni