Þar sem, hver slæm úttekt á esb, ratar hingað inn, ákvað ég að koma með mótsvar við því.
Tekið af samtökum iðnaðarins www.si.is





Sveigjanleiki á vinnumarkaði og ESB

Sveigjanleiki íslensks vinnumarkaðar breytist lítt eða ekki þótt Ísland gangi í ESB. Þetta kemur fram í fróðlegri samantekt á vef Samtaka atvinnulífsins.


Eitt af því sem margir hafa áhyggjur af þegar rætt er um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu, er að þá glatist sérkenni íslensks vinnumarkaðar og þar með sá sveigjanleiki sem talið er æskilegt að varðveita.

Hafa ber í huga að þegar Íslendingar undirgengust samningsskyldur skv. EES-samningnum, skuldbundu þeir sig til þess að taka upp, í íslensk lög og reglugerðir, fjöldann allan af ákvæðum sem varða vinnumarkaðinn. Þessi ákvæði eru fjölbreytt og varða marga þætti. Áreiðanlega má til sanns vegar færa að einhver þeirra hafi dregið úr sveigjanleika vinnumarkaðarins, sumt eru vinnuveitendur óánægðir með en verkalýðshreyfingin að sama skapi ánægð og öfugt.

Við búum sem sagt þegar við sömu reglur á vinnumarkaði og aðildarríki ESB. Á því er þó sú undantekning að undir EES-samninginn falla ekki tiltekin atriði sem hafa orðið til vegna breytinga á stofnsáttmálum ESB. Þetta eru reglur sem banna mismunun á grundvelli kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúarbragða, skoðana, fötlunar, aldurs eða kynhneigðar. Ekki verður í fljótu bragði séð af hverju Íslendingar geta ekki búið við þær reglur. Raunar má ætla að mismunun af þessu tagi standist ekki stjórnarskrá Íslands.

Evrópusambandið hefur á síðustu árum og misserum lagt aukna áherslu á atvinnumál og atvinnumálastefnu. EES-samningurinn tekur ekki til þessara þátta. ESB leggur áherslu á samstarf aðildarríkja og bandalagsins, einkum við að auka þekkingu, þjálfun og aðlögunarhæfni starfsmanna og að vinnumarkaðurinn geti brugðist við efnahagslegum breytingum. Atvinnumálanefnd skipuð fulltrúum aðildarríkanna og bandalagsins gegnir leiðbeinandi hlutverki gagnvart aðildarríkjunum og er jafnframt ætlað að hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins. Erfitt er að koma auga á að samstarf af þessu tagi sé skaðlegt hagsmunum Íslendinga. Ætla má að það yrði fremur til bóta. Það þarf þó að skoða nánar og hafa Samtök iðnaðarins óskað eftir því að Samtök atvinnulífsins athugi þennan þátt sérstaklega. Gera má ráð fyrir að niðurstaða þeirrar vinnu liggi fyrir á haustmánuðum.


kv;vigni