Nú er komið svo að íslenskir stjórnmálamenn þverbrjóta grundvallarreglur lýðræðisþjóðfélags í þágu þess að halda uppi góðum samskiptum við eitt helsta kúgunarríki heims. Það að þetta ríki skuli vera það fjölmennasta í heimi, virðist vaxa ráðherrum þessarar ríkisstjórnar svo í augum, að þeir láta kúga sig til að virða að vettugi þá blóði drifnu sögu sem liggur að baki þessum manni sem von er á til landsins á fimmtudaginn.

Ég spyr, hvaða harðstjóra ætlar ríkisstjórnin að taka upp á arma sína næst? Af nógum er að taka, og nokkrir þeirra eru sjálfsagt í náðinni þessa dagana vegna efnahagslegra hagsmuna, og ekki mundi spilla ef þeir hafa lyft litla fingri til að hjálpa stóra bróður í vestri í stríði þeirra við hryðjuverkamenn. Og hvenær munu þessar “undantekningar á reglunni” ná til Íslendinga sjálfra?

Ef það var eitt sem vesturlönd áttu að læra af 11.10.01, þá var það að eiginhagsmunapot í minna þróuðum löndum á kostnað grundvallaratriða á borð við tjáningarfrelsi og ferðafrelsi, er leið sem leiðir beint til átaka og hörmunga. Sem betur fer þá hefur Ísland ekki mikil bein áhrif þarna. Ég segi sem betur fer, því svo virðist að yfirvöld landsins hafi sýnt með aðgerðum sínum gagnvart Falun Gong að þau hafi ekki dómgreind til að taka þátt í heimsmálum.

Ég vil taka undir með Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, og hvetja alla til að taka þátt í mótmælum gegn harðstjóra þeim sem gegnir embætti forseta Alþýðulýðveldins Kína, og í leiðinni gefa skýr skilaboð til ríkisstjórnar þessa lands að við þegnar þess kunnum ekki að meta notkun grundvallaratriða sem skiptimyntar í samskiptum við erlend ríki.

Ég vil taka fram að ég er á engan hátt tengdur Falun Gong og hef aldrei tekið þátt í mótmælum af neinu tagi, en þau brot á grundvallaratriðum sem hér eru sýnd ofbjóða mér svo að ég get ekki þagað.

Guðlaugur S. Egilsson
-Gulli