10-12 milljarða heildarkostnaður vegna aðildar

Nú hefur hagfræðastofnun Háskóla Íslands sent frá sér skýrzlu þar sem staðfest er að heildarkostnaður Íslands, ef til aðildar að Evrópusambandinu kemur, mun vera á bilinu 10-12 milljarðar krónar á ári eftir að sambandið hefur verið stækkað til austurs.

Eftirfarandi frétt um málið er tekin af Visir.is:

———————————

Visir.is

Kostnaðartölur vegna fyrri skoðanakönnunar staðfestar

Árlegur kostnaður Íslands af veru í Evrópusambandinu næmi 8 til 10 milljörðum, að mati Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Davíð Oddsson, forsætisráðherra, kynnti í dag skýrslu Hagfræðistofnunar, þar sem metinn er beinn kostnaður Íslendinga við inngöngu í sambandið.

Forsætisráðherra segist hafa kallað eftir úttektinni í framhaldi af könnun á viðhorfum almennings til Evrópusambandsaðildar sem ráðuneytið fékk Félagsvísindastofnun til að gera í vor.

“Þar var ein af spurningunum á þá leið hvaða áhrif það hefði á fólk ef aðgöngumiðinn að Evrópusambandinu væru upp nokkra milljarða á ári,” sagði Davíð og bætti við hörð gagnrýni á spurninguna hefði komið honum í opna skjöldu.

“Hagfræðistofnun Háskólans hafði gert útreikningana fyrir ríkið á sínum tíma og því nauðsynlegt að fá framreiknaða útreikninga miðað við stækkun sambandsins. Þá kemur á daginn að spurningin um nokkra milljarða var varlega orðuð,” sagði hann og bætti við að stofnunin færi engu að síður varlega í að reikna út kostnaðinn. “Til dæmis er ekki gert ráð fyrir inngöngu Tyrklands, eins er farið varlega í sjávarútvegsþættina, aukinn stjórnsýslukostnaður er ekki tekinn með í dæmið o.s.frv.”

Davíð sagði að skýrsla hnattvæðingarnefndar um jákvæð áhrif af upptöku evru hér á landi hafi verið misskilin, því þau áhrif snúist um vaxtagreiðslur innan lands, en ekki kostnað Íslendinga. “Svo þegar þetta var skoðað kom í ljós að þessi vaxtaleikfimi var öll hin furðulegasta því líklegast er að öll húsnæðislán almennings muni hækka og fleira til.”

Davíð taldi að skoða mætti betur vexti og áhrif evrunnar í framhaldinu, þótt ekki væri á döfinni heildarúttekt á kostum og göllum Evrópusambandsaðildar “Það er sjálfsagt um leið og komið er fram með fullyrðingar að athuga þær og þá þarf ekki að deila frekar um þær. Nú liggur fyrir að kostnaðurinn er um tæpa 10 milljarða á ári, sem er þrisvar það sem við setjum í vegagerð á hverju ári,” sagði hann.

—————————–

Því er svo að bæta við að rætt var við Bryndísi Hlöðversdóttur bæði í fréttum Sjónvarps og Stöðvar tvö og hún sagðist ekki taka mikið mark á þessum tölum (hvers vegna skyldi það nú vera?) Hagfræðistofnunar HÍ. Sagði hún forsendur talnanna misvísandi og að ekki væri allt tekið inn í myndina. Hvað hún ætti við minntist hún hina vegar ekki orði á.

Athyglisvert er einnig að hún sagði ekki að tölur Hagfræðistofnunar væru rangar né nefndi hún engar tölur sem væru nær lagi að hennar mati. En jú jú, það er vissulega ekki allt tekið inn í myndina, t.d. ekki enn meiri kostnaður Íslands, ef af aðila verður, vegna aukins stjórnsýslukostnaðar ESB af stækkuninni til austurs, innganga Tyrklands í sambandið o.fl. eins og fram kemur í fréttinni hér að ofan.

Ekki er heldur langt síðan tilkynnt var á vegum ESB tillögur að stórfelldum niðurskurði í sjávarútveg sambandsins og mikilli fækkun fiskiskipa og sjómanna. Ef Ísland væri aðili að ESB þýddi það að eitt gengi yfir alla skv. Rómarsáttmálanum og svigrúm til undanþága er afar lítið og í raun einungis um að ræða ákveðin aðlögunartímabil.

Halldór Ásgrímsson sagði í ræðu í hátíðarsal Háskóla Íslands 1. desember 2001 að hann teldi sjávarútvegsstefnu ESB mun hagsstæðari Íslendingum þá en 10 árum áður. Margir rituðu greinar af því tilefni, þ.á.m. ég, og bentu m.a. á að jafnvel þó stefna sambandsins væri álitleg í dag gæti það hæglega breyzt á morgun. Nú er ljóst að sú mun verða raunin.

Hjörtu
Með kveðju,