Kosningar: Gleymd fortíð, glötuð framtíð?

Egill Helgason skrifaði stuttan og áhugaverðan pistil á blogg sitt síðastliðinn föstudag um upplifun erlendra fjölmiðla á kosningabaráttunni á Íslandi sem eru flestir mjög undrandi yfir áliti Íslendinga á núverandi ríkisstjórn. Mikið hefur verið rætt í alþjóðlegum fjölmiðlum síðustu tvö ár um íslensku aðferðina út úr hruninu, sem þykir, þrátt fyrir að vera hafa verið mjög átakanleg, velheppnuð. Undir leiðsögn Jóhönnu hefur verðbólgan snarlækkað frá 18,6% í 3,9%, fjárlagahallinn minnkaður um yfir 200 milljarða og atvinnuleysi datt einnig niður í 4,7% á kjörtímabilinu frá 9,3%. Þetta er gríðarlegur árangur sem hefur verið náð á aðeins fjórum árum, þegar nauðsynlegt var að hreinsa upp eftir yfir áratug af aukinni spillingu. Það nálgast nú fimm ár síðan Ísland hrundi og lenti í stærstu fjármálakreppu sem hefur nokkur tíma átt sér stað þegar litið er á stærð efnahags lands. Þegar fólk stormaði út á Austurvöll og heimtaði að stjórnvöld segðu af sér. Fimm árum seinna er fólk ennþá reitt, en út í hvern?

Augljóst er að fólk er ekki reitt út í flokkana sem sviku þjóðina. Sem fóru og opnuðu hagkerfið, einkavæddu ríkisfyrirtæki og seldu sjálfum sér þau. Bankar eins og Kaupþing voru ekki seldir þeim sem bauð hæst heldur þeim sem stóðu nærst ríkisstjórninni. Fólk hefur snúist fullkomlega á móti núverandi ríkisstjórn, en af hverju?

Ég tek það skýrt fram að ég kenni mig ekki við neinn sérstakan flokk en ég verð að segja að ég er samt hæstánægður með það sem ríkisstjórninni hefur tekist á þessu kjörtímabili. Það eru jú atriði sem ég er mjög ósáttur með, eins og stjórnarskrármálið sem þjóðin studdi en ekki var ákveðið að klára á þessu kjörtímabili. Þetta þýðir að þjóðin mun þurfa að bíða allaveganna átta ár þangað til ný stjórnarskrá er tekin í gildi og ekki lítur það út fyrir að hvorki Sjálfstæðisflokkurinn né Framsóknarflokkurinn muni styðja við málefnið. 

En þessari ríkisstjórn tókst þó að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið, að kanna möguleika á því hvernig samning við gætum fengið. Þetta er málefni sem ég styð fullkomlega og jafnvel þó ekki sé komið í ljós hvernig samning við fáum þá er búið að opna næstum því alla 33 kafla, sem er flottur árangur þegar borið er saman við Króatíu sem eyddi fimm árum í að klára sinn samning. Augljóst er að það sé eins og er ómögulegt að segja til um hvort innganga í ESB sé það rétta eða það ranga fyrir þjóðina en við munum ekki vita neitt fyrr en samningur hefur verið kláraður. Enda sést það líka í skoðunarkönnunum að meiri hluti Íslendinga vill halda áfram viðræðum og klára samninginn enda er það eina vitið, en þrátt fyrir það eru enn flokkar sem taka það fram að þeir vilji draga umsóknina til baka um leið og þeir komast til valda. Þetta segja Framsóknarmenn, Sjálfstæðismenn, Húmanistar og fleiri. Augljóst er þó að okkur vantar nýjan gjaldmiðil og evran virðist enn vera eina lausnin, enda er það aðalgjaldmiðill stærsta markaðs í heimi. Í öðrum mögulegum lausnum, eins og þeim þar sem stungið er upp á því að taka upp Kanadadollara eða norsku krónuna er augljóst að stjórnvöld í þeim löndum hafa mjög lítinn áhuga og taka það skýrt fram að Ísland muni aldrei hafa nein áhrif í seðlabönkum þessara landa. Hvernig er mögulegt að vera með gjaldmiðil sem þú hefur engin áhrif á?

Ég á enn eftir að velja flokk til að styðja í þessum kosningum en augljóst er frá kosningaloforðum sumra flokka að langflest er óraunhæft. Framsókn hefur lofað að skera niður skuldir þeirra sem tóku lán í Íbúðalánasjóði, fyrir tíu árum síðan vildu þeir gefa fólki tækifæri til að taka 90% húsnæðislán. Þessar draumalausnir eru eintómar skýjaborgir enda ef allar skuldir í Íbúðalánasjóð eru afskrifaðar að hluta til hrynur hann þannig það endar bara með því að skattar verði hækkaðir til þess að koma í veg fyrir það. 

Áreitni Sjálfstæðisflokksins á stofnanir eins og Evrópustofu veldur mér einnig áhyggjum. Evrópustofa er upplýsingastofnun ESB á Íslandi og veitir þeim sem vilja upplýsingar um hvernig stofnunin virkar og annað sem er nauðsynlegt fyrir Íslendinga að gera upp hug sinn um inngöngu. Bjarni Ben hefur tekið það fram að hann muni loka Evrópustofu fyrir áróður. Sigmundur Davíð tekur undir. Ásamt helför Davíðs Oddsonar með Morgunblaðinu verð ég að segja að ég sé nú bara hreinlega hræddur við stefnu Sjálfstæðisflokksins gagnvart fjölmiðlum og tjáningarfrelsi og minnir þetta helst á Þýskaland á tímum nasismans. Ég tek skýrt fram að ég er ekki að benda til þess að ég sé að gera einhvern samanburð á Nasistaflokknum og Sjálfstæðisflokknum, en ég verð samt að segja að stefna þeirra og reynslan af því að hafa Davíð Odddson í ritsjórn Morgunblaðsins veldur manni ýmsum áhyggjum.

Píratar finnst mér flottastir í málefnum sínum um tjáningarfrelsi og sérstaklega um ESB umsókn. Birgitta hefur tekið skýrt fram að flokkar eigi ekki að taka afstöðu fyrr en samningur hefur verið sammþykktur og verðir boðinn þjóðinni í atkvæðagreiðslu.

Þegar ég horfi til baka yfir síðustu fjögur árin, yfir allan árangur þessarar ríkisstjórnar, veldur það mér vonbrigðum hversu óánægðir Íslendingar eru um þessa ríkisstjórn. Mér finnst það sorglegt hversu fljótt fólk hefur gleymt reiðinni sem brann í hjörtum þeirra á Austurvelli árin 2008 og 9, þegar þjóðin hafði verið margfallt svikin af flokkum sem það heldur að muni bjarga þeim núna. Ég held að í framtíðinni muni fólk horfa aftur á þennan tíma sem tíma mikilla átaka en samt átaka sem boru af sér árang. Með stefnu þeirra flokka sem allt bendir til að munu mynda stjórn í haust virðist allt stefna í meiri ójöfnuð í íslensku samfélagi, meiri verðbólgu og, ef nýr gjaldmiðill verður ekki settur í notkun, annað hrun.