Loforð stjórnmálamanna Mér finnst merkilegt að hlusta á fjölmiðla- og stjórnmálamenn tala um að hægt sé að kaupa kosningar með auglýsingum. Það er augljós rökvilla að verið sé að kaupa eitt né neitt, vegna þess að fólk er ekki að fá greitt fyrir atkvæði sitt heldur er tími fólks keyptur í gegn um hina ýmsu fjölmiðla. Því eru atkvæðin ekki keypt með beinum hætti á þessa vegu.

En það þýðir ekki að atkvæði séu ekki keypt.

Ég er ekki að segja að stjórnmálamenn nálgist fólk og bjóði þeim pening fyrir atkvæði, að minnsta kosti bjóða þeir ekki sinn eigin pening, þeir bjóða fjármuni annarra.

Hver kannast ekki við loforð um massífar landfyllingar og tónlistarhús, framkvæmdir sem eru í senn ónauðsynlegar og að öllum líkindum óarðbærar, og eru borgaðar af fé skattgreiðenda.

Það er þannig að hér á Íslandi, og raun og veru allstaðar annarsstaðar, einkennist kosningabaráttan af stjórnmálamönnum sem lofa að gera sem flest góðverk á kostnað annarra, og það takmarkast ekki við vinstrimenn!

Menn spyrja hvort ekki eigi að setja kvóta á hve mikið hver flokkur má eyða í kosningaáróður o.s.f. Ég held að það sé ansi skýrt að það væri stjórnarskrárbrot að setja slíka löggjöf. Ef menn vilja á annað borð setja stjórnmálamönnum takmarkanir í kosningabaráttu (ekki það að ég sé fylgjandi slíku), þá ættu þeir að setja þeim kvóta á hve mikið þeir geta lofað að aðrir borgi sniðugar framkvæmdir og listahátíðir.

Flestir stjórnmálamenn gera ekkert annað en að rífast um hvað á að gera við peninga annars fólks, ég held að það sé kominn tími á að fólk fái að eyða sínum eigin peningum. Varla eyðir fólk þeim í heimskari hluti en stjórnmálamennirnir, og jafnvel þó það geri það, þá hefur það fullkominn rétt á því, enda eru þetta þeirra peningar.

Málið er ekki að stjórnmálamenn auglýsi of mikið á eigin kostnað, heldur að þeir lofa of miklu á annara manna kostnað.