Hugleiðingar um tjáningarfrelsið

Eins og flestir þekkja eflaust er frelsið til að tjá skoðanir sínar eitt af grundvallaratriðum lýðræðishugsjónarinnar. Allajafna virðast menn þó sammála um að einhvers staðar verði mörk tjáningarfrelsisins að vera og að það geti ekki verið algerlega óheft. Allavega eru menn yfirleitt sammála um að menn verði a.m.k. að bera ábyrgð á orðum sínum og skoðunum fyrir rétti ef þess gerist þörf.

Ýmsar aðrar takmarkanir eru einnig á tjáningarfrelsinu í flestum ríkjum sem kenna sig við lýðræði. Þar má nefna t.d. þegar um er að ræða öryggi ríkisins, virðingu við ákveðin opinber atriði o.s.frv. Sem fyrr segir eru menn yfirleitt sammála að einhverjar takmarkanir verði að vera á tjáningarfrelsinu en greinir þó oft á um hvar þau mörk eigi að liggja.

Voltaire

Franski heimspekingurinn Voltaire mun eitt sinn hafa sagt við andstæðing sinn að hann fyrirliti skoðanir hans en væri engu að síður tilbúinn að deyja fyrir rétt hans til að tjá þær. Ástæða þessara orða Voltaire er einföld því þó skoðanir okkar kunni að vera misjafnar, og oft á tíðum stangast hreinlega á, þá breytir það því ekki að öll höfum við rétt til að tjá þær á sömu forsendum. Réttur okkar til að tjá skoðanir okkar er einn og hinn sami.

Orð Voltaire segja okkur enn fremur eitt sem áður þótti eðlileg sannindi en hafa afbakast í seinni tíð. Oft er nefnilega haft á orði að menn eigi að virða skoðanir annarra. Þetta er hins vegar ekki rétt. Lýðræðið leggur ekki þá kvöð á menn að þeir leggi blessun sína yfir allar skoðanir, sama hverjar þær kunni að vera, enda væri slíkt auðvitað út í hött. Þarna er um að ræða þá tilhneigingu okkar til að einfalda hlutina sem oft gerir vart við sig.

Staðreyndin er nefnilega sú að með því að virða skoðanir annarra erum við að samþykkja þær og það gengur auðvitað ekki upp að samþykkja allar skoðanir. Þá yrðu nú litlar umræðurnar. Við eigum nefnilega einungis að samþykkja þær skoðanir sem við erum sammála, en aftur á móti eigum við að virða rétt allra til að tjá skoðanir sínar. Á þessu tvennu er auðvitað mikill munur.

Að vera sjálfum sér samkvæmur

Sumir eru duglegir við að hamra á tjáningarfrelsinu þegar á þá hallar í þeim efnum en gefa síðan lítið fyrir allt slíkt þegar þeirra skoðanir eiga ekki lengur undir högg að sækja. Slíkt er auðvitað dæmi um örgustu hræsni og tvöfeldni og engan veginn til eftirbreytni. Þeir sem þannig hegða sér geta ekki átt von á því að trúverðugleiki þeirra aukizt við slíka breytni.

Menn verða að leggja sig fram við að vera sjálfum sér samkvæmir, ef þeir vilja að þeir séu teknir trúanlega, og gera sér grein fyrir því að þó menn kunni að hafa mismunandi skoðanir er réttur manna til að tjá skoðanir sínar almennt hinn sami eins og getið var hér á undan. Eitt verður auðvitað að ganga yfir alla borgara viðkomandi ríkis í þeim efnum og réttarstaða þeirra verður að vera sú sama ef þar á að þrífast réttarríki.


Fjölmiðlar og tjáningarfrelsið

Vald fjölmiðlanna er mikið, eins og menn þekkja, og það er eins með það vald eins og önnur að það er vand með farið. Vald á það líka ósjaldan til að spilla. Í lýðræðisríki er ætlazt til þess að fjölmiðlar séu frjálsir og hlutlausir og gefi borgurunum jafnan aðgang að sér til að koma skoðunum sínum á framfæri. Á því hefur þó ósjaldan verið misbrestur.

Thomas Jefferson, forseti Bandaríkjanna, sagði eitt sinn að almenningur gæti ekki verið öruggur nema að hafa aðgang að upplýsingum og að þegar fjölmiðlarnir væru frjálsir og allir menn gætu lesið og þá væri allt öruggt. Það er vissulega mikið til í þessum orðum. Þegar talað er um að fjölmiðlar verði að vera frjálsir er átt við að þeir séu lausir undan öllum utanaðkomandi þrýstingi þannig að þeir geti fjallað um málin á sem allra hlutlausastan hátt. Það hefur hins vegar oft gengið erfiðlega og alls konar ritskoðun lifað góðu lífi víða í fjölmiðlaheiminum og þar með talið hér á Íslandi.

Sem smá útúrdúr má að lokum nefna í þessu samhengi bækling sem sendur var út fyrir jól og túlkaði svo að segja eingöngu eina hlið í mjög umdeildu og viðkvæmu máli, nefnilega málefnum innflytjenda. Flokkur framfarasinna gagnrýndi þá útgáfu harðlega við þá opinberu aðila sem að útgáfunni stóðu. Flokkurinn hafði hins vegar ekkert að athuga við það að skoðanir innflytjenda fengju að heyrast heldur var það harðlega gagnrýnt að öllum sjónarmiðum í málinu væri ekki leyft að heyrast á jöfnum grunni í blaðinu sem kostað var að mestu leyti af opinberu fé.

Hjörtur J.
Með kveðju,