Þetta fáum við út úr Schengen

Fyrir fáeinum vikum síðan var Stefán Eiríksson, skrifstofustjóri hjá dómsmálaráðuneytinu, í viðtali í “Reykjavík síðdegis” á Bylgjunni í tilefni þess að ár væri liðið frá því að Ísland gerðist aðili að Schengen-samstarfinu. Varði hann þar aðildina með oddi og egg en þó með afskaplega fátæklegum rökum ef rök skyldi kalla.

Gerði Stefán t.a.m. lítið úr gríðarlegum kostnaði Íslendinga vegna aðildarinnar sem hljóðar upp á 3 til 4 milljarða króna í stofnkostnað og rúmlega 200 milljónir króna á ári hverju í “félagsgjald”. Hélt hann því fram að við fengjum svo mikið í staðinn fyrir þau útgjöld en ekki kom þó fram í máli hans hvað þetta mikla væri. Ennfremur gerði Stefán síðan m.a. lítið úr hættunni á því að ólöglegir innflytjendur kæmu til Íslands í gegn um Schengen og vildi meina að ef svo ólílega vildi til að slíkt gerðist yrði það ekki mikið vandamál þar sem ábyrgðin á ólöglegum innflytjendum lægi hjá þeim löndum innan Schengen þar sem þeir kæmu fyrst inn.

Ég hef áður ritað grein hér þar sem tilgreindir voru þeir miklu galla sem eru við Schengen-samstarfið fyrir okkur Íslendinga og sárafáu kosta þess fyrir okkur. Auk mjög mikils kostnaðar, sem lítið sem ekkert fæst í staðinn fyrir, má t.d. nefna að með aðildinni verður smygl á hvers kyns varningi frá löndum innan Schengen mun auðveldara en áður, þ.m.t. eiturlyfjum en mest af þeim eiturlyfjum sem koma til Íslands koma einmitt frá löndum innan Schengen. Mun meiri líkur eru einnig en áður að ólöglegir innflytjendur komist til landsins óséðir og er þetta vaxandi áhyggjuefni innan ESB enda vex straumur ólöglegra innflytjenda inn á Schengen-svæðið á hverju ári. Talið er að a.m.k. um 400 þúsund ólöglegir innflytjendur sleppi inn á Schengen-svæðið á ári.

Ólöglegir innflytjendur aldrei fleiri

Nú fyrir skemmstu gáfu 19 ólöglegir innflytjendur sig fram við íslenzk yfirvöld og óskuðu eftir pólitísku hæli hér á landi. Þetta er fjölmennasti hópur sem leitað hefur eftir hæli hér á landi til þessa í einu lagi. Fólkið er skilríkjalaust, eins og jafnan er um ólöglegar innflytjendur, en segist vera frá Rúmeníu og vera pólitískir flóttamenn. Ekki er þó vitað neitt með vissu hvaðan fólkið kemur. Líklegt er þó að fólkið hafi komizt inn fyrir einhver landamæri Schengen í Austur-Evrópu en þar er landamæragæzlu víðast hvar mjög ábótavant.

Ekki er heldur vitað hvernig fólkið komst inn í landið en talið er að því hafi verið smyglað hingað með ferjunni Norrænu í sendiferðabifreið og að það hafi því komið til landins fimmtudaginn 23. maí sl. Fólksins varð þó ekki vart við komu ferjunnar til landins þar sem íslenzkum yfirvöldum er ekki heimilt að skoða vegabréf þeirra sem koma frá löndum innan Schengen-svæðisins.

Enn minna er vitað um það hvaðan fólkið kom til Íslands þar sem Norræna hefur viðdvöl í a.m.k. tveimur löndum áður en skipið kemur til landsins, Danmörku og Noregi. Það er því ljóst að ekki verður hlaupið að því að senda fólkið úr landi ef það mun ekki uppfylla skilyrði um að geta talizt pólitískir flóttamenn, sem annars erfitt er að sjá að það muni gera, enda ekki hægt að senda fólk bara eitthvert þegar ekki er vitað hvaðan það kemur. Sú athugun Útlendingaeftirlitsins getur þó tekið allt að hálfu ári. Það er því ljóst að þó svo Stefán Eiríksson og fleiri geri lítið úr því að hættan á að ólöglegir innflytjendur komizt til landsins óséðir hafi aukizt með aðildinni að Schengen er það engu að síður staðreynd.

Íslenzk landamæragæzla undir stjórn ESB?

Nú nýlega kynnti framlvæmdastjórn Evrópusambandsins síðan hugmyndir um að öll ytri landamæragæzla á Schengen-svæðinu verði sett undir sameiginlega stjórn ESB. Verði það að veruleika þýðir það að landamæragæzla á Íslandi, og í öðrum aðilarríkjum Schengen, mun ekki lengur heyra undir stjórnvöld í viðkomandi löndum heldur beint undir ESB. Ennfremur er hugmyndin að það lið, sem sjái um landamæragæzluna, verði sameiginlegt og þar með ekki endilega eingöngu skipað fólki frá viðkomandi ríkjum.

Það er því ljóst að þessu mun fylgja mjög mikið afsal á fullveldi verði þetta samþykkt. Vald yfir stórum hluta af íslenzkri löggæzlu myndi þannig vera flutt úr landi og til Brussel. Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli myndi t.a.m. heyra beint undir ESB svo og önnur þau yfirvöld sem hafa með tollgæzlu og annað landamæraeftirlit á Íslandi að gera, s.s. á Seyðisfirði.

Hjörtur J.


Heimildir m.a.:

“Framkvæmdastjórn ESB vill sameiginlega Schengen-landamæralögreglu. ”Viðkvæmt mál sem snýr beint að fullveldi þjóða“” - Morgunblaðið, 11. maí 2002.
“17 manns leita eftir pólitísku hæli” - Morgunblaðið, 25. maí 2002.
“19 manns í fjórum fjölskyldum frá Rúmeníu leita eftir pólitísku hæli. Yngst í hópnum er þriggja mánaða barn” - Morgunblaðið, 26. maí 2002.
Með kveðju,