“Innflytjendamál í skugga pólitískrar rétthugsunar?”

Eftirfarandi er úr frétt sem birtist í Morgunblaðinu sl. föstudag og fjallar um þá hægrisveiflu sem er sífellt meira að gera vart við sig í stjórnmálalífi Evrópu. Að mínu mati a.m.k. segir þessi frétt mikið um umrædda hægrisveiflu og þá einkum og sér í lagi hvers vegna hún er til komin. Ástæða er fyrst og fremst, skv. fréttinni, sú staðreynd að hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar álfunnar hafa stungið höfðinu í sandinn og neitað að horfast í augu við ýmis vandamál sem síðan hefur leitt til þess að vandamálin hafa kraumað undir tiltölulega sléttu yfirborðinu. Þetta ábyrgðar- og afskiptaleysi hefur síðan reynst vatn á myllu hægriöfgamanna.



Innflytjendamál í skugga pólitískrar rétthugsunar?

Mikið tap stjórnarflokkanna í kosningunum í Hollandi og sigur flokks hægrimannsins Pims Fortuyns er þáttur í þróun sem á sér stað í allri Evrópu að sögn stjórnmálaskýrenda. Hefðbundnum sjónarmiðum mið- og vinstriflokka er víða hafnað og nýir hægriflokkar leggja áherslu á innflytjendamál og glæpatíðni. Kjósendur nýju hægriflokkanna koma að miklu leyti úr röðum innfæddra verkamanna sem finnst að hefðbundnir vinstriflokkar hafi ekki sinnt þessum málum sem snerti mjög almenna borgara. …

Verkamannaflokkur Wims Koks fer fyrir stjórninni sem beið ósigur í Hollandi í gær. Hægriflokkur Austurríkismannsins Jörg Haiders vann mikinn sigur fyrir nokkrum árum og á nú aðild að ríkisstjórn. Leiðtogar annarra ríkja Evrópusambandsins reyndu um hríð að refsa Austurríki með því að hunsa fulltrúa landsins en sú leið hefur nú verið gefin upp á bátinn.

Mið- og hægriflokkabandalag undir forystu hægrimannasins Silvio Berlusconis tók við stjórnarforystu á Ítalíu í fyrra eftir kosningasigur, í apríl tók samsteypustjórn mið- og hægrimanna við í Portúgal, einn flokkanna er andvígur innflutningi fólks frá fátækari löndum. Á Spáni er hægrimaðurinn Jose Maria Aznar við völd, hann er hófsamur en sagði í vikunni að ástæða þess að vinstriflokkar hefðu látið undan síga væri slög stefna í innflytjendamálum. Ríkisstjórnir hægrimanna í Noregi og Danmörku styðjast nú báðar við nýja hægriflokka á þingi og nýlega olli það miklum titringi í Frakklandi er hægriöfgasinninn Jean-Marie Le Pen skákaði leiðtoga sósíalista og þáverandi forsætisráðherra, Lionel Jospin, í fyrri umferð forsetakosninganna.

Mikill munur er á nýju hægriflokkunum milli landa þótt sameiginleg stef séu þau sem nefnd hafa verið. En þess má geta að hinn myrti leiðtogi samnefnds Pim Fortuyns flokks í Hollandi var mjög á móti því að vera dreginn í dilk með Le Pen og sagðist alls ekki vera á móti fólki af öðrum kynþætti en hvítum. Hann gagnrýndi hins vegar hart íslam og vildi sporna við að fleiri innflytjendum frá þriðja heiminum fengju að flytja til Hollands, landið þyldi auk þess ekki fleira fólk vegna þéttbýlis. …

En það sem þeir Fortuyn og Le Pen áttu ekki síst sameiginlegt er einföld slagorð þar sem athyglinni er beint að innflytjendum og glæpum, málefnum sem stjórnmálaskýrendur eins og Pierre Rousselin, blaðamaður hægriblaðsins Le Figaro í Frakklandi, segja að hafi verið hunsuð af tillitsemi við pólitíska rétthugsun. Hægriflokkarnir nýju fullyrða að náin tengsl séu á milli innflytjendastraumsins og aukinnar afbrotatíðni. …

Margir segja að innflytjendamálin hafi verið hunsuð. “Ef fólk styður flokka Haiders, Le pens eða Fortuyns er það vegna þess að þeir hafa fundið réttu aðferðina við að vekja athygli á málefnum sem snerta almenning en þagað hefur verið um eða fjallað um með allt of almennum orðum,” sagði dagblaðið Rzeczpospolita sem er frjálslynt.

Bent er á að ósigur mið- og vinstriflokka í mörgum löndum geti valdið því að stefnan varðandi landamæragæslu, glæpi, stækkun Evrópusambandsins og efnahagsmál geti tekið stakkaskiptum. Svo gæti farið að hægriflokkarnir sigri í þingkosningunum í júní í Frakklandi, einnig gætu jafnaðarmenn Gerhards Schröders misst völdin í Þýskalandi í kosningunum í september. Færi svo myndi Verkamannaflokkur Tony Blairs verða síðasta sterka vígi mið- og vinstrimanna í álfunni.



Heimild:
“Innflytjendamál í skugga pólitískrar rétthugsunar?” - Morgunblaðið, 11. maí 2002.

Hjörtur J.
Með kveðju,