Klukkan tifar - skuldirnar aukast Fyrir nokkrum dögum settu ungir Sjálfstæðismenn í SUS og Heimdalli upp og ræstu skuldaklukku Reykjavíkurborgar í Kringlunni. Hugmyndin með þessari skuldaklukku var að minna fólk á stöðu mála og gífurlega skuldaaukningu R-listans á valdaferli þeirra. Í upphafi gagnrýndu R-listamenn þetta uppátæki og sögðu að klukkan gengi of hratt og sýndi fram á rangar tölur, talan væri of há. Málflutningur þeirra var á þann veg að skuldir borgarinnar ykjust minna en fram kæmi í ársreikningum borgarinnar. Mikið var spurt að þeirri staðreynd hvernig þetta væri yfir höfuð reiknað út.

Ég tel réttast að ég láti fylgja með útskýringar þeirra á frelsi.is á þessu máli, en þar eru staðreyndirnar raktar ítarlega: “Í ársreikningi Reykjavíkurborgar, sem kynntur var í gær, kemur fram að hreinar skuldir borgarinnar voru um síðustu áramót 34 milljarðar og höfðu aukist á einu ári um 11,2 milljarða, eða 30 milljónir króna á dag. Á heimasíðu R-listans er að finna sérkennilega gagnrýni á skuldaklukku sem sýnir hve hratt skuldir borgarinnar aukast og ungir sjálfstæðismenn kynntu í Kringlunni um helgina. Í grein R-listans segir að skuldaaukningin sé 6,7 milljónir á dag en ekki rúmlega 11 milljónir eins og skuldaklukkan er miðuð við (merkilegt reyndar að R-listafólki líði eitthvað betur með það, en það er önnur saga).

Skuldaklukkan er byggð á upplýsingum frá fjármáladeild Reykjavíkurborgar um áætlaðan efnahag borgarinnar árið 2001 og samþykktri fjárhagsáætlun meirihlutans fyrir árið 2002. Þar sjáum við að heildarskuldir Reykjavíkurborgar í árslok eru áætlaðar 44,8 milljarðar í árslok án lífeyrisskuldbindinga. Samkvæmt skilgreiningu á hreinum skuldum þá eru það heildarskuldir (hér án lífeyrisskuldbindinga) að frádregnum veltufjármunum (handbæru fé, útistandandi sköttum og kröfum) og langtímakröfum, alls að upphæð 11,6 milljarðar samkvæmt sömu áætlun. Hreinar skuldir Reykjavíkurborgar samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun fyrir árið 2002 eru á 33,2 milljarða í árslok 2002 (samþykkt í borgarstjórn í desember 2001).

Samkvæmt upplýsingum frá fjármáladeild Reykjavíkurborgar um áætlaðan efnahag borgarinnar í árslok 2001 er þessi sama tala 29 milljarðar í árslok 2001. Áætluð aukning hreinna skulda á árinu 2002 er því um það bil:

33,2 - 29 = 4,2 milljarðar

Sem gefur hækkun upp á ríflega 11 milljónir króna á dag.

Í ljósi þessara talna getur tvennt útskýrt tölu R-listans upp á 6,7 milljónir á dag. Annað hvort þekkja þau rekstur borgarinnar ekki sem skyldi og þar með ekki eigin tölur - eitthvað sem er nú ekki gott afspurnar. Hitt er að það séu einfaldlega 627 dagar í árinu hjá R-listanum.”

Ársreikningur Reykjavíkur færir manni heim sanninn um að það munar ekki milljónum, ekki milljónatugum, ekki hundruðum milljóna, heldur 9,5 milljörðum króna á nokkrum vikum. Þegar þessar upplýsingar lágu fyrir var augljóst að verk var að vinna, skuldaklukkan var uppfærð eftir nýjustu staðreyndum, klukkan var endurræst og upphæðin hækkuð eftir nýjustu upplýsingum um gríðarlega skuldaaukningu borgarinnar, og það sem meira er að hraða verulega á henni til að halda í við þróunina hjá borginni og R-listanum sem heldur um völdin og þessa þróun, en vill ekki kannast við hana.

Ég hvet alla til að fara í Kringluna og horfa á skuldir borgarinnar aukast og aukast. Klukkan tifar…

stebbifr
kasmir.hugi.is/stebbif