Óöruggt Schengen - www.framfarir.net

Þeir sem eru hvað spenntastir fyrir Schengen-samstarfinu hafa alla tíð harðneitað því að öryggi og eftirlit hafi minnkað með samstarfinu og haldið því fram að þeir þættir hafi einmitt verið styrktir í sessi með því, hvernig sem þeir annars fá það út.

Nú liggur hins vegar fyrir að hugsanlega verði tekið upp vegabréfaeftirlit á Keflavíkurflugvelli, á meðan að vorfundur Atlantshafsbandalagsins stendur yfir, í því skyni að auka eftirlit og öryggisráðstafanir á flugvellinum. Það er því deginum ljósara að dregið hefur úr öryggisráðstöfunum og eftirliti á Keflavíkurflugvelli hvað sem hver segir.

Því má síðan bæta við að fyrir nokkru síðan var viðtal á Bylgjunni við Stefán Eiríksson, skrifastofustjóra hjá dómsmálaráðuneytinu, í tilefni af því að ár var liðið frá því að við Íslendingar gerðust aðilar að Schengen. Ekki verður annað sagt en að Stefán hafi átt í stökustu vandræðum með að réttlæta kostnað íslenskra skattgreiðenda vegna aðildarinnar, en hann hljóðar upp á hundruðir milljóna á ári í rekstrarkostnað á ári og nokkra milljarða í stofnkostnað. Fyrir það fé fæst sáralítið í staðinn enda kostir Schengen miklu meiri en gallarnir.

Ennfremur má nefna að í viðtali þessu sagði Stefán, varðandi mikinn straum ólöglegra innflytjenda inn fyrir landamæri Schengen, að af því þyrfti ekki að hafa miklar áhyggjur þar sem ólöglegir innflytjendur sem kæmust inn fyrir landamæri Schengen væru á ágyrgð þeirra landa sem þeir kæmust inn í gegn um. En hvernig í ósköpunum eiga menn að vita hvar ólöglegur innflytjandi, sem er gripinn t.d. í Danmörku eða hér á Íslandi, komst inn á Schengen-svæðið? Þá einkum og sér í lagi þegar ólöglegir innflytjendur eyðileggja gjarnan öll sín persónuskilríki til að villa á sér heimildum? Svarið er einfalt, menn vita ekkert um það!

Hjörtur J.
Með kveðju,