Ótrúlegt en satt, ríkið ætlar að ábyrgjast skuldabréf deCODE sem notuð verða til að byggja upp lyfjaþróunarfyrirtæki á Íslandi fyrir 20 milljarða íslenskra króna. Skuldabréfin verða gefin út með umbreytingarskilmálum. Það felur í sér að ef gengi hlutabréfa í deCODE nær ákveðnum viðmiðunarmörkum breytast skuldabréfin í hlutabréf í félaginu.

Þessi frétt er með ólíkindum og ég ætlaði ekki að trúa eigin augum þegar ég las hana. Kári fær með öðrum orðum, 20 MILJARÐA ríkisábyrgð til að byggja upp lyfjafyrirtæki, hjá gömlum bekkjarbróður sínum úr MR, Davíð Oddsyni. Eiga ekki öll fyrirtæki sem ætla að fara að standa í útflutningi heimtingu á ríkisábyrgð núna? Delta til að mynda er að standa sig ágætlega í lyfjaframleiðslu, geta þeir átt von á því að fá ríkisábyrgð líka? (varla, þeir voru ekki í bekk með Davíð!)

Þetta er hreint með ólíkindum, fyrst gengst ríkið í ábyrgðir fyrir Flugleiðir og nú fyrir Kára Stefánsson. Það er greinilega ekki sama hvort um er að ræða Jón eða Séra Jón. Kolkrabbinn og einkavinir Davíðs geta greinilega ávísað á ríkiskassann þegar þeim hentar, meðan önnur fyrirtæki verða að spjara sig á eigin rammleik.

Ég hélt að tími ríkisafskipta af atvinnulífinu væri liðinn, en svo er greinilega ekki. Óneitanlega verður gagnrýni Sjálfstæðismanna á R-listann og Línu.net hálf hjáróma, við hliðina á þessari vitleysu, þarna er um nákvæmlega sama hlutinn að ræða, nema hvað fjárhæðin er 10 sinnum hærri. Ég hef nú hingað til verið frekar hliðhollur ríkisstjórninni heldur en hitt, en þetta nýjasta útspil ásamt öllum þjófmenningarmálunum, hefur orðið til þess að ég hef misst allt traust á ríkisstjórninni og vona bara að hún komi sér frá sem fyrst. (Verst að það virðast ekki vera neinir skárri kostir í boði.)

Maður verður bara að vona að þetta brjóti í bága við EES samninginn og verði stoppað. Þá segi ég bara, að það er ekki seinna vænna að við göngum í ESB, það virðist vera eina leiðin til að vernda Íslendinga fyrir afglöpum sinna vanhæfu stjórnmálamanna.

Kveðja

Jubii