Hugmyndin um að endurskoða stjórnarskránna er alls ekki ný af nálinni. Það var stuttu eftir stofnun lýðveldisins sem því verkefni var hleypt af stað að framkvæma heildstæða endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldsins. Ástæðan var fyrst og fremst sú að hér var um að ræða þýðingu á stjórnarskrá Dana sem Kristján 9. afhenti Íslendingum árið 1874 og var því aldrei um að ræða stjórnarskrá Íslendinga. Margar nefndir hafa verið skipaðar síðan 1944 en aldrei hafa þær klárað verkið.

Nú er hefur þjóðin loksins fengið spilin í sínar hendur og í þetta sinn er enginn Trampe greifi að setja fram afarkosti eins og á Þjóðfundinum 1851. 522 einstaklingar eru í framboði til stjórnlagaþings og hafa þeir ólíkan bakgrunn. Valið á milli þeirra er alls ekki létt og á fólk það oft til að velja eingöngu það fólk sem það þekkir þá þegar. Ég vil hins vegar hvetja alla til að reyna að velja sem flesta á kjörseðilinn og miða við að velja að lágmarki 10 manns.

Ýmis réttlætismál munu örugglega vera tekin á dagskrá hjá stjórnlagaþinginu en niðurstaðan mun fara eftir þeim hóp sem verður kjörinn á þingið. Kjörsókn mun hafa áhrif á það hversu alvarlega Alþingi mun taka niðurstöðu stjórnlagaþingsins. Það er því mikilvægt að þeir sem sitja á þinginu endurspegli þjóðina sem best. Vil ég því hvetja alla til að hafa áhrif á hverjir komast inn og kjósa næsta laugardag.

- Svavar Kjarrval Lúthersson (5086)
Frambjóðandi til stjórnlagaþings