Grein sem birtist að hluta til í riti SUS síðastliðinn júní:



Í kjölfar efnahagshrunsins hafa ýmsir bent á frjálshyggjuna sem orsök þess. Þær ásakanir eiga sér enga stoð einkum vegna þess að frjálshyggjumenn gagnrýna flestir hverjir tvær meginorsakir hrunsins, innlánatryggingar og peningamálastefnu seðlabanka. Ekki verður farið í peningamál í þessari grein enda torskilið fag. Hinsvegar munu nokkrar ranghugmyndir verða hraktar, ranghugmyndir sem reynst hafa furðu lífseigar.



Innlánatryggingar



Hrun íslensku bankanna má að mestu rekja til óábyrgrar framgöngu í útlánastarfsemi. Fífldirfska í fylgd mannlegrar breyskni gróf undan stoðum bankanna. En hvað hvatti forsvarsmenn bankanna til að fara svo illa með fjármuni? Jú, þeir höfðu nefnilega tryggingu, ríkistryggingu í formi innlánatryggingar, sem átti að vernda almenning frá hremmingunum.



Þegar ríkið ábyrgist innistæður í bönkum gjörbreytist hugarfarið. Peningum innistæðueigenda er ráðstafað með einkar óæskilegum hætti, án sérstaks tillits til áhættu, því ríkið ábyrgist jú ef illa fer. Skilaboð ríkisins eru einföld:



„Þið getið geymt peninga ykkar í hvaða banka sem ykkur lystir, við ábyrgjumst þá.“



Hagi viðskiptavinur ekki valinu eftir áhættu hvers banka leitar hann skiljanlega í þann sem hefur hæstu innlánsvextina og lægstu útlánsvextina. Innlán eru peningarnir sem fólkið lánar bankanum, innstæður. Útlán eru hinsvegar lán bankans til almennings og fyrirtækja svo sem húsnæðislán. En þeir bankar hafa efni á svo lágum kjörum einmitt vegna áhættuhneigðar þeirra. Því eiga fjármunir almennings það til að safnast á hendur mishæfra hirða þegar vaxtakapphlaupið stigmagnast.



Ef ríkisábyrgðin yrði afnumin þyrfti hver viðskiptavinur að bera traust til þess sem sæi um fjármuni hans, traust byggt á þekkingu. Þetta tiltekna traust yrði að öllum líkindum endurgoldið með betri meðhöndlun og meiri gaumgæfni. Hæfi banki að lána einhverjum afglöpum háar fjárhæðir myndi hann tapa viðskiptavininum. Innistæðueigendur þyrftu þá að meta stöðu hvers banka og starfsemi hans áður en ákvörðun væri tekin. Slíkt er þegar gert á flestum sviðum. Þegar kaupa á bíl eru ýmsir þættir sem hafa áhrif á valið t.d. árgerð, bilanatíðni og keyrsla. Vandi viðskiptavinurinn ekki valið kann hann að sitja uppi með ónýtan bíl. Bætti ríkið tap hvers sem tekur glórulausa ákvörðun í bílakaupum yrðu skattgreiðendur viti sínu fjær. Sú er einmitt raunin í bankakerfi okkar.



Versta form frelsis er frelsi án ábyrgðar. Hver og einn verður að sýna skynsemi í ráðstöfun síns eigin fjár ella muni hann tapa fénu fyrir fullt og allt. Sá hugsunarháttur að ríkisstjórnin geti þvingað hvern einstakling með valdi til að greiða fyrir tap annarra borgara samfélagsins ætti fyrir löngu að vera grafinn.







Tollar



Tollar eru tekjustofn sem skattgreiðendur draga sjaldan í efa. Þeir eru tvenns konar, verndartollar og fjáröflunartollar. Fjáröflunartollar þjóna sama tilgangi og skattar, ríkið krefst gjalds á ákveðnum innfluttum vörum til að fjármagna starfsemi sína sem fer sívaxandi. Óþarfi er að fara út í það nánar enda skerða þeir augljóslega kaupmátt neytenda. Tilvist verndartolla er af öðrum toga. Til nánari útskýringar eru verndartollar gjöld sem ríkið leggur á innfluttan varning í því skyni að gera íslensk fyrirtæki samkeppnishæfari þeim erlendu. Yfirskrift áróðursins er oft „verndun íslensks atvinnulífs“, sér í lagi landbúnaðar, og vissulega vernda þeir ákveðinn hóp í atvinnulífinu. En talsmenn verndartolla líta fram hjá hliðarafleiðingunum, þeir sjá aðeins áhrifin á einn hóp til skamms tíma.



Tökum grænmetisiðnaðinn sem dæmi. Gerum ráð fyrir að innlendur aðili selji kíló af íslensku grænmeti á 1.000 kr. Gerum einnig ráð fyrir að erlendur aðili geti selt kíló af erlendu græmeti á 500 kr. á íslenskum markaði. Fylgi ríkið kröfum innlenda iðnaðarins eftir með 500 kr. toll á innfluttar vörur hefur verðmunurinn verið jafnaður. Þá gæti litið út fyrir að ríkið hafi bjargað þeim störfum sem finnast fyrir í innlenda verndaða iðnaðinum. En neytendur hafa nú 500 færri krónur til eyðslu í aðra atvinnuvegi sem verða því af tekjum. Störfin sem ríkið bjó til með tollunum hjá verndaða iðnaðinum voru í raun sköpuð á kostnað annarra starfa. Hinsvegar voru neytendur hvattir, með tollunum, til að kaupa vörur af fyrirtæki sem framleiðir þær á mun óhagkvæmari hátt en annað fyrirtæki í sömu atvinnugrein. Samfélagið er fátækara af verðmætum.



Tollar hér á landi og annars staðar á Vesturlöndum hafa einnig áhrif á önnur lönd og þá sér í lagi þróunarlöndin. Væru þeir afnumdir ykist sala á varningi frá þróunarlöndunum enda lækkar verð hans á íslenskum markaði. Aukin útflutningur væri hinum allslausu ríkjum kærkomið tæki til að brjótast til bjargálna. Frjáls viðskipti eru skynsamasta lausnin fyrir Ísland og önnur lönd og ættum við ekki að takmarka þau sökum ofurtrúar á íslenskum landbúnaði og síaukinnar fjárþarfar ríkisins.



Lágmarkslaun



„Samkennd“ félagshyggjumanna (eða sósíalista öðru nafni) ber oft keim af þröngsýni og skammhygli. Þeir telja að ákveðin mánaðarleg upphæð sé fæðingarréttur hvers lifandi manns. Líkt og með tollana beina þeir augum sínum einungis að ákveðnum hópi og áhrifunum á hann en líta algjörlega fram hjá öðrum.



Fyrst verðum við að gera okkur grein fyrir því að laun eru einfaldlega verð á þjónustu.

Hvers kyns verðstýring ríkisins hefur ávallt slæmar afleiðingar í för með sér. Röskun á jafnvægi framboðs og eftirspurnar skilar ýmist skorti eða óhagkvæmi í framleiðslu en ekki verður farið nánar í það að sinni. Lög um lágmarkslaun eru verðstýring ríkisins á þjónustu. Þau kveða á um að enginn megi vinna nema fyrir tilekna upphæð. Séu lágmarkslaun á Íslandi 150.000 kr. á mánuði, og þetta er gróft mat hjá greinarhöfundi, banna þau einstaklingum að vinna fyrir 140.000 kr. á mánuði. Vegna laganna hafa ýmis störf horfið og sést það best í Bandaríkjunum.



Á árum áður voru sætavísur í bandarískum bíóum og farangursberar á flugvöllum. Þá var einnig minna um plashnífapör á skyndibitastöðum, fyrirtækin gátu borgað auka starfsmönnum fyrir uppvask. Ungir og upprendandi starfsmenn bensínstöðva þrifu rúður bíla. En nú á dögum hafa fyrirtækin ekki efni á því að bjóða minniháttar aukaþjónustu, verð hennar er of hátt. Ástæðan er lágmarkslaun.



Afleiðingar þessara laga eru aukið atvinnuleysi og færri tækifæri ungs fólks á vinnumarkaðinum. Í stað gífurlegrar eyðslu í óskilvirk störf unglinga ætti ríkið að stíga úr vegi og stuðla þar með að atvinnusköpun markaðarins. Markaðurinn hefur fulla getu til að samræma framboð og eftirspurn þannig að almenningur í heild njóti góðs.



Björgun fyrirtækja



Hrun húsnæðislánamarkaðar Bandaríkjanna árið 2007 hafði keðjuverkandi áhrif sem umturnuðu ýmsum atvinnugreinum. Umsvifamikil fyrirtæki svo sem tryggingarisinn AIG, Lehman bankinn og hið fornfræga bílafyrirtæki Chrysler urðu gjaldþrota. Bandaríska ríkisstjórnin ákvað að dæla gríðarlegum fjárhæðum í þessi fyrirtæki og önnur að Lehman bræðrum undanskyldu. Þess konar framkvæmd er þekkt undir enska nafninu „bail-out“. Réttlæting framkvæmdarinnar var sú að þessi tilteknu fyrirtæki væru of stór til að falla, atvinnuleysi ykist, viðskipti fyrirtækisins við aðrar greinar féllu niður sem myndi enn fremur fækka störfum, með öðrum orðum að þá væru keðjuverkunaráhrifin svo mikil. Þessar staðhæfingar eru sannar en fjárhagslegur styrkur ríkisins til fyrirtækjanna er ekki lausnin.



Til að fjármagna styrkina þarf að skattleggja almenning eða taka lán sem mun þó að lokum leiða til aukinnar skattheimtu. Svipað tollunum er styrkurinn aðeins færsla fjármagns, störf haldast á kostnað annarra – oft og tíðum á kostnað miklu fleiri starfa. Munurinn er liggur í hagkvæmni. Fyrirtækin fóru á hausinn vegna þess að þau gátu ekki framleitt og selt varning sinn á jafn skilvirkan og ódýran hátt og önnur. Leggist þau á spena ríkisins hyglir það óhagkvæmni í framleiðslu og er ríkið því að takmarka hagkvæma verðmætasköpun. Auk þess hefur viðbætta skattbyrðin og vaxandi skuldir ríkisins lamandi áhrif á efnahagslífið allt.



Geta má að bandaríska ríkisstjórnin hefði getað afnumið tekjuskatt í um það bil þrjú ár í stað þess að styrkja fyrirtækin, svo gríðarlegar eru þessar styrkgreiðslur. Með slík fjárráð milli handanna hefðu skattborgarar án efa stórbætt ástandið og skapað störf með auknum sparnaði og neyslu.



Leiðréttingar eru vel þegnar enda er alltaf gott að auka skilning sinn á þessu sviði.
“That´s my Christmas card”