Vopnaleit í innanlandsfluginu

Hingað til hefur ekki þótt ástæða til að leita að vopnum á farþegum í innanlandsflugi á Íslandi eða gegnumlýsa farangur þeirra en slíkt gæti orðið að veruleika ef ný reglugerð Evrópusambandsins (ESB) um flugöryggi verður samþykkt í Evrópuþinginu. Myndi það þýða verulegan útgjaldaauka í för með sér í innanlandsfluginu sem þó stendur ekkert of föstum fótum fyrir.

Hingað til hafa slíkar ráðstafanir ekki verið viðhafðar í innanlandsflugi á Íslandi, eins og menn vafalaust þekkja, en þetta gæti breyzt sem fyrr segir enda mun umrædd reglugerð gilda á öllu hinu Evrópska efnahagssvæði (EES).

“Auðvitað er ekki auðvelt að koma þessu við. Þetta kostar gríðarlega fjármuni og það er ljóst að ef þarf að taka þetta upp hér á landi í óbreyttu formi yrði þetta feiknalega dýrt”, sagði Þorgeir Pálsson flugmálastjóri á málþingi um samgönguáætlun 2003-2004 sem fram fór þann 25. mars sl.

Í Morgunblaðinu 26. mars sl. kemur fram að íslenzk flugfélög í innanlandsflugi hafi tapað 1,7 milljörðum króna á síðustu fjórum árum. Ekki kom fram í máli Þorgeirs hvaða aðilar muni þurfa að bera þennan mikla aukakostnað; flugfélögin, farþegar eða ríkið.

Þetta er nú bara eitt af mörgum dæmum um hluti sem okkur Íslendingum er gert að taka upp í samræmi við einhverja Evrópustaðla sem eru ákvarðaðir með aðstæður á meginlandi Evrópu í huga en ekki hér á Íslandi.

Annað dæmi er t.d. hvíta miðjulínan á vegum landsins sem sést illa þegar snjór er á vegunum enda fellur hún þá einfaldlega saman við snjóinn og þá einkum snjórákir sem myndast gjarnan langsum á veginum eftir bifreiðahjólbarða.

Gula línan sem áður prýddi íslenzka vegi, og sem m.a. er notuð í Bandaríkjunum, sást miklum mun betur en sú hvíta en með samþykkt EES-samningsins urðum við að taka upp hvítu línurnar til samræmis við aðstæður á meginlandi Evrópu sem eru ósjaldan í engu samræmi við aðstæður hér. Þetta segir sennilega ýmislegt um það hvernig okkar hagsmunir komi til með að víkja fyrir hagsmunum stóru ríkjanna í ESB ef við gerðust aðilar að sambandinu.

Hjörtur J.

Heimild:
“Flugvernd komi í innanlandsflugi” - Morgunblaðið 27. mars 2002.
Með kveðju,