Breski íhaldsflokkurinn bætir við sig fylgi Sæl öll,

Eftirfarandi frétt er að finna á Mbl.is:



“Breski Íhaldsflokkurinn bætir við sig fylgi á kostnað Verkamannaflokks

Svo virðist sem fjölgun glæpa hafi orðið til þess að draga úr vinsældum stjórnar Tonys Blairs.

Vinsældir breska Íhaldsflokksins hafa aukist á kostnað vinsælda Verkamannaflokksins, sem heldur um stjórnartaumana, að því er kemur fram í niðurstöðum skoðanakönnunar sem birtar voru í dagblaðinu Guardian. Stuðningur við Íhaldsflokkin jókst um fjögur prósentustig á einum mánuði.

Stuðningur við Verkamannaflokkinn minnkaði að sama skapi frá því fyritækið ICM gerði sambærilega könnun fyrir mánuði. Stuðningur við Verkamannaflokkinn er þó enn níu prósentustigum meiri en stuðningur við Íhaldsflokkinn.

Glæpir virðast vera helsta ástæða þess að stuðningur við Verkamannaflokkinn hefur dvínað, en 55% aðspurðra sögðu að glæpum hefði fjölgað í fimm ára stjórnartíð Tonys Blairs forsætisráðherra.

Þá sögðu 37% að almenningsþjónustu hefði hrakað en 14% sögðu að hún hefði batnað.”



Vera má að Íhaldsflokkurinn breski sé loksins að ná vopnum sínum í átökunum um fylgi breskra kjósenda þó taka beri þessum fregnum að sjálfsögðu með miklum fyrirvara. Hér er hugsanlegt að um sé að ræða fylgisaukningu sem einungis er bundin ákveðnu tímabundnu ástandi sem kunni að breytast og þar með fylgi flokkanna líka.

Það er annars alkunna að stjórnarandstöðuflokkar eiga það til að fá fylgisaukningu á miðju kjörtímabili sem svo gengur til baka er nær dregur kosningum. Er oft sagt að þetta sé leið kjósenda þess/þeirra flokka sem eru í stjórn til að senda frá sér skilaboð um að menn séu ekki á allt sáttir með aðgerðir viðkomandi flokks/flokka.

Einnig má ekki gleyma því að ósjaldan kemur þreyta í kjósendur þegar sömu aðilarnir hafa verið við völd lengi og þá verður grasið oft grænna hinum megin og menn vilja breyta til í von um eitthvað betra. Í þeim tilfellum þar ekki einu sinni að vera að ástand mála í viðkomandi þjóðfélagi sé endilega slæmt.

Það verður því fróðlegt að sjá hver þróunin verður á næstu vikum og mánuðum í þróun fylgis bresku flokkanna.

Kv.

Hjörtur J.
Með kveðju,