Sömu laun fyrir sömu vinnu

Nokkuð virðist bera á því að útlendingum, sem koma hingað til lands til að vinna í lengri eða skemmri tíma, sé ekki greidd laun samkvæmt ráðningarsamningum sínum né samkvæmt gildandi kjarasamningum. Ennfremur ber á því í þessum tilfellum að umræddum útlendingum sé ekki afhent afrit af ráðningarsamningnum eftir að þeir undirrita hann.

Svona lagað gengur auðvitað ekki enda er þetta ekki bara ósanngjarnt gagnvart hinu erlenda vinnuafli sem fyrir slíku verður heldur lýsir þetta einnig alveg einstakri þröngsýni. Atvinnurekendur sem slíkt gera eru nefnilega með hátterni sínu að grafa undan áratuga kjarabaráttu íslenskra launþega. Það á einfaldlega að greiða sömu laun fyrir sömu vinnu. Það sem skiptir máli á að vera vinnan sem er unnin, og hvernig hún er unnin, en ekki hver vinnur hana.

Í VII. kafla stefnuskrár Flokks framfarasinna segir um þessi mál: “Tryggja verður að atvinnurekendur geti ekki flutt inn erlent vinnuafl og greitt því lægri taxta en gildandi kjarasamningum kveða á um. Slíkt er ekki einungis ósanngjarnt gagnvart hinu erlenda vinnuafli heldur og myndi slíkt grafa undan, og jafnvel gera að engu, áratuga kjarabaráttu launþega á Íslandi.”

Þetta er einfaldlega bara spurning um að horfa á stóru myndina, þ.e. heildarhagsmuni þjóðfélagsins, en ekki einblína bara á litlu myndina, þ.e. einkahagsmunina. Auk þess hlýtur það að segja sig sjálft að greiða ber sömu laun fyrir sömu vinnu, eins og áður hefur verið minnst á, hvort sem um er að ræða útlendinga eða aðra.

(Höfundur greinarinnar er Magnús Pálsson greinahöfundur á Framfarir.net. Birt hér með góðfúslegu leyfi hans.)

Hjörtur J.
Með kveðju,