Finnar óánægðir með þróunina innan Evrópusambandsins
www.framfarir.net

Finnar eru farnir að ugga um hag sinn innan Evrópusambandsins vegna þess að stóru ríkin í sambandinu, Bretland, Frakkland, Þýskaland og Ítalía, hafi of mikil völd innan þess. Séu stóru ríkin í auknum mæli farin að sýna vilja í þá átt að skara eld að eigin köku á kostnað hagsmuna minni aðildarríkja sambandsins.

Sagði Paavo Lipponen, forsætisráðherra Finnlands, í nýlegu viðtali að aukið samstarf á milli einstakra aðildarríkja sambandsins ógnaði hagsmunum Finna. Sagði hann ennfermur að yrði Evrópusambandið fært í átt að auknu samstarfi ríkisstjórna þýddi það að ákvarðanirnar færðust frá sameiginlegum vettvangi til bakherbergja. Það þýddi ennfremur að innan sambandsins gætu myndast ákveðin bandalög aðildarríkja sem síðan stæðu í hagsmunastríði við önnur slík eða við einstök aðildarríki.

Forsætisráðherrann sagði ennfremur að stóru þjóðirnar innan Evrópusambandsins stefndu nú að því að minnka áhrif minni þjóða innan sambandins, m.a. með innleiðingu meirihlutavalds í stað samþykkis allra aðildarríkjanna. Ennfremur að það sé stefna þeirra að minnka völd framkvæmdarstjórnar sambandsins, þar sem hver aðildarþjóð hefur einn fulltrúa, og koma á fót nýrri yfirframkvæmdastjórn þar sem stóru ríkin réðu í einu og öllu.

Finnar geta auðvitað bara sjálfum sér um kennt að hafa farið þarna inn. Hins vegar er umhugsunarefnið fyrir okkur Íslendinga það hvernig hagsmunum okkur myndi vegna innan Evrópusambandsins þegar þjóð eins og Finnar, upp á rúmar 5 milljónir manna, er farin að hafa áhyggjur af hag sínum innan sambandsins?

Heimild m.a.:

“Völd stórþjóða í ESB of mikil?”, Morgunblaðið 26. febrúar, 2002.

Hjörtur J.
Með kveðju,