Íslenski flokkurinn er íþróttafélag.


Hafið þið fylgst með stuðningsmönnum íþróttafélaga horfa á fótboltaleik? Ef liðsmanni er gefið rautt spjald af dómara þá standa þeir upp og öskra á sjónvarpið. Auðvitað er dómarinn algjör vitleysingur. Jafnvel þó liðsmaðurinn hafi tæklað og fótbrotið andstæðing sinn þá er algjört rugl að reka hann út af. En ef dómarinn gefur liðsmanni færi á víti í samskonar aðstæðum þá er það sjálfsagt réttlætismál, enda klárlega búið að brjóta á honum.

Sjálfstæðismönnum er gjarnt að tala um Jón Ásgeir sem sérlegan stuðningsmann Samspillingarinnar. Framsóknarfólk getur nefnt mörg dæmi um spillingu sjálfstæðisflokks en þjáist oft af sérkennilegu minnisleysi þegar það er spurt út í sinn eigin flokk og seinustu 18 ár. Samfylkingin tekur við fé frá S-hópnum og gagnrýnir Framsókn fyrir að gera það sama. Framsóknarfólk þiggur styrki frá S-hópnum en hikar ekki við að gagnrýna Samfylkinguna fyrir það sama. Ég hef séð bloggpósta frá stuðningsmönnum beggja flokka þar sem alls kyns reiknikúnstum var beitt til að sýna hvor flokkurinn fékk meiri styrki.

Aldrei þessu vant er ég sammála Guðlaugi Þór þegar hann sagði að á flokkunum væri stigsmunur en ekki eðlis í styrkjamálunum.

Að þiggja fimm milljónir frá fyrirtækinu Eykt og gefa því svo skotleyfi á Borgartúnið er varla til fyrirmyndar. Er það verra að þiggja 30 milljónir frá FL-group og reyna svo að einkavæða orkuveituna í hendur sama fyrirtækis? Hver er munurinn á því að Guðlaugur Þór fái styrki frá FL-group og að Helgi Hjörvar fái þá? Annar úr samspillingunni, hinn úr sjálfstökuflokknum. En hver er munurinn?

Sá sem horfir á fótboltaleikinn hlutlausum augum veit að Ronaldho er jafn brotlegur og Ronaldhino, og að báðir fái rautt spjald sé eðlilegt. Sá sem horfir á fótboltaleikinn frá sjónarhóli Manchester, Liverpool, Real Madrid eða Barcelona, mun sjá allar flísar á vellinum en aldrei bjálkann í auganu sínu.

„Ég styð Manchester United af því pabbi minn studdi Manchester United. Þegar ég var fimm ára þá sátum við saman og ég horfði á minn fyrsta leik. Þegar pabbi klappaði, klappaði ég, þegar pabbi öskraði, öskraði ég. Þannig varð ég Manchester aðdáandi.”

„Ég kýs sjálfstæðisflokkinn af því þegar ég var lítill þá fór ég í páskaeggjaleit á Ægisíðunni. Pétur Blöndal og Birgir Ármanns settu leitina í gang, ungliðar úr Heimdalli voru búnir að dreifa súkkulaðieggjunum, pabbi hjálpaði mér að leita. Svo gekk ég í flokkinn í fylleríi þegar ég var sextán ára en það er önnur saga.”

Alveg eins og íþróttafélög ganga flokkarnir út á boli og barmmerki. Hoppukastala handa litlu krökkunum, grill handa stuðningsmönnum, og sameiginlegar vökur til að fylgjast með úrslitum leikja.



Íslenski flokkurinn er fjölskyldufyrirtæki.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er formaður framsóknarflokksins. Gunnlaugur pabbi hans var þingmaður fyrir flokkinn.

Jóhanna Sigurðardóttir er formaður samfylkingarinnar. Sigurður pabbi hennar var þingmaður alþýðuflokksins.

Bjarni Benediktsson er formaður sjálfstæðisflokksins alveg eins og föðurbróðir hans Bjarni Benediktsson var. Björn Bjarnason var dómsmálaráðherra alveg eins og pabbi hans Bjarni Benediktsson. Hvað eru margir Bjarnar í því?

Reyndar eru allir Bjarnarnir afkomendur Benedikt Sveinssonar sem á sínum tíma var nefndur stjórnarformaður Íslands. (Enda átti hann mörg fyrirtæki). Þriðji sonur hans Pétur giftist Mörtu dóttur Ólafs Thors sem var forsætisráðherra og formaður sjálfstæðisflokksins í 27 ár. Thorsararnir eru svo sér stúdía en innihalda danska kaupmanninn Thor Jensen, Thor Thors alþingismann og Björgólf Thor Guðmundsson sem fékk eflaust landsbankann fyrir hreina tilviljun.

Önnur dönsk kaupmannsætt væri Mathiesen ættin, með Matthíasi Mathiesen og Árna Mathiesen. Báðir voru fjármálaráðherrar á sínum tíma.

Guðmundur Steingrímsson fór í framboð fyrir framsókn í Norðvestur-kjördæmi. Steingrímur Hermannsson pabbi hans fór í framboð fyrir framsókn á vestfjörðum líka. Hermann afi Guðmundar fór fyrstur í framboð í Vestfjörðum. Hermann varð forsætisráðherra, Steingrímur varð forsætisráðherra og Guðmundi langar að verða forsætisráðherra.

Jón Baldvin Hannibalsson fyrrum ráðherra er sonur Hannibals Valdimarssonar fyrrum ráðherra. Báðir voru formenn alþýðuflokksins.

Þetta gæti orðið langur listi og þunglyndislegur. Maður vill gjarnan trúa því að Ísland sé lýðræði en ekki konungsdæmi, en ég veit ekki hvort að hlutlaus rannsókn myndi leiða það í ljós.


Íslenski flokkurinn er trúfélag


Þegar flokkurinn segir að eitthvað sé satt þá er það þannig. Maður fer ekki gegn vilja flokkþingsins þó stjórnarskráin segi að maður eigi að fylgja sannfæringu sinni. En stjórnarskráin er hvort sem er svo ómerkilegt plagg.

Stjórnmálaflokkar Íslands eru ekki svo ólíkir kaþólsku kirkjunni. Þegar velja átti nýjan formann fyrir sjálfstæðisflokkinn lokuðu flokksmenn sig inn í Laugadalshöllinni þar til hvítur reykur kom út um strompinn. Þetta eru svipaðar starfsaðferðir og tíðkast í Vatíkaninu, þar sem kardínálarnir sitja og stunda það sem anarkistar kalla víst: consensual decisionmaking.

Eða þannig, auðvitað er þetta bara ofurútgáfan af reykfylltu bakherbergi.

Um leið og framsóknarformaðurinn ákvað að 20% afskrift væri lausnin urðu allir framsóknarmenn sammála um að það væri lausnin. Um leið og samfylkingarforystan ákvað að 20% afskrift væri ekki lausnin urðu allir samfylkingarmenn sammála um að 20% afskrift væri ekki lausnin. Þegar framsóknarmaður færir rök fyrir 20% afskrift við meðlim í VG mun hvorugum takast að sannfæra hinn. Hlutlaus aðili gæti komist að þeirri niðurstöðu að rökstuðningur framsóknarmannsins væri betri, hann gæti líka dæmt VG í hag. En það myndi breyta afstöðu hvorugs þeirra, því báðir fara eftir niðurstöðu landsfundar og ákvörðun formannsins.

Alveg eins og góðir kaþólikkar vita að smokkar eru af hinu illa þá veit meðlimur VG að 20% afskrift virkar ekki.

Alveg eins og góðir mormónar vita að fjölkvæni er æðislegt þá veit meðlimur framsóknar að 20% afskrift er æðisleg líka.

Og ungir frjálshyggjumenn vita að hin ósýnilega hönd markaðarins mun leiða að bestu niðurstöðu í borgarskipulaginu. Og ungir kalvínistar vita að hin ósýnilega hönd guðs passar upp á þá sem vert er að passa upp á. Hver er annars munurinn á frjálshyggjumönnum og kalvínistum?

Hver er munurinn á þeim sem trúa á díalektík og að öfl sögunnar muni leiða til kommúnískrar útópíu, og þeim sem trúa því opinberunarbók biblíunnar sem nákvæm lýsing á framtíð mannkynsins?

Hver er munurinn á því að vera í framsókn, VG, samfylkingu, sjálfstæðisflokk og því að vera í þjóðkirkjunni, krossinum, vísindakirkjunni eða hvaða trúarflokk sem er.

Hafið þið einhvern tímann séð meðlim VG sannfæra meðlim sjálfstæðisflokk um að hinn síðarnefndi hafi rangt fyrir sér?

Hafið þið einhvern tímann séð meðlim framsóknar sannfæra meðlim samfylkingar um að hinn síðarnefndi hafi rangt fyrir sér?

Ástæðan fyrir því að þið hafið ekki séð það gerast er sú að það er ekki hægt að rökræða trú.
Það er ekki hægt að rökræða stuðning við íþróttafélög.
Og það er ekki hægt að hafna fjölskyldu sinni.

En er líf utan íslenska flokksins?