Flokksfélagar mínir í Heimdalli hófu baráttu sína fyrir þessar kosningar í gær með því að birta lista yfir nokkur brýn stefnumál sem Sjálfstæðisflokkurinn ætti að leggja áherslu á borgarstjórnarkosningunum 2002. Ég tel rétt eins og þeir að afar brýnt sé að fara að huga að þeim stefnumálum sem flokkurinn ætlar að vera með í málefnaskrá sinni.

Eitt af helstu kosningamálum í vor í mínum huga mun verða að auka framboð á lóðum í borginni. Þar erum ég og félagar mínir í Heimdalli hiklaust á þeirri skoðun að nægjanlegt framboð sé forsenda þess að hægt sé að bjóða upp lóðir þannig að allir geti fengið lóðir við sitt hæfi. Sóknarfæri borgarinnar til vaxtar liggja víða, bæði í sjálfstæðari úthverfum og ekki síður í öflugri miðborgarkjarna þar sem Hafnar- og Háskólasvæðið geta veitt svigrúm til vaxtar.

Annað brýnt mál er uppbygging miðbæjarins. Hnignun er að verða staðreynd í miðbænum, verslunum og þjónustufyrirtækjum fækkar jafnt og þétt, samkvæmt könnunum, það þarf að lífga upp á miðbæinn. Ég tel að leyfa eigi byggingu háhýsa, margar hæðir upp í loft, allt í kringum miðbæinn. Það á að auka íbúðaframboð fyrir ungt fólk sem vill búa miðsvæðis í borginni. Með því að byggja háhýsi í miðbænum kemur líf í miðbæinn og fleira fólk myndi setjast þar að.

Verslanir og önnur fyrirtæki í miðborginni hafa farið halloka í samkeppni við Kringluna og nú nýlega Smáralind í Kópavogi. Nauðsynlegt er að að hagsmunaaðilar, t.d. verslunarmenn, eignist bílastæðahús og bílastæði þau sem nú eru í eigu bílastæðasjóðs Reykjavíkurborgar, með því geta verslanir í miðborg Reykjavíkur boðið kúnnum sínum ókeypis bílastæði líkt og tíðkast annars staðar.

Afar brýnt er að álögur á borgarbúa verði lækkaðar. Útsvarshlutfall borgarinnar ætti að lækka í 11,24% nú þegar. Við bætist að fasteignagjöld hafa hækkað gríðarlega á valdatíma R-listans. Það er nauðsynlegt að þessari þróun verði snúið við. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að holræsagjöld R-listans hafi verið dökkur blettur á valdaferli þeirra, þau á að afnema án tafar.

Samkvæmt lögum um tekjustofn sveitarfélaga skal útsvarsprósenta sveitarfélaga vera að minnsta kosti 11,24% og í mesta lagi 13,03%. Alþingi ætti að heimila sveitarstjórnum að ákveða sjálf útsvarshlutfall. Með því móti má hvetja til virkrar og nauðsynlegrar samkeppni á milli sveitarfélaga.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að það sé ekki hlutverk ríkisins að reka fyrirtæki sem blómstrað gætu í eigu einkaaðila. Ég er þeirrar skoðunar að borgin ætti að selja Orkuveitu Reykjavíkur og hlut sinn í Landsvirkjun.

Nauðsynlegt er að borgin sé rekin með þá hugsjón að leiðarljósi að einstaklingurinn og fjölskyldan séu í fyrirrúmi. Það er löngu tímabært að leggja af þær hindranir sem svo víða eru til staðar í þunglamalegu borgarkerfinu. Það er nauðsynlegt að virkja þann kraft sem býr í borgarbúum í þágu aukins öryggis, menntunar og lifandi borgarhverfa. Það er nefnilega svo að engum er betur treystandi fyrir málefnum Reykjavíkur en borgarbúum sjálfum.

Það er nauðsynlegt að borgin taki á sig rögg og endurheimti forystuhlutverk sitt og standi undir merki sem forystuafl, rétt eins og það var hér á árum áður, hún þarf að standa undir merki sem höfuðborg landsins. Það hefur verið of lengi setið hjá á meðan nágrannabyggðirnar blómstra.

R-listinn hefur á undanförnum átta árum unnið sér frægð með því að gera skýrslur, skipa nefndir, ráð og nýja stjórnendur. Þrátt fyrir það hefur sáralítið gerst. Ljóst er að afar lítið hefur gerst sem máli skiptir í Reykjavík. Þetta er staðreynd þrátt fyrir margfalda skuldaaukningu og hækkun skatta. Eftir átta ára tilraun R-listans við stjórn borgarinnar er flestum ljóst að tilraunin hefur mistekist og breytinga er þörf. Reykjavík á betra skilið.

stebbifr
http://kasmir.hugi.is/stebbif