Einn félaga minna hafði á orði við mig í símtali í kvöld að nú væri Ingibjörg Sólrún búin að fá sínu fram og losa sig í einni snemmbúinni vorhreingerningu við helstu vegartálma sína innan borgarstjórnarflokks R-listans. Margt er til í því. Mikið hjaðningavíg var sett á svið af leiðtoga R-listans með því að fá æskuvin hennar og áróðursmeistara Stefán Jón Hafstein í framboð til að fella þá Arnarsson og Hjörvar (Hrannar B. Arnarsson og Helga Hjörvar).

Sjálfstæðisflokkurinn hélt fram fortíð þessara fjármálasnillinga í síðustu kosningum og þá gerði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir allt til að vernda þá félaga (enda var R-listasamstarfið þá í húfi). Nú ákvað hún eins og fyrr segir að kalla skólabróður sinn og áróðursmeistara allt frá í Háskólanum, Stefán Jón Hafstein, til að taka sess þeirra og það sem meira var, að fella þá. Það mátti fyrirfram reyndar (eins og ég sagði í síðustu viku) alveg slá því föstu að Stefán Jón yrði í þriðja sætinu, enda hafði hann öflugan stuðning borgarstjórans og vinaklíku hennar, enda oft kallaður einkavinur borgarstjóra. Stefán Jón hefði aldrei farið í þennan slag nema með mikinn stuðning ISG og hennar áhangenda á bak við sig. Það var augljóslega ætlun borgarstjórans frá upphafi að slátra Helga og Hrannari eins og fyrr segir.

Stefán Jón var sendur af Ingibjörgu Sólrúnu til að koma þeim Helga og Hrannari út af listanum, af því að þeir væru ekki trúverðugir og staðfesti þannig ábendingar sjálfstæðismanna í kosningunum 1998 - enn ein u-beygja ISG - nú gegn eigin samstarfsmönnum, sem hún varði 1998 og taldi hina allra hæfustu menn til að fara með stjórn Reykjavíkur. Það var ekki lítil heift
gegn sjálfstæðismönnum á þessum tíma fyrir að benda á ávirðingar þeirra Helga og Hrannars - hvað gera stuðningsmenn þeirra nú? Una þeir því, að þeir skuli sviptir pólitísku lífi af samherjum sínum? Stefán Jón er óþekkt stærð í stjórnmálum en hann er valdamaður innan Samfylkingarinnar og framboð hans var kynnt í prófkjörinu á þeirri forsendu, að ISG væri á leið í landsmálin og þyrfti mann til að taka sinn sess, það væri Stefán Jón.

Nú þarf Ingibjörg að svara hreint út, er Stefán Jón settur fram sem arftaki hennar?

stebbif