Við Íslendingar erum haldnir einhverri sérfræðinga maníu. Um leið og einhver fígúran hefur fest kaup á 3 eða 4 hlutabréfum og selt þau aftur þá er hann orðin sérfræðingur í þeim viðskiptum og fer að selja þjónustu sína sem slíkur, og verðleggur sig sem Hafliði forðum. En ef illa tekst til ber “sérfræðingurinn” enga ábyrgð á sínum ráðleggingum. Stjórnendur fyrirtækja virðast verða máttlausir í hnjánum þegar orðið sérfræðingur er nefnt rétt eins og táningsstúlka sem lítur átrúnaðargoð sitt augum. Slegist er um þjónustu sérfræðinganna sem fá sina þjónustu vel greidda þótt þeir viti oft á tíðum minna um málefnið en viðskiptavininir, en komast frá málinu á góðum talanda. Gott dæmi er maður sem fór sem farþegi með frystitogara í túr. Hann var um borð í 4 daga til að kynna sér vinnubrögðin og meðferð aflans, þá fór hann í land með öðru skipi. Síðan ferðaðist hann um landið og hélt námskeið fyrir áhafnir frystitogara og seldi þjónustu sína dýrt sem sérfræðingur í gæðastjórnun og vinnslu um borð í frystiskipum. Ekki gleyptu nú allir við þessu en nógu margir til þess að vinurinn gerði það gott. Engum sögum fer af arðsemi þeirrar fjárfestingar.
Sá brandari var sagður að ef þrír Mexikanar hittust væri einn þeirra óðar búinn að titla sig sem hershöfðingja. Mér sýnist þessu líkt farið með okkur Íslendinga. Komi þrír Íslendingar saman er einn þeirra strax orðinn sérfræðingur.

Um fátt eða ekkert hefur verið meira rætt síðustu dægrin en málefni Símans. Þar hefur hvert hneykslið og klúðrið rekið annað varðandi einkavæðinguna. Leitun virðist að einhverju sem gert hafi verið rétt í því ferli. Þetta hefur verið sérlega einkavina vinveitt ferli. Nýjasta bomban er sjálftaka stjórnarformannsins á launum. Allt þetta mál er með eindæmum. Ákvörðun virðist hafa verið tekin í stjórn Símans um að ráða sérfræðinga stjórninni til halds og trausts. Menn hafa síðan ráðið sjálfa sig sem sérfræðinga og ráðgjafa, hægri höndin síðan rukkað fyrir aðstoð við vinstri höndina.
Ljóst má vera að “stjórnarmaðurinn Jón” væri ekki nein alfræðibók og því ekkert sjálfsagðara en að kalla til “sérfræðinginn Jón” til ráðgjafar. “Sérfræðingurinn Jón” hefur síðan séð til þess að “stjórnarmaðurinn Jón” gat tekið réttar ákvarðanir í erfiðum málum. “Sérfræðingurinn Jón” þarf auðvitað sína umbun sem er launum “stjórnarmannsins Jóns”, sem eftir aðstoðinni kallaði, alveg óviðkomandi.
Engu er líkara en hér sé á ferðinni Spaugstofuatriði en ekki blákaldur veruleikinn.

Nú er ljóst að stjórnarformaðurinn hefur ekki farið varhluta af ráðgjafaþörfinni og samið um hana beint við ráðherra samgöngumála, Sturlu Böðvarson.
Friðrik Pálson sagði að hann hafi viljað hafa þessa hluti á hreinu og á yfirborðinu til þess að þeir kæmu ekki í bakið á honum síðar????
Þá valdi hann til þess akkúrat réttu leiðina eða þannig. Stjórnarformaðurinn Friðrik labbaði sér á fund ráðherrans Sturlu og samdi við hann um að ráðinn yrði sérfræðingur honum til halds og trausts. Þetta var gert án vitneskju stjórnar og forstjóra Símans og ákvörðun tekin af Sturlu sem handhafa eina hlutabréfsins í Símanum. Þetta er klárt brot á hlutafjárlögum en þar segir að stjórn hlutafélags fari með æðsta vald á milli aðalfunda, en aðeins á aðalfundum eru hluthafar æðsta vald.

Það hlýtur að teljast skrítið að ráða þurfi ”sérfræðinga” til aðstoðar stjórninni og formanni hennar í ljósi þess að Sturla ráðherra hefur margsinnis tuggið og tönglast á að stjórnendur Símans hefðu valist til starfns vegna víðtækrar þekkingar og reynslu. Reynslan og þekkingin er greinilega skilin eftir fyrir utan þegar haldnir eru fundir í srjórn Símans. Hún er síðan sótt framfyrir dyrnar, gegn greiðslu. Ég hugsa að það kæmi svipur á sömu stjórn og formann hennar ef almennir starfsmenn Símans höguðu sér þannig. Réðu sig í vinnu og þægju sín laun en gerðu ekkert í vinnunni nema að fá greitt aukalega fyrir hvert handtak.

Eftir ýtarlega og tímafreka leit fundu Sturla og stjórnarformaður Símans loksins hæfan mann sem ráðgjafa. Það var sérfræðingurinn Friðrik hjá Góðráðum ehf, engar vöflur voru hafðar á og maðurinn ráðinn með það sama, vegna yfirburða þekkingar hans á einkavinavæðingu. Nú er ljóst að efitt úrlausnar mál hefur verið á ferðinni því þeir nafnarnir, stjórnarformaðurinn og sérfræðingurinn hafa setið tveir einir á stífum fundum með sveittan skallann í samtals 1100 tíma á síðasta ári eða 140 fulla vinnudaga sem eru samtals 7 mánaða púl. Þetta gerðu þeir jafnframt því að þurfa að sinna öðrum störfum, launuðum jafnt sem ólaunuðum. Á fundum þessum hefur sérfræðingurinn Friðrik miðlað stjórnarformanninum Friðriki af visku sinni, sem hann hefur síðan komið á framfæri við stjórnina sem aftur hefur þurft að ráðfæra sig við sína ráðgjafa áður en ákvörðun var tekin.
Fyrir 7 mánaða stífa vinnu þarf að sjálfsögðu að greiða vel. Friðrik sérfræðingur sendi sína reikninga og fékk greidda umyrðalaust eins og vera bar, enda öllu stillt í hóf. En Friðrik stjórnarmaður varð fyrir sína vinnu að láta sér nægja sín laun, sem stjórnarformaður. Var hann sáttur við það, þrátt fyrir mikla vinnu enda ekki greitt eftir Dagsbrúnartaxta þar.
Stjórn símans að einum undanskildum telur ekkert óeðlilegt við reikningana. Það þótt að ef saman eru lögð öll störf Friðriks þá rúmast þau ekki innan þess 24 tíma sólahrings sem almennigur þekkir. Ef gert er ráð fyrir að stjórnaformaður Símans skili 8 tímum á dag fyrir kaupið sitt og hann skilar væntanlega sama tíma sem stjórnaformaður SÍF og svo sem sérfræðingur hjá Símanum, 8 tímum á dag. Þá eru ótalin önnur þegnskyldu vinna sem maðurinn innir af hendi. Þegar hér er komið er lítið eftir af sólarhringnum fyrir fjölskylduna, hvað þá svefn.
En hraustum mönnum af víkingakyni munar ekki um að vaka eina vorvertíð þegar mikið liggur við.

Guðmundur Árni Stefánsson sagði af sér ráðherradómi árið 1994 vegna mistaka í starfi. Var það rétt ákvörðun af hans hálfu, því menn eiga að axla ábyrgð á gjörðum sínum. Ólyktin af Símamálinu og þætti Sturlu Böðvarssonar í því, er til muna sterkari en “ilmurinn” af máli Guðmundar Árna um árið. En ekki er víst að Sturla segi af sér því sitthvað er nú “eðalsjalli” eða kratablók. Þar er ólíku saman að jafna.

Þrátt fyrir ósérhlífni og fórnfýsi fyrir Símann hefur Friðrik og stjórnin ekkert uppskorið nema illt umtal og róg. Hér sannast að vanþakklæti eru heimsins laun.
Þjóðin getur þrátt fyrir allt andað léttar því Friðrik Pálson upplýsti, til staðfestingar á að ekki væri um neitt óeðlilegt að ræða, að sín fingraför væru ekki á reikningunum frá Góðráðum ehf, því endurskoðandi hans hefði sent þá út en ekki hann sjálfur. Púúúhh, mér létti gríðarlega þótt hér væru góðráð dýr.

Nú er spurningin þessi: Eru öll kurl komin til grafar í þessu máli? Setjum “sérfræðing” í málið!

Lotti.