Hver ætli sé ábyrgð íslenskra ráðherra? Svarið við þessari spurningu virðist augljóst, það er af þú horfir á fréttir og fylgjist með því sem er að gerast. Íslenskir ráðherrar bera ekki neina ábyrgð. Við sem kjósendur veitum þeim jú nærri því ekkert aðhald og mér virðist að fjölmiðlar rétt þori að fjalla um þá gríðarlega spillingu sem er innan íslenska stjórnkerfisins.

Eftir því sem ég man best, hefur aðeins einn ráðherra sagt af sé vegna ,,spillingar“. Guðmundur Árni Stefánsson þurfti að segja af sér í byrjun 10. áratugarins eftir að hafa ráðið mág sinn sem yfirmann Tryggingarstofnunnar, ef ég man rétt(þið leiðréttið mig bara). En núna, á yfirstandandi kjörtímabili, hafa komið upp fjölmörg spillingarmál, mörg hver mun grófari en mál Guðmundar.

Td. mál Árna Johnsen, hvaða ráðherra var bendlaður við það? Hvaða ráðherra bar ábyrgð á störfum hans? Hvaða ráðherra átti að hafa það mikla yfirsýn á störf þeirra nefnda sem tilheyrðu ráðuneyti hans að honum bar að sæta ábyrgð? Hvergi annars staðar í heiminum en á Íslandi, hefði sá ráðherra komist undan. Hefði þetta td. gerst í Frakklandi hefði sá hinn sami verið hengdur í fjölmiðlum!!

Og núna tröllríður mál Landsímans öllum fjölmiðlum. Hvað gerum við, kjósendur góðir!? Eigum við að bara að kyngja enn einum súrum spillingarbita eða hrækjum við þessu út úr okkur og krefjumst afsagnar!? Er ekki komið nóg? Þurfa íslenskir stjórnmálamenn kannski ekki að bera ábyrgð eins og starfsbræður þeirra í útlandinu? Eða hefur Ísland kannski ekkert breyst síðan goðaveldið var við líði? Erum við öll kannski bara kotbændur inn við beinið, skíthrædd við reiði goðans, látum frekju hans og yfirgang ganga yfir okkur, þegjum og felum okkur út í fjósi þegar hann kemur í heimsókn? Erum við virkilega svona miklir aumingjar að við getum ekki barið hnefanum í borðið og sagt:,,Hvað er í gangi! Haldið þið, stjórnmálamenn, að þið komist upp með spillingu!? Haldið þið að þið komist upp með að bruðla með almannafé? Haldið þið virkilega að við séum heimsk!?”.

Tími byltingarinnar er kominn!