Í febrúar síðastliðnum kynnti Framsóknarflokkurinn hugmyndir um afskriftir á húsnæðislánum. Þessi hugmynd fékk litla umræðu fyrst um sinn vegna þess að Samfylking og Vinstri Græn slógu þær algjörlega út af borðinu. Seinna talaði Tryggvi Þór Herbertsson einnig fyrir afskriftarleiðinni. Þá fékk leiðin nokkra umfjöllun í fjölmiðlum.

Eins og með allar hugmyndir sem hljóða upp á svona háa upphæð er þessi hugmynd mjög umdeild. Sumir telja að þessi aðgerð muni setja þjóðina fljótlega á hausinn. Aðrir telja að þetta sé skynsamlegasta og fljótvirkasta leiðin úr kreppunni. Ég tilheyri seinni hópnum og ætla ég að reyna að úskýra af hverju mér líkar þessi leið í þessari grein.

Leiðin gengur út á það að 20% (eða einhver önnur prósenta) er afskrifuð af öllum íbúðalánum hjá einstaklingum. Þannig mundi mánaðarleg greiðsla af íbúðalánum lækka um u.þ.b 20%.
Talið er að þetta muni kosta sirka 300 milljarða.

Megin mótrök tillögunar eru þau að þetta muni kosta alltof mikið. 300 miljarðar er mikill peningur, ég get verið sammála þeim um það. En það sem sumir hafa ekki séð við þetta er að þessum peningi er ekki dælt út úr ríkissjóði eða sjóðum bankanna. Kostnaðurinn kemur sem minna innstreymi fjármagns til bankanna og ríkisins um hver mánaðarmót. Samkvæmt útreikningum mundi þetta minnkaða innstreymi nema u.þ.b. einum milljarði á mánuði. Kostnaðurinn við leiðina nemur því einum milljarði á mánuði.

Þessi leið mun þó skila pening til ríkisins á þrennan máta. Í fyrsta lagi verður einhverjum fjölskyldum sem núna stefna í gjaldþrot bjargað frá því. Þar með halda þær fjölskyldur áfram að borga af lánum sínum. Í öðru lagi munu flestar fjölskyldur eiga meira eftir af peningi um hver mánaðarmót. Að öllum líkindum mun megnið af þeim peningi fara í aukna neyslu. Með aukinni neyslu kemur peningur til ríkisins í formi virðisaukaskatts. Í þriðja lagi mundi atvinnuleysi minnka með aukinni neyslu. Með minna atvinnuleysi þyrfti ríkið að borga minna í atvinnuleysisbætur og mundi einnig fá auknar skatttekjur.

Spurningin er hvort þessar auknu skatttekjur ríkisins munu ná meira en þessum milljarði á mánuði. Ef talið er að það skili milljarði eða meir finnst mér ekki spurning að framkvæma eigi leiðina. Þá er þetta heldur ekki lengur spurning um sanngirni, hvort stórskuldamenn fái miklu meira en aðrir.

Skoðun flokanna er að vissu leiti mismunandi varðandi afskriftarleiðina. Framsóknarflokkurinn er með þessa hugmynd í tillögum sínum um úrbætur á efnahagsmálum. Borgarahreyfingin hefur útfærslu á þessari leið á stefnuskrá sinni. Sjálfstæðisflokkurinn hélt möguleikanum opnum á flokksþingi sínu. Vinstri Græn virðast ekki vera mikið fyrir hugmyndina en þó hefur Lilja Mósesdóttir komið með svipaða leið. Samfylking og L-listi eru alfarið á móti þessum hugmyndum.

Ef það er eitthvað sem þið skiljið ekki í þessari grein þá endilega spyrjið mig.
Allt hefur enda, pylsa hefur tvo.