Ég skora á fólk að skrifa fleiri greinar inn á stjórnmálaáhugamálið. Það hlýtur að vera margt sem við getum rætt um.

Þessi grein er til þess að auka fjölbreytnina. Að mínu mati eru greinarnar hans Eldveggs mjög fínt innlegg enda er ég lítið fyrir sjálfstæðisflokkinn sjálfur. En ég vil ekki enda á því að einungis einn notandi eigi greinar inn á áhugamálinu svo ég hvet ykkur hin til þess að endilega taka á.

Ég vil sjá greinar um fjölbreyttari hluti. Hér er mitt innlegg.



Möguleikarnir í stöðunni

Ísland er breytt. Það eru ótrúleg tækifæri í stöðunni. Við getum hreinsað til í spillingunni og búið til betra þjóðfélag.

Nú spyr ég, er fólk ekki orðið leitt á þessum íþróttafélögum sem við köllum stjórnmálaflokka. Íþróttafélög skrifa ég af því fólk sameinast bakvið tákn en ekki hugsjónir.
Í sjálfu sér er ekkert að því að halda með Man U eða FH. Ef þú heldur með FH þá vonar þú að FH vinni leikinn með eins mörgum stigum og hægt er. Óháð því hvaða skoðanir leikmenn hafa.

En þegar þú heldur með Samfylkingunni eða Sjálfstæðisflokknum þá er eitthvað í ólagi. Af því þetta er ekki ræðukeppni. Þetta snýst ekki um hvort að Árni Páll eða Bjarni Ben komi betur út í sjónvarpi. Þetta snýst ekki um hvort þú sért í lopapeysu eða hafir líkt sjálfum þér við krist.

Þetta snýst um það samfélag sem við viljum búa til, og hversu treystandi okkur er til að standa við gefin loforð.

Ég get ekki lagt traust mitt á Samfylkinguna, Sjálfstæðisflokk eða Framsókn. Þessir þrír flokkar hafa verið þátttakendur í spillingunni og gefið afslátt á sínum hugsjónum.

Getur annars einhver sagt mér hvað þeir standa fyrir?
Hefur Framsókn staðið vörð um aðra skjólstæðinga sína á hlutabréfamarkaði?
Er ástæða þess að Sjálfstæðisflokkur hafnar ESB einhver önnur en sú að þeir sem eiga kvótann eiga flokkinn?
Af hverju framfylgdi Samfylking ekki neinum af markmiðum sínum í stjórn, hver var munurinn á samstarfi hennar við sjálfstæðismenn og samstarfi framsóknar við sjálfstæðismenn?

Ég skrifa ekki gegn VG nú, þó mér leiðist flokkar almennt. Þeir höfðu ýmislegt fyrir sér í gagnrýni á framkvæmd einkavæðingar, og ýmislegt fyrir sér þegar þeir komu með hrakspár árið 2006-2007. Ég held ekki að þeir séu viðriðnir við spillingu en það kann að vera að þeirra Ísland sé ekki það Ísland sem ég sé fyrir mér.

Ég hef hugsað mér að kynna mér borgarahreyfinguna betur. Hún virðist í augnablikinu lofa góðu. Þeir virðast opnir fyrir hugmyndum og aðalmarkmiðið að stokka upp í kerfinu ólíkt hinum flokkunum.

Þeir eru ekki líklegir til þess að ná miklum árangri í kosningum og ná miklum breytingum. En þeir gætu verið vísir að einhverju meira.

Hverjir eru sammála mér og meðlimum borgarahreyfingarinnar um að það þurfi að takmarka tíma fólks í pólitík? Að engin ætti að vera ráðherra í meira en tvö kjörtímabil? Að við ættum að einfalda kosningakerfið. Auðvelda persónukosningar. Láta fjármál flokkanna vera opin almenningi, alltaf og ekki bara þegar þeim hentar?

Hverjir eru sammála því að möguleikarnir í stöðunni til að betrumbæta Ísland séu góðir, en að núverandi flokkar séu ekki með bestu tilboðin?



Svo skora ég á fólk að skrifa greinar og tala um hvað við ættum að kjósa. Ég hef engar sérstakar gæðakröfur, oft getur grein sem unninn er í flýti skapað góðar umræður.