Ja hér og hérna hér! Ég hef reynt að temja mér það, svona hin síðustu ár, að vera umburðarlyndur og víðsýnn en er það þó ærið verkefni. Það sem mér þykir miður er að vorir hæstvirtu þingmenn, eins og þeir eru gjarnan nefndir á Alþingi en ekki í munni almennings, rembast eins og rjúpan við staurinn að gera ekki slíkt hið sama.

Það sem rekur mig í þessi skrif er umræða á Alþingi um verslun með áfengi og tóbak. Þannig er mál með vexti, eins og svo oft áður, að þarna eru tvær fylkingar, annars vegar stjórnarflokkanir og stjórnarandstaða. Mér hefur alltaf þótt það vera þannig að málefni þeirra vinstri manna ganga út á það að vera á móti, á móti hverju er mér að öllu hulið en allavega eru þeir á móti, þeir eru meira að segja á móti sjálfum sér sem sýnir sig í nýlegri flokkauppstokkun á vinstri vængnum ekki þeirri fyrstu og ekki þeirri síðustu enda tala þeir hvor í kross við annan í þessari umræðu en báðir þó á einhvern furðulegan hátt á móti.

Það sem umræðan snýst um, er að leyfa sölu áfengis í smásöluverslunum en ekki bara í ÁTVR. Rök stjórnarandstöðuflokkanna á móti þessu eru fáránleg, þeir benda á það að fólk fari að flykkjast til að misnota áfengi fyrst og hin grimmu markaðslögmál eiga að fara að ráða í þessum efnum sem þeir eru að sjálfsögðu á móti. Þannig er nefnilega málið að ef einhver fer að græða á einhverju þá sjá vinstri menn svart, nema að það séu þeir án þess að ég vilji fara að grafa upp nokkur dæmi. Rök stjórnarflokkanna eru skynsamari í mínum eyrum, þó svo að ég vilji taka fram að ekki hafa framsóknarmenn haft hátt í þessum málum frekar en öðrum, enda sleikja þeir sér bara upp við þá sem þeir geta mögulega verið í stjórn með en virðast vera að öðru leyti málefnalaus flokkur.

Rök stjórnarflokkanna eru aðallega það, að þessi efni eru til og við vitum að sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf verið gjarn á að hylla undir athafnafólk og aðra vinnuþjarka, og því benda þeir á að þarna eigi ekki að vera einokun frekar en annarsstaðar á markaðnum og trúi ég því að Íslendigar, loks búnir að losna frá dönum, séu par hrifnir af einokun. Ekki er það bara markaðshyggjan sem er að drepa þá heldur líka landsbyggðin, en eins og þeir sem búa úti á landi vita, þá vantar á margan staðinn áfengisútsölu og þarf oft að fara langan veg eftir veiginni og kjörbúðir þar eiga oft í fullu bagsli með sinn rekstur og sína þjónustu við sitt heimafólk að áfengisveltan mikla gæti verið þar nokkur búbjörg og bætt rekstaraðstöðu þessara verslana.

Stjórnarandstaðan talar mikinn í seinni hálfleik fyrstu umræðu að flutningsmenn frumvarpsins séu ekki mættir á þingið. Ekki mættir! Ekki er ég hissa, það er ekki orði komandi við þessa vinstri vitleysinga, sama hvað Pétur Blöndal og Halldór Blöndal hafa sett ofan í þá vinstri trúða og fer Mörður Árnason þar fremstur í flokki en aðrir vaða eftir í hans vitleysu. Jesús minn og afsakið ef ég hef haft hér óvart einhver meinyrði á einhverjar smáar sálir en ég næ bara ekki upp í nefið á mér vegna sífeldrar vitleysu þessarra vinsti vitleysinga. Sorry, vinstri“manna”.

Vinstri menn hafa stórar áhyggjur af því, að unglingar gætu nálgast þetta á auðveldari hátt þar sem að afgreiðslufólk gæti átt í vandræðum, meiri vandræðum en þeir góðu og gildu ríkisstarfsmenn eru í, með að framfylgja aldurstakmarkinu. Sorry vinstrimenn, en fólk er ekki jafn ,,Sloppy“ og þið vinstrimenn. Málið hjá ríkinu er að þar hefur enginn neinna hagsmuna að gæta, þú verður ekkert rekinn, launin eru lág og öllum er fjandans sama hvað er að gerast. Fólk sem þarf að huga að vinnu sinni, fólk sem getur verið rekið fyrir að selja unglingum áfengi, kaupmaðurinn sem getur misst leyfi sitt fyrir að selja unglingum áfengi hafa, að ég efa ekki margfalt meiri hæfileika til að framfylgja þessu skilyrði en ríkisstarfsmenn nokkurn tímann enda er það ekki mín reynsla af ríkisstarfsmönnum að hæfni sé að drepa þá.

Vinstri menn hafa einnig stórar áhyggjur af því að það verði allt vaðandi í fíklum. Málið er að það eru alltaf einhverjir fíklar sem sækja í tóbak, svo áfengi, svo hass og svo og svo og svo og svo. Eins og góður frasi úr trainspotting til að lýsa hugarfari fíkilsins: ,,If vitamin C was illegal, we'd take it”. Málið er að meginþorri Íslendinga fer bara hreint ágætlega með sín vímuefni en þessi áberandi minnihluti sem eyðileggur oft málstaðinn.

Ekki bara að ég styðji þetta frumvarp heldur vil ég hér koma inn á annað málefni, fíklana. Fíklanir eiga sér litla von í vímunni, stjórna ekki neyslunni og gera hvað sem er til að komast í sitt dóp. Þessir fíklar skuldsetja sig stórum hjá eiturlyfjabarónunum til að fá meira eitur, sem er nú engu meira eitur en áfengi, geta svo ekki borgað og þá taka við undirheimainnheimtur. Hvernig væri nú að lögleiða þessi efni sem standa að uppgangi og fjármagnsflæði undirheimanna og setja þau í sama form og í ríkinu núna? Þá á ég við, staðgreiðsluviðskipti svo að fólk sé ekki að fara sér á voða í undirheimum, heimum sem það getur svo ekki talað við neinn um. Er ekki betra að hafa þau lögleg, ríkið taki gróðan og geti notað hluta af honum, því ekki þarf meira en hluta af honum því hann er svo óskaplegur, til þess að hjálpa fólki sem er að fara illa út úr vímuefnum og svo annan hluta til að standa að forvörnum sem samanstanda af einhverju meira en innantómum upphrópunum, eins og mér virðast allar forvarnir svokallaðar vera.

Ég gæti haldið endalaust áfram, svo mikið fauk í mig við að heyra þessa málefnaleysu Alþingis en læt ég það ykkur eftir því ekki trúi ég því að ég einn hafi skoðanir í þessum efnum.