Oft er talað um það hversu miklir skattar séu á Íslandi. Fólk sér ofsjónum yfir því hve virðisaukaskatturinn sé hár, skattur á bensín sé fáránlegur og þungaskatturinn með ósanngjarnara móti.
Á tímum sem þessum er mjög mikilvægt að fólk spari. Íslendingar eru nú þekktir fyrir allt annað en sparnað og eftir að fyrrverandi fjármálaráðherra, Friðrik Sophusson, tókst að skattleggja sparifé landsmanna þá má segja að ennþá færri leggi til hliðar. En hvað er þá til ráða?
Fyrir mér virðist lausnin vera þessi: Það þarf að launa þeim sem spara en refsa þeim sem að hlaupa út í Kringluna/Smárann hver mánaðarmót og eyða öllum peningunum sínum í hinar ýmsu óþörfu vörur.
En hvernig á að gera það?
Hækkum virðisaukaskatt á vörum eins og raftækjum (NB ekki matvælum) og leggjum af aðra ósanngjarna skatta í staðinn, t.d. eignarskatt (sem er ekkert annað en tvísköttun), fjármagnsskatt o.s.frv. Það ætti að virka mjög sparnaðarhvetjandi.
Reyndar ætla ég að viðurkenna það strax að það er ákveðinn galli á þessari hugmynd minni: Vöruverð myndi eðlilega hækka og verðbólgan aukast - - tímabundið. Hafa mætti hækkunina í áföngum til að draga úr skellinum.
En samt sem áður finnst mér hugmyndin þess virði að skoða nánar.
Kveðja,
fortune.
Kveðja,