Hugleiðingar um málefni aldraðra á Íslandi

Það sjónarmið virðist vera nokkuð algengt hér á landi að þegar fólk kemst á ellilífeyrisaldur þá sé hlutverki þeirra hreinlega lokið í þjóðfélaginu og þetta fólk bara sett í einhvers konar biðstöðu. Það má segja að með slíku sjónarmiði sé hreinlega búið að grafa þetta fólk löngu áður en það er látið.

Ég tel að það þurfi að eiga sér stað mikil hugarfarsbreyting varðandi málefni aldraðra í íslensku þjóðfélagi. Við þurfum að gera ráðstafanir til að eldriborgararnir okkar geti áfram takið eins mikinn þátt í þjóðfélaginu og þeir vilja og geta þrátt fyrir að þeir séu komnir á ellilífeyrisaldur. Það er hreinlega mannskemmandi fyrir gamla fólkið okkar að því sé í raun ýtt til hliðar með þessu móti og afgreitt sem fólk sem sé búið að ljúka hlutverki sínu í þjóðfélaginu.

Á síðustu árum hefur þó orðið talsverð breyting á þessum málum og þá ekki síst fyrir tilverknað Félags eldriborgara sem hefur staðið fyrir félagslífi fyrir sína félagsmenn með alls kyns tilheyrandi uppákomum. Það starf er auðvitað mjög jákvætt framtak og vildi ég svo sannarlega sjá meira af slíku starfi og fjölbreyttara.

Annað sem nauðsynlegt er að gera er að afnema tekjuskatt af ellilífeyri. Hér er um að ræða óþolandi tvísköttun sem á ekki að þekkjast. Hugsanlega er rétt að leggja einhvers konar fjármagnstekjuskatt á þá vexti sem á lífeyrissparnaðinn safnast uns hann er greiddur út en að tekinn sé tekjuskattur af sjálfum lífeyrinum tvisvar er auðvitað fráleitt. Eldriborgararnir hafa einu sinni flestir ekki það mikið á milli handanna að þá muni ekki um hverja krónu.

Þetta er aðeins fátt af mörgu sem án efa þarf að huga að varðandi kjör eldriborgara á Íslandi og hvet ég menn til að nefna fleira sem betur mætti fara í tengslum við þann málaflokk.

Kv.

Hjörtur J.
Með kveðju,