Það hefur ekki farið fram hjá neinum að eftir hinn hræðilega atburð 11. september síðast liðinn hefur margt í samskiptum þjóða um allan heim breyst.
Fjölmiðlar hafa verir uppfullir af efni og myndum frá World Trade Center í NY og svo núna myndum frá Afagnistan.
En þetta er ekki eini staðurinn í heiminum þar sem að rýgur er milli manna, í Ísrael stendur yfir frelsisbarátta Palestínumanna sem að hefur kostað þúsundir manna lífið og sært þúsundir og lang flestir þeirra eru Palestínumenn. En annars ætla ég ekki að telja hér upp tölulega staðreyndir, en vill benda á palestina.is fyrir þá sem hafa áhuga, heldur ætla ég að rifja upp söguna og skoða hvað hefði mátt betur fara í innkomu erlendra ríkja í þessa deilu.

Orsakir bardaganna nú liggja fyrst og fremst í atburðum frá því í byrjun tuttugustu aldar. Þá tilheyrði þetta landsvæði Ottóman-veldinu sem er stundum kallað Tyrkjaveldi. Meginþorri íbúa þessa svæðis, um 85%, var Palestínu-Arabar, bæði kristnir og múslimar, og um 10% voru Gyðingar. Á tímum fyrri heimstyrjaldarinnar barðist Ottóman-veldið með Þjóðverjum gegn bandamönnum. Þegar stríðinu lauk með sigri Bandamanna fengu Bretar umsjón með stórum hluta Miðausturlanda, meðal annars Palestínu. Á millistríðsárunum fluttust æ fleiri Gyðingar þangað og spennan milli Palestínu-Araba og Gyðinga magnaðist frá ári til árs. Bretar stjórnuðu landinu í umboði Þjóðabandalagsins sem var fyrirrennari Sameinuðu þjóðanna. Þeir reyndu hvað þeir gátu til að miðla málum og gerðu misheppnaðar tilraunir til setja skorður á innflutning Gyðinga. En allt kom fyrir ekki. Gyðingar stofnuðu hryðjuverkasveitir, sem þeir kölluðu sjálfir frelsisbaráttusveitir, sem skipulögðu voðaverk gegn Aröbum og Bretum.

Eftir lok seinni heimstyrjaldarinnar gáfust Bretar upp á að stjórna þessu landsvæði og ákváðu að nota hinar nýstofnuðu Sameinuðu þjóðir sem vettvang til að ná fram sáttum. Árið 1947 samþykktu Sameinuðu þjóðirnar tillögu, sérstaklega með hliðsjón af þeim hörmungum sem Gyðingar urðu að þola í stríðinu í Evrópu, um að skipta Palestínu í tvennt, eitt ríki handa Aröbum og annað fyrir Gyðinga. Þessi tillaga, sem mætti mikilli andstöðu frá ríkjum Araba, var Gyðingum í hag hvað varðar gæði og stærð landsins. Palestínumenn voru alfarið andvígir skiptingu landsins enda álitu þeir að þetta væri þeirra eigið land og vildu ekki þurfa að láta af hendi eigið land til að gjalda fyrir að Gyðingar hefðu þurft að þola helförina í Evrópu og orðið landflótta þaðan. Þann 14. maí 1948, sama dag og Bretar yfirgáfu Palestínu, lýstu Gyðingar yfir stofnun nútímaríkisins Ísrael. Þessari yfirlýsingu var ekki vel tekið í nágrannaríkjunum og nokkur Arabaríki sendu hersveitir sínar til að berjast gegn þessu nýja ríki. Ísrael fékk mikla aðstoð erlendis frá og náðu því að verjast þessari árás á ótrúlegan hátt.

Í kjölfar þessa stríðs og annarra aðgerða Ísraelshers voru margir Palestínumenn, sennilega um 700,000 manns, hraktir frá heimilum sínum og urðu flóttamenn. Í stað þess að verða sjálfstætt ríki urðu Palestínumenn annaðhvort innlyksa í landi Gyðinga eða flóttamenn í öðrum ríkjum Araba svo sem í Jórdaníu eða Sýrlandi. Palestínumenn urðu því upp til hópa heimilislausir. Þeir höfðu aðeins að litlu leyti skapað þetta ástand sjálfir heldur voru þeir fórnarlömb ákvarðana alþjóðlegra stofnana og stórvelda á Vesturlöndum. Það er kannski ekki að ófyrirsynju sem Palestínumenn hafa allar götur síðan vantreyst alþjóðastofnunum, sem þeir telja hliðhollar Ísrael, og haft ótrú á öllum afskiptum Vesturlanda.

Á næstu áratugum háðu Ísraelar og Arabar stríð með reglulegu millibili (1956, 1967, 1973 og 1982). Í þessum átökum, þó sérstaklega í átökunum 1967 og 1973, unnu Ísraelar yfirburðasigur enda naut Ísrael verulegs fjárstuðnings og hernaðaraðstoðar frá Bandaríkjunum. Í stríðinu 1967 hernámu Ísraelar vesturbakka Jórdanárinnar – svæði sem áður tilheyrði Jórdaníu – en íbúar þess voru mestmegnis Palestínumenn. Við þetta hernám, sem átti að vera tímabundin aðgerð, lentu enn fleiri Palestínumenn undir stjórn Ísraelsríkis.

Fram til 1993 vildu Palestínumenn ekki viðurkenna tilvist Ísrael og Ísraelar vildu ekki setjast niður við samningaborðið með Yasser Arafat, leiðtoga Frelsissamtaka Palestínumanna, sem þeir kölluðu hryðjuverkamann en Palestínumenn sáu sem frelsishetju. En í upphafi níunda áratugarins hófust leynilegar samningaviðræður milli þessara aðila í Noregi og víðar sem náðu hámarki með hinu fræga handabandi Arafats og Yitzhaks Rabin forsætisráðherra Ísrael eftir að þeir skrifuðu undir hinn svokallaða Oslóarsáttmála við Hvíta húsið árið 1993. Þessu handabandi tveggja fjandmanna var fagnað víða í hinum vestræna heimi sem upphafi að eðlilegum og friðsælum samskiptum. Hinsvegar voru margir Palestínumenn og Ísraelar óánægðir.

Oslóarsáttmálinn gerði ráð fyrir að Ísraelar myndu yfirgefa viss svæði á Vesturbakkanum og að Palestínumenn fengju þar sjálfstjórn með ákveðnum takmörkunum. Margir Palestínumenn urðu ævareiðir því þeir töldu að sáttmálinn væri ekki nægilega vænlegur grundvöllur að sjálfstæðu ríki. Sömuleiðis voru margir Ísraelar, sérstaklega strangtrúaðir Gyðingar, mótfallnir samkomulaginu því að það gerði ráð fyrir að Ísrael léti af hendi land sem þeir töldu að væri andstætt boðum Guðs og gæfi auk þess hættulegt fordæmi. Ennfremur væri þessi ráðagerð ógnun við öryggi Ísraels. Þessir aðilar töldu að Rabin hefði svikið málstað Ísraels enda leið ekki á löngu þar til Rabin var skotinn til bana af Ísraela, Yigal Amir, sem var andstæðingur Oslóarsáttmálans. Andláti Rabins var fylgt eftir af palestínsku samtökunum Hamas sem einnig voru andvíg sáttmálanum og stóðu fyrir voðaverkum gegn Ísrael. Í þessu óvissuástandi náði Benjamin Netanyahu kjöri sem forsætisráðherra Ísraels árið 1996 en í hans tíð versnaði ástandið til muna.

Árið 1999 náði Ehud Barak kjöri og einblíndi á að ná fram friði. Sumarið 2000 hitti hann Arafat í Camp David í Bandaríkjunum þar sem þeir náðu ekki að komast að samkomulagi um framtíðarskipan svæðisins. Þá um haustið hófust harðir bardagar, sérstaklega í kjölfar heimsóknar Ariel Sharon, sem nú er forsætisráðherra Ísrael, til hinna helgu staða í Jerúsalem. Palestínumenn túlkuðu heimsókn Sharons, harðlínumanns sem hefur verið ötull í baráttunni gegn málstað Palestínumanna, sem ögrun og yfirlýsingu um að Ísraelar ætluðu sér einum yfirráð yfir Jerúsalem. Palestínumenn hafa einmitt litið til Jerúsalem sem framtíðarhöfuðborgar í hinu sjálfstæða ríki Palestínu. Frá haustinu 2000 hefur verið þrálátt stríðsástand á þessum slóðum þar sem yfir 700 manns hafa látið lífið, flestir Palestínumenn.

Palestínumenn líta á sig sem hernumda þjóð sem hefur þurft að þola mikið óréttlæti. Rétt eins og allar aðrar þjóðir vilja þeir geta stjórnað sínum eigin málum og lifað eðlilegu og friðsælu lífi. Þar sem þeir eru undirokaðir af Ísrael telja þeir sig eiga fárra annarra kosta völ en að heyja sjálfstæðisbaráttu jafnvel þótt það feli í sér örvæntingarfullar aðgerðir svo sem ofbeldisverk. Þeir benda á að efnahags- og hernaðarlegir yfirburðir Ísraela ógni friði milli þjóðanna.

Á hinn bóginn telja Ísraelar að þeir eigi rétt á þessu landi því að rætur þeirra þar nái mörg þúsund ár aftur í tímann eins og kemur skýrt fram í Biblíunni. Þeir álíta einnig að stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna yrði hálfgildings dauðadómur yfir Ísrael. Ennfremur telja Ísraelar að þar sem Palestínumenn höfðu yfirgefið sitt eigið land árið 1948 fyrir tilstuðlan annara Arabaríkja ættu Palestínumenn að setjast að þar, til dæmis í Líbanon eða Sýrlandi, frekar en í Ísrael.

Þessi texti hér að ofan sýnir að frá því að Bretar fóru frá Palestínu hafa Ísraelsmenn fengið frið til að athafna sig að vild og í raun breytt Palestínu í Ísraelsríki. Og í seinni tíð eða frá 1967 verið með “leyfi” Bandaríkjamanna. Það er alveg hreint ótrúleg til þess að hugsa að þjóð eins og Bandaríkjamenn skulu leyfa sér svona þröngsýni og í stað þess að leiða þessar þjóðir að samningaborðinu virðast þeir taka upp stefnu annarrs aðilanns og styðja þá með peningum og vopna gjöfum. En þess má geta að Ísraelar búa yfir fimmt öflugasta her í heiminum í dag.

Bush Bandaríkja forseti sagðist ætla að hefja stríð gegn hryðjuverkum, en hvernig skilgreinum við hryðjuverk.
Eru hryðjuverk aðeins ofbeldisverk framin á “frumstæðann hátt” eins og grjót kast og heimatilbúnar sprengjur, en ekki rándýr flugskeiti og hátæknivæddir herir?
Á að mismuna fólki eftir því hvort það hefur efni á því að reka her og nota hergögn Bandaríkjamanna eða ekki? Eða á ekki að berjast fyrir því að við sem að teljum okkur vera siðmenntað og gott fólk hætti öllum hryðjuverkum og morðum. Hvernig má það vera að allur heimurinn geti nánast þagað þegar að íbúar Palestínu eru stráfelltir og séu svo allt að því sáttir við það að óbreittir borgarar í Afganistan láti lífið og lifi við hörmulegar aðstæður. Það er ekki hægt að réttlæta morð á saklausum borgurum, sama hvort þeir komi úr austri eða vestri! Og það er sama hvort þú rænir flugvél og drepur eða flýgur flugvél og skýtur sprengju á saklausa borgara.
Hvernig er hægt að réttlæta ofbeldisaðgerðir Ísraelsmanna með því að segja að þeir hafi nú þolað svo margt í gegnum tíðina?

Svona deilur eiga greinilega enn eftir að vera í langan tíma sem aðalefni fréttatíma heimsinns, á meðan að ráðamenn geta ekki séð það að sama hvernig þú drepur mann þá er það alltaf rangt!

Það er ekki til nein einföld lausn á málum Palestínu og Ísraels. En það er til skammar fyrir ráðamenn heimsinns, hvar sem þeir eru og hvort sem að þeir ráði yfir stórum löndum eða litlum, að þeir geti setið aðgerðarlausir og horft upp á saklausaborgara láta lífið í stríðum sem þessu. Þá á það að vera þeirra brýnasta verkefni að sætta þjóðir á svona viðsjárverðum tímum eins og þeim sem að núna eru gengnir í garð. Þeir eiga ekki að láta sérhagsmunagæslu sína vera í fyrsta sæti en mannréttindi og líf saklausra borgar í öðru. Við sem hlutlaus þjóð ættum að hvetja NATO og S.Þ. til að leiða þessar þjóðir að samningarborðinu, en ekki leifa ofbeldismönnum að skemma fyrir meirihluta þessara þjóða sem vilja frið.