Það á ekki af ríkisútvarpinu að ganga. Nú er stofnunin enn á ný búinn að vekja reiði almennings, nú með ákvörðun um að sýna ekki frá HM í fótbolta næsta sumar. Þetta er nú óvart vinsælasta sjónvarpsefni í heiminum og sá viðburður sem fær mest áhorf hjá ríkissjónvarpinu.

Þá hafa verið fréttir af flutningi rásar 2 til Akureyrar, að dagskráin komi til með að standa saman af endursýningum og tillögum um sumarlokun. Þetta er allt sagt vera vegna þess að stofnunin fái ekki nógu miklar tekjur til að standa undir þessu.

Það er þessi afsökun um að stofnunin fái ekki nógu miklar tekjur sem ég set spurningamerki við. Tekjur RÚV eru yfir 3 milljarðar og mér er það gjörsamlega óskiljanlegt að ekki skuli vera hægt að reka stofnunina fyrir þá fjármuni. Menn þar virðast líka vera með eitthvað afnotagjalda-viðhorf til tekjumyndunar, þ.e. að tekjurnar skili sér óháð því hvaða efni er boðið upp á. En veruleikinn er ekki þannig, stór hluti tekna RÚV eru auglýsingatekjur og menn auglýsa frekar í miðlum sem hafa áhorf. Ég skil þess vegna ekki hvernig menn ætla að hagræða með því að hætta að sýna vinsælasta efnið, vissulega dregur það úr kostnaði, en mér sýnist að menn gleymi því að það dregur jafnframt úr tekjum (nema af afnotagjöldum)

Mér sýnist að vandamálið í hnotskurn að fyrirtækið er illa rekið, eins og því miður vill oft verða með opinber fyrirtæki. Ég held að það sé tími til kominn að menn horfist í augu við veruleikann og hætti þessu rugli og breyti rekstri RÚV, minnki báknið verulega og hætti algerlega að starfa á samkeppnismarkaði. Þá vil ég að þessi fáranlega skylduáskrift verði lögð og ef menn vilja endilega vera með ríkisútvarp af öryggissjónarmiðum, þá verði sú starfsemi fjármögnuð með skattfé. Legg þó áherslu á að sú starfsemi verði í algeru lágmarki og með lágmarkstilkostnaði.

Kveðja

Jubii