Ryan Giggs segir að David Beckahm óttist að fjarvera hans úr aðalliði Manchester United gæti komið í veg fyrir að hann komist í enska landsliðshópinn sem fer á HM í sumar.
Beckham hefur einungis byrjað inn á í tveimur af seinustu níu leikjum United.
“Sú staðreynd að David er fyrirliði enska landsliðsins er honum ofarlega í huga og hann óttast, að ef staðan breytist ekki, þá gæti sæti hans í landsliðinu farið að hitna all verulega.”
“En það hrífur ekkert á Sir Alex Ferguson, sem er staðfastur í þeirri trú sinni að enginn leikmaður sé svo merkilegur að ekki megi setja hann út úr liðinu,.”
“Hann er bara að prófa viðbrögð Davids. Hann gerir þetta við okkur alla á einhverjum tímapunkti.”
“Það er ekki hægt að hafa sér reglu fyrir Beckham vegna þess að hann er landsliðsfyrirliði.”
“Það er enginn leikmaður ánægður með að sitja á bekknum og þegar maður heitir David Beckham þá er það helmingi verra en venjulega,” sagði Giggs í samtali við The Sunday Mirror.

Eins dauði er annars brauð og allt útlit er fyrir að David Beckham komist inn í lið United á ný, en Nicky Butt meiddist í leiknum gegn Aston Villa á sunnudagskvöld og verður frá um hríð.