Það vakti athygli mína þegar rætt var við Ólaf F. Magnússon um úrsögn hans úr Sjálfstæðisflokknum að hann teldi það vont fyrir Reykjavík, ef hans gamli flokkur næði meirihluta í borginni. Þá vakti það ekki síður athygli mína að hann talaði um að það væri undarlegt hve mikil völd framsóknarflokkurinn hefði í borginni og væru þau völd í engu samræmi við fylgi flokksins í borginni.

Þarna held ég að Ólafur hafi hitt naglann á höfuðið, nokkrir hafa bent á það, að fyrir utan Ingibjörgu Sólrúnu, þá er Alfreð Þorsteinsson líklega valdamesti maður borgarinnar. Þetta er nokkuð merkilegt í ljósi þess að Alfreð hefur aldrei notið mikils fylgis og höfnuðu hans eigin flokksmenn honum algerlega í prófkjöri fyrir síðustu alþingiskosningar. Þá lenti hann neðarlega í prófkjöri Samfylkingarinnar fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar, en flaut inn á kvótakerfinu sem tryggir Framsóknarflokknum tvo menn, þrátt fyrir að fylgi þeirra innan borgarinnar sé sáralítið. Þetta sama kvótakerfi er svo notað, þegar skipað er í nefndir og ráð og í krafti þess, hefur Alfreð tryggt sér stjórnarformennsku Orkuveitunnar og Innkaupastofnunar en Sigrún Magnúsdóttir hefur verið formaður fræðsluráðs. Við fyrstu sín virðast þetta ekki merkilegir bittlingar, en þetta eru einmitt þeir málaflokkar sem taka til sín langmesta fjármuni og Orkuveitan hefur lengi verið notuð til að dæla peningum inn í borgarsjóð. Alfreð hefur fyrir löngu áttað sig á því að með þessum miklu peningum er hægt að tryggja sér mikil völd og hefur hann notað Orkuveituna eins og hún væri einkafyrirtæki í hans eigu. Hefur hann verið umsvifamikill í ýmsum fjárfestingum, mis vel heppnuðum, eins og dæmið um Línu.net sannar líklega best.

Hafa afskipti hans af málefnum Orkuveitunnar verið langt um meiri en eðlilegt getur talist af stjórnarformanni, þar sem hann hefur verið með puttana í ýmsum þáttum daglegs rekstrar fyrirtækisins, s.s. mannaráðningum o.fl. (Þetta þekki ég af raun sem fyrrverandi starfsmaður)

Þeir sem til þekkja segja að engin mikilvæg ákvörðun um stjórnun Reykjavíkurborgar, sé tekin án þess að Alfreð veiti samþykki sitt. Enda hafa menn talað um það bæði í gríni og alvöru að það séu tveir borgarstjórar í Reykjavík, Ingibjörg og Alfreð.

Það er í sjálfu sér ekkert athugavert við það að pólitíkusar hafi völd, þeir eru jú kosnir til þess að stjórna. En mig grunar að þegar fólk er að kjósa R-listann, þá sé það gert í þeirri trú að Ingibjörg Sólrún haldi um stjórnartaumana, en ekki Alfreð sem er í 7. sæti listans. (Ingibjörg er að vísu í 8., en það er gefið út að hún sé leiðtogi listans) Það sem er í raun óþolandi við þetta er að Framsóknarmenn fá (taka sér) miklu meiri völd en þeir ættu að hafa miðað við fylgi þeirra og ef hinir flokkarnir sem standa að R-listanum láta Alfreð og co. komast upp með þetta áfram, þá mun spillingin og subbuskapurinn í kringum hann verða til þess að R-listinn missir völdin í Reykjavík.

Miðað við það hvernig málum hefur verið háttað að undanförnu, væri það enginn harmleikur. En þar sem ég hef trú á Ingibjörgu Sólrúnu sem stjórnmálamanni, þá vona ég að hún fari að sjá ljósið og taki fram fyrir hendurnar á Alfreð, því ef ekki þá hann eftir að draga hana með sér í fallinu.

Kveðja

Jubii