Komið þið sæl.

Nýverið las ég grein (svar) eftir ónefndan mann, sem lagði það til að ríkisstjórnin ætti að hætta “að greiða foreldrum bætur fyrir að eignast börn”. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að skilja þetta, en tel líklegt að átt sé við fæðingarorlof og barnabætur. Ég svaraði manninum ekki, enda ekki svaravert. Þegar maður númer 2 lýsti sig hinsvegar sammála, þá ákvað ég að svara með þessari grein.

Ég mundi gjarnan vilja vita hvort að menn séu almennt á þeirri skoðun að hætta beri algerlega öllum styrkjum til foreldra?
Ef svo er, hljóta sömu menn jafnframt að vera til í að ellilífeyrir þeirra sem EKKI eiga börn, verði aflagður komi upp skortur á vinnuafli í framtíðinni og fjármagn í lífeyrissjóði minnkar.
Ef þú átt barn/börn sem eru að greiða hluta launa inn á lífeyrissjóði færðu borgað, annars ekki. Hugsanlega mætti líka svæfa þá sem eru orðnir sjötugir og eiga ekki börn sem leggja til samfélagsins. Er það ekki fögur framtíðarsýn?

Það skal tekið fram að ég hef ekkert á móti fólki sem kýs að eignast ekki börn eða getur það ekki einhverra hluta vegna. Oft er þetta val fólks og ég virði það.
Þegar þetta fólk byrjar hinsvegar að væla vegna okkar sem eignumst þau, er alvarlegt mál á ferðinni.

Ég veit að mín börn munu halda þessum sömu vælukjóum uppi í framtíðinni þegar að þeir eru of gamlir til að vinna og fer því fram á að menn með slíkar skoðanir rökstyðji rétt sinn til að leggja ekki til vinnuafl framtíðar og VOGA SÉR SVO AÐ VÆLA YFIR ÞVÍ!!!

Menn verða auðvitað að gera greinarmun á því hvort þeir eru á móti orlofs- og/eða bótakerfinu í núverandi mynd, sem er skiljanlegt, eða hvort þeir séu almennt á móti öllum slíkum greiðslum.

Þess ber að geta að vaxandi hneigð manna til að eignast færri börn eða kjósa barnalaust líf, er álitið eitt af stærstu vandamálum framtíðarinnar á vesturlöndum. Um það eru flestir hagfræðingar sammála. Það er ósköp einfaldlega ekki nóg að ríka fólkið eignist börn, það yrðu of fá börn til að halda uppi þjóðfélögunum.
Það er ekki heldur nóg að taka bara inn nokkur hundruð manns frá útlöndum á ári (18 ára og eldri) því ef öll vesturlönd gera það, þá mun ekki taka langan tíma að klára þann “markað”.


Kveðja.