Satt best að segja finnst mér nokkuð mikil sýndarmennska á ferð varðandi viðræður Verkalýðshreyfingar og Samtaka Atvinnulífsins, þar sem talað er um “ þjóðarsátt ” þess efnis að segja ekki upp kjarasamningum, þrátt fyrir að aukinn verðbólga hafi étið upp allar þær kauphækkanir hins almenna verkamanns nær áður en sá hinn sami fékk þær í launaumslagið.
Hátt vaxtastig og verðbólga hefur valdið tapi hins almenna launamanns, tapi sem má spyrja hvort hann eigi að taka þegjandi og hljóðalaust líkt og venjulega, meðan boðað er að lækka eigi skatt á fyrirtæki ekki einstaklinga.
Það skiptir verulegu máli að kaupmáttur launa haldist, einkum og sér í lagi þegar skattar á einstaklinga eru svo háir sem raun ber vitni hér á landi, og þá er ég að tala um tekju og eignaskatt, sem og virðisaukaskatt á vöru og þjónustu.
Vöruverð er í mörgum tilvikum mun hærra hér á landi, þar sem álagning t.d. á matvöru er mörg hundruð prósent meiri en þekkist annars staðar. Fákeppni og einokun á ýmsum sviðum hefur orðið til þrátt fyrir boðun “ hagkvæmni hins frjálsa markaðssamfélags ”
Samkeppnisstofnun beitir fyrirtæki háum fjársektum, fyrirtækin fara í mál.

Hver græðir eða réttara sagt tapar ?

Aukinn kaupmáttur hefur enn ekki heimsótt mig, á þessu ári, þrátt fyrir fulla vinnu utan heimilis, og skil því ekki hvers vegna fulltrúar mínir ( verkalýðshreyfing ) telur sig þess umkomin að handsala samkomulag um að “ afskrifa tapið ” án þess svo mikið að spyrja mig hvort ég vilji hafa það þannig.

Þætti fróðlegt að vita hvort þið hafið orðið vör við aukinn kaupmátt.


kveðja.
gmaria.