Grafið undan réttindum íslenskra ríkisborgara

Nú liggur fyrir á Alþingi frumvarp Samfylkingarinnar til breytinga á sveitarstjórnarlögum sem kveður á um að erlendir ríkisborgarar hér á landi fái að kjósa í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Flutningsmenn frumvarpsins eru sex þingkonur Samfylkingarinnar; Svanfríður Jónasdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Bryndís Hlöðversdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir.

Flutningsmenn frumvarpsins byggja mál sitt á því að nú þegar sé ákvæði í sveitarstjórnarlögum sem kveði á um rétt norrænna ríkisborgara til að kjósa í sveitarstjórnarkosningum á Íslandi hafi þeir búið hér í þrjú ár eða meira og uppfylli að auki almenn skilyrði um kosningarétt, svo og sama rétt íslenskra ríkisborgara til að taka þátt í héraðskosningum á hinum Norðurlöndunum. Ákvæði þetta kveður ennfremur á um gagnkvæman rétt norrænna ríkisborgara til framboðs við sveitarstjórnarkosningar á Norðurlöndunum. Vilja flutningsmennirnir að þetta ákvæði verði útvíkkað og látið eiga við um alla erlenda ríkisborgara sem staddir séu hér á landi í einum eða öðrum tilgangi.

Grundvallaratriðið vantar

Flutningsmennirnir frumvarpsins vilja meina að staða norrænna ríkisborgara og annarra erlendra ríkisborgara eigi að vera sú sama og byggja það m.a. á þeim rökum sem fram koma í greinargerð með frumvarpinu að lögum um kosningarétt og kjörgengi norrænna ríkisborgara frá árinu 1982. Orðrétt segir í greinargerð Samfylkingarinnar með frumvarpi hennar:

“Rök sem í greinargerð með stjórnarfrumvarpinu 1982 voru talin mæla með kosningarrétti og kjörgengi norrænna manna um Norðurlönd öll voru ”norrænn vinnumarkaður, hópar norrænna innflytjenda í löndunum, víðtækt norrænt samstarf og aukið jafnrétti norrænna innflytjenda á við borgara dvalarlandsins“. Þá var bent á að þessir menn greiddu skatta og skyldur til jafns við ríkisborgara landsins, og talið að kosningarréttur til sveitarstjórnar snerti ekki ”fullveldis- eða þjóðernissjónarmið á sama hátt og ef um þingkosningar væri að ræða. Þá eru náin tengsl íbúa og sveitarstjórna.“ … Athyglisvert er að meginhluti þeirra raka sem fyrir um tveimur áratugum þóttu eiga við um Norðurlandabúa eiga nú við um ríkisborgara á EES-svæðinu, og raunar í síauknum mæli um heimsþorpið gjörvallt.”

Það sem mér finnst hvað athyglisverðast við þessa tilvitnun hef ég feitletrað. Í tilvitnuninni kemur nefnilega ekki bara fram afar vafasamt orðalag þar sem fátt virðist talið öruggt heldur og er þarna nefnt til sögunnar eitt grundvallaratriði þess að norrænir ríkisborgarar hafi kosningarétt og kjörgengi hér á landi, nefnilega víðtækt norrænt samstarf. Samstarf þýðir að eitthvað sé gagnkvæmt og að menn fái það sama fyrir það sem menn láta af hendi. Forsenda þess að hið norræna kosningasamstarf sé réttlætanlegt er því að um sé að ræða gagnkvæm réttindi en ekki einhliða, þ.e. að íslenskir ríkisborgarar hafi sömu réttindi í viðkomandi erlendum ríkjum og ríkisborgarar þeirra hafa á Íslandi. Þessu er fyrir að fara varðandi hin Norðurlöndin en svo sannarlega ekki varðandi afganginn af heiminum.

Réttindi erlendra ríkisborgara meiri en íslenskra

Nái þetta frumvarp fram að ganga þýðir það einfaldlega að erlendir ríkisborgarar munu á sama tíma hafa bæði kosningarétt til sveitarstjórnarkosninga (héraðskosninga) í heimalöndum sínum og hér á landi á meðan að íslenskir ríkisborgarar muni í langflestum tilfellum aðeins hafa kosningarétt hér á landi. Það er því augljóst að menn sitja engan veginn við sama borð í þessum efnum, né er fyrir að fara því víðtæka samstarfi sem er grundvöllur þess að lögin um kosningaréttindi norrænna ríkisborgara hér á landi voru samþykkt árið 1982. Þetta þýðir þannig að réttindi umræddra erlendra ríkisborgara hér á landi verða mun meiri og víðtækari að þessu leyti en réttindi íslenskra ríkisborgara nái frumvarpið fram að ganga. Og svo kallar þetta fólk sig jafnaðarmenn.

Þetta frumvarp Samfylkingarinnar var upphaflega lagt fyrir Alþingi á síðasta löggjafarþingi en það varð ekki úitrætt um það. Flutningsmaður frumvarpsins þá var Mörður Árnason varaþingmaður, en skv. upplýsingum frá skrifstofu Alþingis hefur frumvarpið ekki verið rætt enn á þessu þingi. Aukinheldur má benda á að þegar frumvarpið að lögum um gagnkvæman kosningarétt norrænna ríkisborgara voru rædd árið 1982 töldu tveir þingmenn Alþýðuflokksins, þeir Magnús H. Magnússon þingmaður og Guðmundur Vésteinsson varaþingmaður, að lögin ættu að ná yfir alla erlenda ríkisborgara á Íslandi. Um það var þó ekki flutt formleg tillaga enda ekki undir þá þessa hugmynd tekið í þinginu.

Hver á að borga umframkostnaðinn?

Síðan er spurningin um umframkostnaðinn sem þessu fylgir. Umræddir ríkisborgarar þurfa væntanlega að vita fyrir hvað viðkomandi framboð standa og hver stefnumál þeirra eru. Það er vægast sagt bundið miklum efa að erlendir ríkisborgarar hafi náð nægilegu valdi á málinu á þremur árum til að geta kynnt sér kosningagögn á íslensku. Hver á að standa straum af þeim kostnaði sem túlkaþjónustu og þýðingum á þessum gögnum fylgir á öll þau tungumál sem um er að ræða? Framboðin? Hafa þau efni á því? Íslenskir skattgreiðendur? Sennilega já. Að auki segir það sig sjálft að varla verður nóg að hafa kjörseðla einungis á íslensku heldur verður að væntanlega að hafa þá á viðeigandi fjölda tungumála eins og annað. Hins vegar er síðan stór spurning hversu mikla þekkingu erlendir ríkisborgarar annars hafa á einstökum málefnum viðkomandi sveitarfélaga til að geta myndað sér skoðanir á þeim.

Hvaða hagsmunir vega þyngst?

Getur annars verið að það sem m.a. vaki fyrir Samfylkingunni sé að lappa upp á fylgi sinna framboða í sveitarstjórnarkosningunum með þessu? Maður veltir því óneitanlega fyrir sér enda stutt í kosningar í vor auk þess sem fylgið hefur ekki beint verið hrúgast á Samfylkinguna almennt. Þessi möguleiki er nefnilega alls ekki út í hött enda er það þekkt markmið jafnaðarmannaflokka í Evrópu að líta á aukinn innfluting útlendinga til landa sinna sem ávísun á aukið fylgi. Þetta er þó auðvitað yfirleitt ekki viðurkennt opinberlega. En sé þetta raunin, sem óneitanlega ýmislegt bendir til, þá er Samfylkingin ekki bara að taka hagsmuni útlendinga fram yfir hagsmuni íslenskra ríkisborgara heldur og sína eigin hagsmuni og fyrir hverja eru þingmenn Samfylkingarinnar síðan á þingi?

Hjörtur J.
Með kveðju,