Skapa fjölþjóðasamfélög sundrungu eða samstöðu?
(www.framfarir.net)

Þann 27. nóvember sl. skrifaði ég grein hér á Framfarir.net um þá einkennilegu ákvörðun stúdentaráðs að samtvinna hátíðarhöld stúdenta vegna fullveldisdagsins 1. desember og umræðu um fordóma í þjóðfélaginu. Í kjölfar hennar óskaði ég síðan eftir skýringum á þessu uppátæki frá formanni Stúdentaráðs.

Sem svar við þessu erindi mínu sendi formaðurinn mér afrit af ræðu þeirri sem hann hélt í tilefni af fullveldisdeginum. Ræða þessi er grundvölluð á eftirfarandi skrifum Jóns Sigurðssonar forseta og samstarfsmanna hans í aðfararorðum fyrsta tölublaðs Nýrra félagsrita og er til þeirra vitnað beint í ræðunni:

“Það mun hverjum þeim virðast, sem þekkir hið andlega líf mannsins, að hollast sé að taka eptir skaplyndi og framferði sjálfs sín, og bera það saman við annarra, til þess að læra að þekkja sig einsog maður er, og dæma rétt um hag sinn og öll sín efni, því sá sem ekki tekur eptir þessu, hann ráfar í blindni, og hjá honum ræður kylfa kasti hvernig hinn andlegi hagur hans muni ráðast. Eins er þessu varið með þjóðirnar; taki þær ekki eptir þjóðlífi sínu, þá sundrast þær, og hverr fer þá sinna ferða, án þess að gefa gætur að félagi því sem guð hefir sett hann í í upphafi, til þess að styrkja gagn þess eptir mætti; en því að eins geta þjóðirnar til fulls þekt sig sjálfar, að þær þekki einnig aðrar þjóðir, gefi nákvæman gaum að öllu lífi þeirra og framförum, og taki dæmi þeirra og reynslu sér til eptirdæmis og viðvörunar. En það er bágt fyrir þá, sem búa langt frá öðrum, einsog Íslendingar, að þekkja nákvæmlega til slíks, og verður þeim því hætt við, einsog meir eður minna bryddir á hjá öllum eyjabúum, að þeir gjöri annaðhvort ofmikið úr sjálfum sér eða oflítið, þykjast annaðhvort vera sælastir manna eða vesælastir, og á hinn bóginn meta allt hið útlenda annaðhvort ofmikils eða oflítils.”

Megininntak þessara orða Jóns eru að þjóðir eigi að vera víðsýnar á það sem er að gerast í öðrum þjóðfélögum og fylgjast vel með þeim framförum sem þar eiga sér stað. Þetta eigi þjóðir að gera í því skyni að geta tekið það góða, sem í öðrum þjóðfélögum er að gerast, sér til fyrirmyndar við uppbyggingu eigin þjóðfélags en á sama tíma hafnað slæmum erlendum áhrifum auk þess sem nauðsynlegt sé að læra af reynslu og mistökum annarra þjóða. Ennfremur leggur Jón áherslu á mikilvægi þess að styrkja þjóðfélagið og það að komist verði hjá sundrungu þess. Síðan líkur Jón máli sínu á að segja að við Íslendingar eigum að vera raunsæir og líta á hlutina eins og þeir eru en ekki byggja mat okkar á fyrirframákveðnum skoðunum.

En svo komið sé aftur að ræðu formanns Stúdentaráðs þá lagði hann að mörgu leyti öðruvísi út frá orðum Jóns forseta en hér hefur verið gert. Eins og Jón leggur formaðurinn áherslu á mikilvægi þess að samstaða ríki innan þjóðfélagsins og að forðast sé sundrungu innan þess. Annað sem formaðurinn leggur ríka áherslu á er nauðsyn þess að stuðla að menntun og útrýma vanþekkingu þar sem hún kyndi undir fordóma. Ennfremur vill formaðurinn svo skilja orð Jóns sem svo að þau hafi að geyma hvatningu til umburðarlyndis þó ekkert um slíka afstöðu komi fram í áðurnefndum orðum hans.

En hver er annars ekki samþykkur því að fordómar séu slæmir og að umburðarlyndi sé falleg hugsjón? Gallinn við þessi tvö hugtök í dag er hins vegar sá að þau eru orðin æði teygð og toguð, þá sérstaklega í meðförum ákveðinna aðila sem sjá hag sinn í því að láta þau ná yfir sem allra mest. Hvar eru t.d. mörk umburðarlyndis? Það er vissulega spurning. Ég fyrir mitt leyti veit í það minnsta að umburðarlyndi má aldrei ganga svo langt að það stofni eigin öryggi viðkomandi þjóðfélags eða einstaklings í hættu. Umburðarlyndi má einfaldlega ekki ganga svo langt að það geti orðið að tortímingarafli.

Formaður Stúdentaráðs vill hins vegar endilega yfirfæra orð Jóns forseta á innflytjendamál Íslendinga og, að því er virðist, nota þau til að réttlæta innflutning útlendinga til landsins. Engu að síður er það staðreynd að orð Jóns hafa einungis með erlend áhrif að gera en ekki útlendinga sem slíka. Jón var ekki þekktur fyrir að rita orð sem ekki voru sjálfum sér samkvæm innbyrðis, en það gerist formaður Stúdentaráðs sekur um í ræðu sinni eftir því er best verður séð. Á sama tíma og hann vitnar í orð Jóns um mikilvægi þess að hér þrífist samstaða og traust þjóðfélag þá notar hann orð Jóns sem réttlætingu á þeim innflutningi á útlendingum til Íslands sem átt hefur sér stað á undanförnum árum og áratugum. Hér er augljóslega um að ræða algera þverstæðu enda ljóst að tilkoma fjölþjóðasamfélaga hefur hvergi leitt til samstöðu og einingar heldur einmitt þvert á móti aukið stórkostlega á sundurlyndi og óeiningu viðkomandi samfélaga.

Jón forseti talar einmitt í skrifum sínum um mikilvægi þess að læra af reynslu annarra þjóða og varast að gera sömu mistök og þær. Það er einmitt það sem gera þarf í innflytjendamálum þjóðarinnar, við þurfum að læra af reynslu og mistökum annarra þjóða í þeim efnum seins og öðrum. Túlkun formanns Stúdentaráðs á orðum Jóns eru því engan veginn að öllu leyti rétt og freistast maður til þess að segja að með þessu sé formaðurinn að leggja Jóni orð í munn og gera honum upp skoðanir sem hann hefur að öllum líkindum ekki haft. Þó komum við sennilega seint til með að vita það með vissu því enginn var jú innflytjendavandinn á 19. öldinni enda lítið sem ekkert í að sækja hér fyrir útlendinga.

Hjörtur J.

Flokkur framfarasinna
www.framfarir.net
Með kveðju,