Kæru meðborgarar.

Ég hef nú um skeið fylgst með umræðum hér um ESB, framtíð þjóðarinnar, íslenskt og erlent þjóðerni og fleira í þeim dúr. Umræðan um tvær nýlegar greinar urðu mér efni til skrifta. Í þessum tveim greinum er rætt um Framfaraflokkinn og forvera hans, stefnuskrá hans og sérlega um það hvort stefna og markmið flokksins ssé nú alveg kórrétt varðandi innflytjendamál. Rasismi hefur mikið verið nefndur í því sambandi og þeir sem lesið hafa greinarnar vita að það er aðallega einn aðili sem hefur borið rasisma upp á flokkinn og staðið fyrir ansi vafasömum málflutningi svo ekki sé tekið dýpra í árina. Ásakanir hans um rasisma í framfaraflokknum og umræðurnar sem af þeim sköpuðust fengu mig hins vegar til að staldra við vegna þess að þar virtist enginn sem þátt tók gera sér grein fyrir því að verið var að ræða algerlega ranga hluti undir nafni rasisma. Það er nefnilega þannig með orðið“rasismi” að það lýsir ákvenum hlut, ákveðinni hugmyndafræði.

Íslensk þýðing orðsins “rasismi” er “kynþáttahyggja”. Minn skilningur á rasisma er sá að rasismi sé sú stefna að mismuna fólki eftir kynþætti, að álíta einn kynþátt æðri öðrum. Sögulega hefur rasismi aðeallega beinst gegn svertingjum og gyðingum (þó gyðingar séu strangt til tekið ekki kynþáttur virðist það ekki hafa skipt rasista sögunnar miklu máli). Auk þess eru auðvitað til mýmörg dæmi um rasisma í smærra formi en þetta tvennt, t.d. yfirburðahugmyndafræði Japana gagnvart öðrum Asíuþjóðum s.s Kóreubúum og Kínverjum. Svo koma auðvitað upp einstaklingsbundin tilfelli af rasisma á hverjum degi, gott dæmi er andúð margra íslendinga á asíufólki sem býr hér á landi.
Gallinn er sá að nú virðist orðið rasismi vera farið að ríða húsum í allri umræðu sem snýr að innflytjendamálum eða fordómum yfirhöfuð. Allir sem vekja máls á því að hefta íslenskir ríkisborgarar ættu að hafa að einhverju leyti önnur eða meiri réttindi en aðrir íbúar landsins virðast sjálfkrafa vera stimplaðir “rasistar” í umræðunni, hvort sem þeir hafa rætt eitthvað sérstaklega um kynþætti eða litarhátt eða ekki. Þetta þykir mér vafasöm þróun og einungis til þess fallin að skaða málefnalega umræðu og minnka líkur á því að hægt verði að laga til í málefnum innflytjenda skapa vænlegar aðstæður fyrir alla, bæði innflytjendur og íslenska ríkisborgara, í framtíðinni.

Það virðist nefnilega vera orðin lenska hjá vinstri mönnum og öðrum sem telja sig hafa “réttar” skoðanir að væna hvern þann um rasisma sem vogar sér að leggja til einhverjar breytingar á innflytjendastefnu íslenska ríkisins. Allar tilraunir til að vekja umræðu um málið eru kveðnar niður af “rétt þenkjandi” fólki því að það virðist vera mjög ljótt að ætlast til þess að líka sé hlustað á málflutning þeirra sem hafa aðrar skoðanir en hinn skinhelgi meirihluti. Þess er einna skemmst að minnast þegar samtök ungra sjálfstæðismanna á Akureyri settu fyrir um tveimur árum fram þá hugmynd að þess yrði krafist að þeir sem sæktu um íslenskan ríkisborgararétt þyrftu að standast grunnskólapróf í íslensku. Hugmyndin virtist misbjóða svokölluðu jafnaðarfólki svo mjög að það reis upp á afturfæturna æpandi um nasista og rasisma. Meðal þeirra sem mestan mat gerðu sér úr þessu máli var Björgvin Sigurðsson sem ritaði stutta grein um málið í eitt dagblaðið þar sem lýsingar á Nürnbergsamkomum nasista og lífsspeki Adolf Hitlers tók meira dálkapláss heldur en málefnaleg gagnrýni á tillögu sjálfstæðispiltanna. Hið sorglega var hins vegar að þessi bægslagangur og ásakanir málsvarða lýðræðis og málfrelsis urðu til þess að drepa þessa annars áhugaverðu umræðu í fæðingu. Það virðist því vera skilyrði málfrelsis hér á landi að viðkomandi hafi réttar og ófasískar skoðanir á því sem rætt er um. Ég held að allir sem hafa lesið umræðurnar um grein ritters um Framfaraflokkinn og forvera hans sjái að peace4all er mynduglegur málsvari þessarar stefnu.

Stefnuskrá framfaraflokksins er að mörgu leyti athygliverð lesning. Hún blandar saman einstaklingshyggju og jafnaðaráhrifum á yfirvegaðan hátt svo úr verður, vel heppnað þjóðernissósíalískt manifesto. Það er ýmislegt í stefnuskránni sem hljómar vel í eyrum og hún lítur út fyrir að vera vel ígrunduð bæði frá hugmyndafræðilegu og pólitísku sjónarhorni. Hún setur þannig fram vissar róttækar þjóðernishugmyndir á látlausan menningarpólitískan hátt og kemst þannig hjá því að hætta á að mönnum verði misboðið. Hvergi er að sjá nokkuð ýjað að rasisma eða andúð á innflytjendum vegna litarhafts þeirra eða kynþáttar. Hins vegar er stillt upp andstæðum íslenskum ríkisborgurum annars vegar og innflytjendum hins vegar og rætt um muninn á því hver réttindi þessara hópa ættu að vera og hvað menn þyrftu að uppfylla til að færast úr öðrum hópnum í hinn. Þetta sýnist allt vera mjög lógísk hugsun. Að sjálfsögðu er margt annað í stefnuskránni en innflytjendamál en að venju virðist það verða útundan í umræðunni.

Það sem ég tók eftir er að stefnuskráin virðist að mörgu leyti keimlík stefnuskrá Frelsisflokksins í Austurríki (stefnuskrá FPÖ má nálgast á vef flokksins http://www.fpoe.at), sem var fyrir tveimur árum úthrópaðasta stjórnmálaafl Evrópu, aðallega vegna harðrar (en skiljanlegrar) inflytjendapólitíkur flokksins og hins vegar vegna þess vana þáverandi formanns flokksins, Jörg Haider, að láta út úr sér full vafasamar fullyrðingar um Þriðja ríkið á opinberum vettvangi (t.d. þegar hann lýsti því yfir á fundi með fyrrverandi Wehrmacht hermönnum að meðlimir Waffen-SS hefðu að mestum hluta verið heiðvirðir menn!). Án þess að ég treysti mér að segja til um beinan skyldleika þessara tveggja stefnuskráa þá má sjá af lestri þeirra að Framfaraflokkurinn er greinilega sprottinn úr sama hugmyndafræðilega mótinu.
Ég nefndi hér að ofan að stefnuskrá Framfaraflokksins liti lógísk að mörgu leyti út að mörgu leyti. Hins vegar má ekki gleyma því að stefnuskrár geta verið léttvæg plögg þegar til á að taka og í praxís skipta þær ekkert endilega mali. sem dæmi má einmitt nefna kosningabaráttu téðs Frelsisflokks Austurríkis 1999 þegar hart var sótt að innflytjendum með verulega vafasömum meðulum. Enda fór allt á annan endann í Evrópu þegar Austurríkismenn komu upp um sig með því að koma FPÖ til valda. Viðskiptabann og þvinganir ESB og USA (sem heita í mínum huga “vafasöm afskipti utanaðkomandi aðila af innanríkismálum”) fylgdu í kjölfarið og alþjóðasamfélagið virtist sammála um (með “nýju” vinstrimennina Tony Blair og Bill Clinton í fararbroddi) að nú hefðu Austurríkismenn einfaldlega kosið vitlaust! Ég er nokkuð viss um að ef álíka róttæk vinstrihreyfing hefði komist til valda hefði ekkert gerst. Það virðist því vera skoðun “jafnaðarmanna” í Evrópu og Bandaríkjunum að ríki skuli hafa þær skoðanir og þá stjórn sem er þeim þóknanleg, en ekki það sem hún kýs sjálf.

Það er leitt til þess að hugsa að þróunin hér á landi virðist vera að miklu leyti sú sama nú upp á síðkastið.



obsidian
____________________
“Freedom is the most precious possession people have. Freedom means the utmost degree of self-determination exercised in a responsible way. Freedom excludes any oppression, whether physical or mental, religious, political or economic and, above all, rules out any kind of state despotism.”