Kröfur Flokks framfarasinna litlar miðað við ýmis önnur vestræn ríki
(www.framfarir.net)

Fjölmenningarsinnar hafa sumir gagnrýnt Flokk framfarasinna fyrir að vilja gera þær kröfur til innflytjenda að þeir læri íslensku, íslenska sögu og um íslenska menningu. Staðreyndin er þó sú að umræddar kröfur eru litlar miðað við þær kröfur sem ýmis önnur vestræn ríki gera til innflytjenda sinna.

Alls staðar í heiminum eru einhver skilyrði sett fyrir því að útlendingum sé veittur ríkisborgararéttur í viðkomandi löndum. Fjórar algengustu leiðirnar til að verða ríkisborgari í ríki eru að viðkomandi einstaklingur sé fæddur í ríkinu, eigi foreldri sem er ríkisborgari í ríkinu, með því að ganga að eiga ríkisborgara í ríkinu og vera úthlutað ríkisborgararétti í ríkinu.

Lög um úthlutun ríkisborgararéttar eru mismunandi á milli ríkja. Grundvallarskilyrðin í flestum tilfellum eru þó þau að innflytjandi hafi búið í viðkomandi ríki í ákveðinn tíma, hafi í hyggju að setjast þar að til frambúðar, sé a.m.k. ákveðið gamall, geta séð fyrir sér og sínum, geta talað viðkomandi ríkistungumál, vera heilbrigður og hafa að geyma góðan mann (“be of good character”) og framvísa sönnun fyrir því að fyrri ríkisborgararéttur hafi verið numinn úr gildi.

Ríki ráða því að mestu leyti sjálf hvaða reglur þau setja um veitingu ríkisborgararéttar, svo og hvaða skilyrði eru sett fyrir veitingu hans. Það verður þó að vera innan þess ramma að ekki má mismuna fólki á grundvelli kynferðis, trúarbragða, kynþáttar o.s.frv. auk þess sem ákveðnar undanþágureglur gilda um pólitíska flóttamenn. Að öðru leyti er ríkjum í sjálfsvald sett útlistun og framkvæmd þessara mála.

Um Kanada

En sem fyrr segir eru kröfur þær sem Flokkur framfarasinna vill gera til þeirra sem vilja sækja um íslenskan ríkisborgararétt litlar miðað við þær kröfur sem ýmis önnur vestræn ríki gera innflytjendum að uppfylla vilji þeir gerast ríkisborgarar í viðkomandi ríkjum. Ef við tökum Kanada sem dæmi þá er ekki einungis gert þá kröfu til innflytjenda þar í landi að þeir læri viðkomandi ríkistungumál (ensku eða frönsku), kanadíska sögu og menningu heldur og landafræði Kanada, samfélagsfræði og um stjórnskipun landsins. Er gert ráð fyrir að innflytjendur séu á námskeiðum í eitt til tvö ár í því skyni að uppfylla skilyrðin fyrir veitingu ríkisborgararéttarins. Eru námskeið þessi kostuð að hluta af opinberu fé og að hluta af einkaaðilum.

Ennfremur eru síðan þau almennu skilyrði sett fyrir veitingu kanadísks ríkisborgararéttar, skv. innflytjendalögunum frá 1976, að viðkomandi innflytjandi sé a.m.k. 18 ára, hafi komið á löglegan hátt til Kanada, hafi búið í landinu í a.m.k. þrjú ár og hafi fullnægjandi þekkingu á opinberu stofnanakerfi ríkisins, þeirri ábyrgð sem fylgir ríkisborgararéttinum og öðru opinberu tungumáli ríkisins, ensku eða frönsku. Að lokum þurfa innflytjendur að undirrita sérstakan eið og heita með honum hollustu við ríkið, virðingu fyrir lögum landsins og að uppfylla allar skyldur þess að vera kanadískur ríkisborgari.

Um Bandaríkin

Hliðstæð skilyrði eru fyrir veitingu ríkisborgararéttar í Bandaríkjunum. Lög um veitingu bandarísks ríkisborgararéttar eru þó að mörgu leyti mun strangari en t.a.m. í Kanada. Þar er t.d. heimilt samkvæmt lögum að svipta útlendinga, sem veittur hefur verið ríkisborgararéttur, réttinum ef þeir gerast sekir um ákveðin glæpsamleg athæfi. Þetta gildir aðeins um innflytjendur til Bandaríkjanna, þ.e. þá sem veittur hefur verið ríkisborgararéttur. Ennfremur er heimilt, samkvæmt bandarískum lögum, að svipta bandaríska ríkisborgara réttinum af öðrum sökum með lagasetningu svo framarlega sem sú lagasetning samrýmist stjórnarskránni.

Dæmi um tilfelli þar sem leyfilegt er að svipta bandaríska ríkisborgara réttinum, samkvæmt bandarískum lögum, er þegar ríkisborgari gerist ríkisborgari í erlendu ríki með frjálsum vilja, með því að sverja erlendu ríki hollustueið, með því að gegna herþjónustu í erlendum her án samþykkis bandarískra stjórnvalda, með því að afsala sér bandarískum ríkisborgararétti með formlegum hætti, með því að vera fundinn sekur um föðurlandssvik, vegna tilraunar til að gera uppreisn gegn sitjandi stjórnvöldum með valdi o.fl.

Til viðbótar má síðan nefna að samkvæmt bandarískum lögum ber bandarískum stjórnvöldum einungis skylda til að verja réttindi ríkisborgara sinna, þegar þeir eru staddir erlendis, en ekki annarra íbúa Bandaríkjanna. Bandarískum stjórnvöldum er heimilt samkvæmt lögum að vísa þeim íbúum Bandaríkjanna, sem ekki eru bandarískir ríkisborgarar, úr landi ef þeir gerast sekir um ákveðna glæpi. Kemur þetta heim og saman við stefnu Flokks framfarasinnaí þessum málum.

Lokaorð

Að þessu lesnu er það því deginum ljósara að kröfur þær sem Flokkur framfarasinna vill gera til þeirra útlendinga sem hug hafa á að setjast að á Íslandi, og sækja um ríkisborgararétt, eru einfaldlega í afar hóflegum farvegi miðað við ýmis önnur vestræn ríki. Sú gagnrýni fjölmenningarsinna að flokkurinn geri of miklar kröfur til innflytjenda eru því algerlega úr lausu lofti gripnar.

Kv.

Hjörtur J.
Með kveðju,