Ég verð nú að aðstoða félaga mína í flokki framfarasinna, þó svo að ég standi á engan hátt framarlega meðal þeirra.

Flokkur framfarasinna ókyrrist nú varla við þessa grein á frelsi.is þar sem að hún er uppfull af ýmiss konar vitleysum.
Sú fyrsta: “Flokksmenn eru ekki margir talsins, enda var flokkurinn stofnaður í gegn um netið af tveimur vinum sem höfðu svipaðar skoðanir. Þessir strákar skipuðu svo sjálfa sig formann og varaformann, enda var ekkert um félagsmenn til þess að greiða þeim atkvæði.”

Flokksmenn eru nú þónokkrir miðað við að um óformlegt félag er að ræða sem er ungt og ekki stofnað af einstaklingum sem voru þungarviktarmenn í pólítík fyrir. Það að félagið hafi verið stofnað af tveim vinum í gegnum netið sem hafi skipað sig formann og varaformann er nú í reynd kjaftæði.
Félagið var stofnað af tveim hópum sem runnu saman, þegar þeir sáu að þeir voru í raun með afskaplega svipaðar hugmyndir og lítið eitt sem leiddi til árekstra milli þeirra. Ég tilheyri öðrum hópnum! Þeir sem eru nú settir formaður og varaformaður eru þeir sem að upprunalega fóru fyrir þessum tveimur hópum og fengu frá þeim umboð til að koma batteríinu af stað, þangað til að formleg stofnun færi fram.
Engar kosningar hafa farið fram vegna þess að enn er verið að vinna að formlegri stofnun félagsins, lög félagsins sem nú eru í mótun gera reyndar grein fyrir nokkuð ýtarlegri löggjöf til að koma í veg fyrir að félagið verði misnotað í þágu fárra einstaklinga innan þess. Í raun er FF því ekki til formlega sem þýðir að skipaður formaður og varaformaður er ekkert sem er varhugavert, heldur eðlilegt meðan verið er að vinna að mótun félagsins.
Númer tvö: “þó á flokkurinn að sækja hugmyndafræði sína til ýmissa þjóðmálaafla frá árunum 1871 - 1908. Þetta eru að þeirra sögn félög eins og Hið íslenzka þjóðfrelsisfélag, Landvarnarflokkurinn, Þjóðræðisflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn hinn fyrri, Frjálslyndi flokkurinn hinn fyrsti og Sjálfstæðisflokkurinn hinn síðari”………“Það er skrítið að flokkurinn þurfi að sækja hugmyndafræði sína í meira en hundrað ára gömul félög og stjórnmálaöfl, það er líka spurning hvort að það stangist ekki á við „framfara“ titilinn sem þeir hafa gefið sér.”
Þetta er líka fullt af villum enda getur FF varla verið að leita í meira en hundrað ára gömul stjórnmálaöfl ef t.d. sjálfstæðisflokkurinn síðari varð til mun síðar eða 1929.
Hver segir annars að gömul lögmál firnist?
Eru menn ekki alltaf að vitna í 18. aldar manninn Adam Smith og bók hans auðlegð þjóðanna þegar þeir prédika frjálshyggju. Það væri þá bara nokkuð vel úr garði gert hjá FF að vitna í félög frá 1871. Heimdallur sækir sínar hugmyndir að hluta til í 95 ára gamalt rit, er það þá ekki orðið meira úrelt?

Ein spurning að lokum, ef meirihlutinn á ekki að ráða völdum í lýðræði er þá ekki komin fámennisstjórn þar?