Það hefur alltaf undrað mig eftir reynslu Íslendinga af kvótakerfinu hversu mikið íslenskir vinstrisinnar eru á fylgjandi kvótakerfi í loftmengun. Með því að koma á svona kvótakerfi er verið til lengri tíma litið að koma á fast hverjir eiga réttinn til að skemma loftið umhverfis okkur og þarmeð að eiga loftið í andrúmsloftinu. Eftir mengunarkvótanum að dæma má sjá að Bandaríkin með sín 4-5% af íbúum jarðar eiga að fá úthlutað 67% af andrúmslofti jarðar. Eina réttláta skipting á mengunarkvóta jarðarinnar er eftir mannfjölda. Því þegar öllu er á botni hvolft þá eigum við öll jafn mikinn “rétt” til að losa koltvísýring út í loftið. Þetta gæti þá leitt til að þróunarlöndin sem ekki menga sélega mikið á einstakling gætu fengið peninga inn frá löndum eins og Íslandi sem er með mikinn útblástur af koltvísýring á íbúa til að standa straum af iðnvæðingu þessara landa. Þannig kerfi myndi stuðla að jöfnuði í heiminum auk þess sem það myndi hvetja til að nýjasta tækni við að minnka mengun væri líka notuð í Þróunarlöndunum.
Þetta kerfi sem verið er að reyna að koma á mun staðfesta eignarrétt vesturlanda á nýtingu andrúmsloftsins til iðnaðarframleiðslu á sama hátt og kvótakerfið staðfesti eignarrétt sægreifanna á fiskinum í sjónum við Íslandsmið. Ef markmiðið væri að minka koltvísýring í andrúmsloftinu væri nær að reyna að auka almenningssamgöngur og leggja meiri fjármuni í rannsóknir á notkun orkugjafa sem ekki gefa frá sér gróðurhúsalofttegundir. Orkan sem kemur til jarðarinnar frá sólinni er milljónfallt það sem við þurfum svo það væri vel hægt að vinna hana sem raunverulegan valkost við olíu, kol og kjarnorku. Það má t.d. líka líta til vinnslu á orkunni í ölduganginum í sjónum, metanvinnslu úr landbúnaðarúrgangi og vindorku. Það þarf hinsvegar að leggja mikið fé í slíkar rannsóknir sem ekki er gert nægilega mikið.
Ofan í þetta allt saman hefur ekki verið sannað eða á nokkurn hátt sínt fram á að það sé sennilegt að maðurinn hafi haft afgerandi áhrif á veðurfar á jörðinni. Ég vil tildæmis benda á að það hefur oft í jarðsögunni verið mun heitara á jörðinni en nú og það langt áður en útblástu gróðurhúsalofttegunda fór að gæta frá mönnum. Þegar að iðnvæðing hófst í Evrópu var “litla ísöldin” á hámarki sínu og var þá fleiri gráðum kaldara en t.d. við landnám á Íslandi. Þessi lápunktur í kuldaskeiði er síðan notaður til að sína fram á hversu mikið maðurinn hafi haft áhrif á veðurfar jarðar. Þetta er algerlega óvísindalegt og er vísað á bug af mörgum virtum jarðeðlisfræðingum sem ég hef rætt við meðan á skóladvöl minni við eðlisfræðideild Kaupmannahafnarháskóla hefur staðið. Þetta minnir soldið á söguna um strákinn sem sparkaði í ljósastaur á nákvæmlega sama tíma og rafmagnið fór af allri New York borg og var alveg sannfærður um að þetta væri allt sér að kenna.
Ég mótmæli því bæði að það sé nein vísindaleg ástæða til að halda að maðurinn hafi áhrif á gróðurhúsaáhrifin né að Kyoto sé góð leið til að ná því marki að sleppa út minna af gróðurhúsalofttegundum.