Flokkur framfarasinna og forverar hans

Stundum hafa forsvarsmenn Flokks framfarasinna verið inntir svara við því hvaða fyrirmyndir flokkurinn hafi í stjórnmálasögunni. Þó raunin sé sú að eiginlegar fyrirmyndir flokksins séu engar eru þó ákveðin íslensk stjórnmálaöfl í sögunni sem flokkurinn lítur á sem forvera sína. Þar er efst á blaði Hið íslenzka þjóðvinafélag sem upphaflega var stofnað sem stjórnmálasamtök árið 1871.

Hið íslenzka þjóðvinafélag, eða Þjóðvinafélagið eins og það er einnig kallað, er enn til en starfar í dag sem virðuleg bókútgáfa. Sem fyrr segir var félagið þó upphaflega stofnað sem stjórnmálasamtök 1871 af 17 alþingismönnum. Fyrsti formaður þess var Jón Sigurðsson forseti. Markmið félagsins var “… að reyna með sameiginlegum kröftum að halda uppi landsréttindum og þjóðréttindum Íslending, efla samheldni og stuðla til framfara landsins og þjóðarinnar í öllum greinum. Einkanlega vill félagið kappkosta að vekja og lífga meðvitund Íslendinga um, að þeir séu sjálfstætt þjóðfélag og hafi því samboðin réttindi.” Fer þetta ljóslega vel saman við stefnu Flokks framfarasinna.

Önnur íslensk stjórnmálaöfl sem Flokkur framfarasinna lítur á sem eins konar forvera sína eru Hið íslenzka þjóðfrelsisfélag, Landvarnarflokkurinn, Þjóðræðisflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn hinn fyrri, Frjálslyndi flokkurinn hinn fyrsti og Sjálfstæðisflokkurinn hinn síðari. Koma stefnur allra þessara stjórnmálasamtaka vel heim og saman við stefnu Flokks framfarasinna. Skal nú gert grein fyrir þessum stjórnmálasamtökum í stuttu máli.

Hið íslenzka þjóðfrelsisfélag var stofnað árið 1884 til þess m.a. að taka við af Þjóðvinafélaginu, sem mönnum þótti ekki sinna hlutverki sínu, auk þess að berjast fyrir þingræði á Íslandi. Önnur markmið félagsins voru “… að styðja og efla sjálfsforræði Íslands, vekja alþýðu manna til hluttekningar í þjóðmálum og auka almenna stjórnarfarslega þekkingu landsmanna.”

Landvarnarflokkurinn var stofnaður árið 1902 og voru róttækustu samtökin í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Meginstefna flokksins var að Ísland yrði frjálst og óháð sambandsland Danmerkur, en einnig voru raddir innan hans um algeran aðskilnað landanna. Jón Jensson yfirdómari og Einar Benediktsson skáld mótuðu stefnu flokksins í upphafi.

Þjóðræðisflokkurinn var settur á lagginar árið 1905 af 11 alþingismönnum. Meginstefnu flokksins var lýst með þessum hætti: “Fyrsta og helzta grundvallaratriðið í stjórnmálastefnu vorri er það, að þjóðin fái sjálf að ráða málefnum sínum, að svo miklu leyti, sem sú hugsjón getur í framkvæmdinni samþýðst þingbundnu stjórnarfyrirkomulagi. Þjóðræðið er lang helzta trygging fyrir því, að aldrei geti haldizt við hér á landi til lengdar ranglát, né óheiðarleg, né óþjóðleg stjórn, að ógleymdum sjálfsögðum rétti þjóðarinnar til þess að fá virtan vilja sinn um það, er henni kemur við.”

Sjálfstæðisflokkurinn hinn fyrri var stofnaður árið 1908 við sameiningu Landvarnarflokksins og Þjóðræðisflokksins.

Frjálslyndi flokkurinn hinn fyrsti var stofnaður 1926-1927 af þeim þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fyrri sem ekki vildu ganga til samstarfs Íhaldsflokkinn þegar hann var stofnaður 1924. Meginstefna flokksins var barátta fyrir fullkomnu sjálfstæði Íslendinga, ýmsum framfaramálum á grundvelli einstaklingsframtaks, frjálsri verslun, gegn hagsmunabaráttu séttaflokkanna og fyrir heildarhagsmunum þjóðarinnar umfram stétta- eða einstaklingshagsmuni. Flokkurinn sameinaðist 1929 Íhaldsflokknum í Sjálfstæðisflokknum síðari.

Sjálfstæðisflokkinn síðari var stofnaður 1929 við samruna Frjálslynda flokksins hins fyrsta og Íhaldsflokksins sem fyrr segir. Markmið flokksins voru í upphafi að vinna að því og undirbúa það að Ísland tæki að fullu öll sín mál í sínar eigin hendur, að gæði landsins væru fyrir landsmenn eina, að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklings- og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum, að varðveita og tryggja sjálfstæði og frelsi Íslands, standa vörð um tungu, bókmenntir og annan menningararf Íslendinga, treysta lýðræðið og þingræðið í sessi, að auðlindir landsins væru hagnýttar í þágu þjóðarinnar og skapa öllum landsmönnum félagslegt öryggi. Geta má þess að lokum að Sjálfstæðisflokkurinn er vitanlega allt annar flokkur í dag en hann var í upphafi.

Þetta eru þau íslensku stjórnmálaöfl sem Flokkur framfarasinna lítur á sem nokkurns konar forvera sína í íslenskri stjórnmálasögu. Allt voru þetta þjóðleg og framfarasinnuð stjórnmálaöfl sem settu hagsmuni Íslands og íslensku þjóðarinnar í forgang rétt eins og Flokkur framfarasinna gerir í dag.

(Heimild: Einar Laxness: Íslandssaga a-ö. Reykjavík. 1974.)

Hjörtur J.


Flokkur framfarasinna
www.framfarir.net
Með kveðju,