Ólýðræðislegur einhliða áróður Ólýðræðislegur einhliða áróður kostaður af almanna fé

Fyrir nokkru var sérblaði á annan tug síðna dreift með Morgunblaðinu til landsmanna undir heitinu “Fjölþjóðasamfélag - allra hagur”. Hér var á ferðinni ólýðræðislegur áróður, kostaður af almanna fé þar sem einungis einum sjónarmiðum var komið á framfæri og öðrum ekki. Flokkur framfarasinna krefst svara frá opinberum útgefendum blaðsins og einkaaðilum.

Áróðursrit þetta er gefið út og kostað af Félagsmálaráðuneytinu, Reykjavíkurborg, Rauða krossi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins. Ábyrgðarmaður er Ísak Jónsson. Ýmislegt efni er að finna í þessu riti en það sem það á þó sameiginlegt er að vera allt ritað í þeim tilgangi að fegra hið svokallaða fjölmenningasamfélag og sópa öllum óþægilegum staðreyndum undir teppið í þeim tilgangi að blekkja lesandann. Þetta rit er einfaldlega einstefnu áróður, kostað af opinberu fé, þar sem aðeins einu sjónarmiði er leyft að njóta sín í hápólitísku máli.

Í lýðræðislegu þjóðfélagi á ekki að nota opinbera sjóði til að reka slíkan pólitískan áróður og alls ekki þar sem aðeins einum pólitískum sjónarmiðum er leyft að njóta sín og öðrum ekki. Hið opinbera á einfaldlega ekki að gera upp á milli sjónarmiða í hápólitískum málum eins og innflytjendamálum enda er slík framkoma ekki aðeins ómálefnaleg heldur og í hæsta máta ólýðræðisleg. Er ríkisstyrktur einhliða áróður virkilega eitthvað sem við viljum að viðgangist í okkar lýðræðissamfélagi?

Í áróðursriti þessu er m.a. ávarp Davíðs Oddsonar forsætisráðherra þar sem hann segir m.a. að mikill fengur sé í þessum landnámsmönnum nútíðar. Davíð lýkur orðum sínum á að segja: “Opin umræða um aðstæður og kjör nýbúa hér á landi er nauðsynleg. Þetta blað er ágætt innlegg í þá umræðu”. Opin umræða getur þó vart talist sú umræða sem einungis er einhliða líkt og sú sem fram fór í þessu blaði.

Þar sem hér er um að ræða einhliða áróður fyrir fjölmenningarsamfélagi, sem hvergi hefur gengið upp áfallalaust, áróður sem meðal annars er fjármagnaður að stóru leyti af opinberu fé hljótum við að spyrja okkur hvort þetta framferði sé rétt? Svo getur vart verið og því hefur stjórn Flokks framfarasinna sent bréf til þeirra opinberu aðila sem að útgáfu þessa rits stóðu auk Rauða kross Íslands, sem hingað til hefur státað af hlutleysi og þannig komist hjá átökum, og krafist afdráttarlausra svara.

Flokkur framfarasinna
www.framfarir.net

Hjörtur J.
Með kveðju,