Sérstaða Íslands í umhverfismálum


Þetta er tekið af Ungumvinstri grænum í dag og vona ég að ég særi engann með því að taka það orðrétt af,heimasíðu þeirra.


Umhverfismál eru mikilvægasti málaflokkurinn sem við munum glíma við á næstu áratugum og öldum. Skýrsla umhverfisráðherra um Kyoto-bókunina sýnir svo ekki verði um villst að ef ekki verður eitthvað aðhafst í loftlagsmálum á næstu árum mun varla verða lífvænlegt á jörðinni innan fárra áratuga. Samningaferlið sem Sameinuðu Þjóðirnar hafa staðið fyrir um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda er lífsnauðsynlegt framtak þjóða heims til að stemma stigu við þróuninni. Við lestur skýrslu umhverfisráðherra koma þó fram mjög mismunandi áherslur og forsendur ríkja fyrir þátttöku í ferlinu, til dæmis eru Evrópusambandslöndin öll af vilja gerð til að leggja sitt á vogaskálarnar og svo má segja um mörg önnur ríki. Fullur skilningur er þó fyrir því að þróunarríkin standi undir samningaákvæðum þegar fram í sækir án þess að skerða lífskjör sem þegar eru bág.

Íslendingar telja sig oft lúta örðum lögmálum en önnur ríki og Kyoto-bókunin er þar engin undantekning. Í samningaferlinu hefur ráðuneyti á Íslandi sem á að gæta hagsmuna umhverfis gengið hart fram í því að fá undanþágu á silfurfati fyrir stóriðjufyrirtæki. Á Íslandi eru hinsvegar ekki sérstakar aðstæður sem gera okkur ókleift að virða umhverfissáttmála og Ísland er ekki þróunarland.

Þvert á móti þá eru aðstæður á Íslandi þannig að við höfum tækifæri til að skara framúr í umhverfisvernd í heiminum án þess að lífsgæði okkar minnki. Því til stuðnings má nefna landgræðsluátök, nýtingu jarðvarma í auknum mæli, sem telst til endurnýjanlegs orkugjafa og þróunarstarf sem hér er unnið til að minnka mengun úr til dæmis álverum. Þessar forsendur gera okkur kleift að ganga á undan með góðu fordæmi og miðla þekkingu okkar á þessum sviðum til annarra þjóða til góðs fyrir heimsbyggðina. Sérstaða Íslands felst í því að geta náð hámarksárangri í umhverfismálum án þess að skerða lífskjör.

En, nei, það er ekki stefna ríkisstjórnarinnar. Stefnuna má lesa í skýrslunni en þar er tekið fram hvernig Ísland getur aflað sér losunarheimilda til notkunar hér á landi m.a. með því að fara í sameiginlegar framkvæmdir með öðrum ríkjum. Forsendur fyrir okkar hlut í samningaviðræðunum eru því skýrar, hvernig getum við losað sem mesta mengun og samt verið innan ramma alþjóðasamninga. Í skýrslu umhverfismálaráðherra er því ekki rætt um hvernig við aðlögumst Kyoto-bókuninni, heldur hvaða möguleika við höfum til að standa við skuldbindingarnar þrátt fyrir þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru hér á landi.

Það er alveg rétt að við erum framarlega í nýtingu endurnýtanlegrar orku og þeirri kunnáttu eigum við að miðla til annarra þjóða og þá sérstaklega þróunarlandanna. Tilgangur þess að miðla þekkingu okkar á ekki að vera svigrúm til að menga meira heldur á tilgangurinn að vera að standa undir ábyrgð okkar á umhverfismálum í alþjóðasamfélaginu. Það er nefninlega ekki nóg að kenna börnum okkar ábyrgð á umhverfinu í gegnum sjónvarpsefni ef við erum sjálf að leita allra leiða til að vinna skemmdarverk í umhverfismálum.

Um allan heim er litið til Kyoto-bókunarinnar sem upphaf nýrra tíma og vel verður fylgst með því hvernig einstök ríki standa sig. Við höfum því einstakt tækifæri á næstu árum til að ganga undan með góðu fordæmi og marka okkur stöðu sem umhverfisvæn þjóð. Þetta tækifæri eigum við að nýta, það eru okkar hagsmunir


Tilgangur minn með því að senda þetta inn er að reyna kalla fram \“Málefnalega\” umræðu um Kyoto bókunina, Vinstri-grænir fara náttúrulega hamförum og komast í fréttirnar fyrir að gera súg að Umhverfisráðherra fyrir að koma í gegn sér-ákvæði íslands, og er það að mati þeirra alveg út úr öllu korti, vegna þess að við vorum óiðnvædd áður þá erum við dæmd til þess að vera það um aldur og ævi, ÞAÐ ERU SYNDIR FORFEÐRA OKKAR,ÞEIR IÐNVÆDDUST EKKI NÓG OG ÞVÍ GETUM VIÐ ÞAÐ EKKI HELDUR..

Kv:vigni