Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra vill að Íslendingar taki upp samskipti við heimastjórn Palestínu enda þótt hún sé enn á svörtum lista ESB og USA. Það er einkennilegt að ríkisstjórn Íslands skuli láta svo mjög til sín taka í málefnum Palestínu, Framsóknarmenn sérstaklega. Kvað enda Hallbjörn Hjartarson um formann þeirra í eina tíð “gerir perlu úr Arafat”. Aldrei eða sjaldnast heyrast íslensk stjórnvöld fordæma sjálfsmorðssprengjuárásir Palestínumanna á heimastjórnarsvæðunum eða í Ísrael. Ekki er rétt að úiloka samband við Palestínumenn í framtíðinni þótt vandséð sé í hvaða tilgangi íslenskur utanríkisráðherra eigi að vera að þvælast þar niður frá á þessum stríðshrjáðu slóðum. Auðvitað kann hér að vera einhver kosningabrella á ferðinni út af framboðinu í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Hinsvegar er best að fylgja nágrönnum okkar og vinum í ESB og USA að málum í þessum efnum og stofna ekki til ríkara sambands við Palestínumenn en þeir og bíða þess að samsteypustjórn Hamas og Fatah fari að öllum skilyrðum þeirra s.s. að hafna ofbeldi og viðurkenna Ísrael. Óneitanlega væri þó best að hafna öllum viðræðum við stjórn sem Hamas á aðild að, enda eru samtökin alþekkt hryðjuverkasamtök.