Ég álpaðist inn á þessa heimasíðu eftir að hafa séð grein á niðurstöðum google-leitar um félagshyggju. Mér fannst hún, ásamt svörunum, áhugaverð og eftir að hafa lesið þau öll tók ég saman langt og ítarlegt svar við ýmsum þeim sem höfðu tjáð sig.

Það var ekki fyrr en ég hugðist senda það inn sem ég tók eftir því að síðasta svarið hafði komið í júlí árið 2003 og fannst mér heldur súrt í broti að senda það inn vitandi að enginn myndi lesa það. Þess vegna hef ég ákveðið að senda það inn undir grein, og hvet fólk að sjálfsögðu til að lesa hana áður en það les svar mitt. Hana má finna hér:
http://www.hugi.is/stjornmal/articles.php?page=view&contentId=1175742

Hér kemur svo svar mitt, sem vonandi á ekki bara við um þessa tilteknu grein heldur margar aðrar þar sem frjálshyggju og félagshyggju ber á góma:

Orð Ikeaboy, Braveheart, Armon og fleiri finnst mér lýsa skoðunum þar sem þeir sem rita hafa kannski ekki kynnt sér allar hliðar málsins.

Ikeaboy, ásamt fleirum, ræða sífellt um það að samfélagið eigi að "henda honum [pening] í þá sem eiga ekki nóg að éta," o.s.frv.
Reynslan hefur hins vegar sýnt að oft leysir engin vandamál að gefa ógæfufólki eða fátækum peninga, fatagjafir eða mat(ath. lykilatriðið í þessu sambandi er að gefa). Það er ef til vill falleg hugsun en veldur oft því að þeir sem aðstoðina þiggja komast upp á lagið með það og gera engar frekari tilraunir til að koma fótunum fyrir sig aftur í lífinu. Afleiðingar þróunaraðstoðar eru annað dæmi um þetta(sem ég ætla ekki að fara nánar út í en lesendur geta kynnt sér og borið saman). Betri árangur getur náðst með því að veita fólki lán, vaxtalítið eða jafnvel vaxtalaust, sem veldur því að lánþegarnir eru vísari til með að borga það til baka sé raunverulegur vilji til staðar við að snúa blaðinu við. Þetta geta fyrirtæki í einkaeigu auðveldlega séð um.

Armon minnist á tryggingakerfið í Bandaríkjunum og vill meina að þar megi sjá einn galla frjálshyggjunnar. Hann segir: “…hvort er siðferðislega mikilvægara, réttur manneskjunnar til lífs eða réttur manneskjunnar til eignahalds, og útrásar á græðgi og nísku?”

Fyrir utan hvað mér finnst einkennilegt að hann tali um rétt manneskju til eignahalds sem útrás á græðgi og nísku, þá hafa margir bent á hvað tryggingakerfið í Bandaríkjunum er í sjálfu sér stórgallað og ekki samkvæmt skoðunum frjálshyggjumanna. Hérna á Íslandi má auðveldlega líkja fyrirkomulagi á bílatryggingum við einkarekið heilbrigðiskerfi. Allir borga lágmarkstryggingar sem renna til tryggingarfélaganna(eða spítalanna ef því er að skipta), neytendur geta valið hvort þeir borgi kaskótryggingar/aukatryggingar(og velja þá tryggingarkerfið/spítalann sem býður bestu kjörin) og ef bíllinn bilar eða einhver á heimilinu veikist sér tryggingin um að dekka þann part sem bíllinn eða sjúklingurinn er tryggður fyrir(hér færi peningurinn sem annars rynni í skatt í sjúkraleguna hvort eð er í hana, nema skiptingin milli heilbrigðra og heilsuminni þegna væri réttlátari, biðlistar hyrfu vegna jafnvægis framboðs og eftirspurnar rétt eins og með bílaviðgerðir). Svona er þetta hins vegar ekki, hvorki á Íslandi né í Bandaríkjunum og eins og einhver minntist á fyrir ofan rennur um helmingur skattpeninga í heilbrigðiskerfið og má spyrja sig hvort það sé eðlilegur hlutur eða hægt væri að hafa betra fyrirkomulag á. Spilling innan og milli tryggingafélaganna er svo annað mál sem tengist þessu ekki.

(Áhugaverður punktur í þessu samhengi, fyrst Armon ruglaði saman anarkisma og frjálshyggju, er fyrirkomulag björgunarsveita á Íslandi. Sú starfsemi er að flestu leyti svipuð heilbrigðisþjónustu nema ríkisafskipti eru engin og björgunarsveitirnar eru í raun reknar á anarkískum forsendum. Þótt ríkið sjái ekki um að bjarga villtum rjúpnaskyttum á hálendi Íslands eða slösuðum sjómönnum þýðir það ekki að þeir verði bara úti eða blæði til dauða, þannig virkar mannskepnan ekki og mér finnst ummæli ýmissa í svörunum um að frjálshyggjumenn þykist ekki lifa í samfélagi við aðra dauð og ómerk þegar við lítum á hlutina í þessu ljósi).

Notandinn “mig” sagðist efast um að fólk setti meiri peninga í góðgerðastörf þegar skattar væru lækkaðir. Hér má ekki gleyma að þegar skattar (þá einkum á lágtekjufólk) eru lækkaðir minnkar þörfin fyrir aðstoð hjá þeim fátækari. Á Íslandi eru hátekjuskattar hins vegar svo gríðarlegir miðað við lágtekju að við þetta má setja eitt stórt spurningamerki.

Rétt eins og Armon segir, “Að hjálpa fólki að komast á réttan kjöl skilar sér á endanum margfalt.” eru ummæli sem allir eru sammála um, líka “peninganurlarar og aðrir auðfíklar á borð við Sjálfstæðismenn” eins og hann orðar þá í málsgreininni á undan. Aðferðirnar til þess eru hins vegar misgóðar og vonandi hef ég rökstutt mína skoðun nógu vel til þess að hann sé tilbúinn að endurskoða afstöðu sína. Fyrir nokkrum árum var ég ekkert endilega viss um það sjálfur hvernig mætti bæta það þjóðfélag sem við lifum í, en eftir að hafa vegið og metið fannst mér þessar leiðir vera þær skynsömustu.
Bikejoring er snildar fjör