Norðurbandalagið hyggur á sókn í átt að kabúl! Norðurbandalagið í Afganistan, sem berst gegn yfirráðum talibana í landinu, hefur áform um stórsókn í átt að höfuðborginni Kabúl þrátt fyrir áhyggjur margra leiðtoga þeirra um að þeir verði ofurliði bornir vegna ónógs undirbúnings og hversu fámennt lið Norðurbandalagsins er í raun og veru. Fram kemur á fréttavef Washington Post að þungar loftárásir Bandaríkjamanna hafi eyðileggt herstöðvar, þjálfunarbúðir, flutningatæki og hergögn talibana. Þá er samskiptakerfi talibana rofið. Þrátt fyrir áföll í röðum talibana er sú skoðun ríkjandi innan bandaríska hersins að talibanar hafi í raun enn tögl og haldir í baráttunni við Norðurbandalagið í ljósi þess mannafla sem þeir hafa undir höndum.

Talið var að talibanar hefðu haft um 40-45 þúsund hermenn innan sinna raða, þar af fjórðungur af erlendum uppruna, áður en átökin hófust. Norðurbandaglið hafði hins vegar um 15 þúsund hermenn innan sinna vébanda, en þúsundir manna til viðbótar gátu tekið þátt í átökum með litlum fyrirvara. Bandaríkjamenn segjast sjá merki þess að Norðurbandalagið íhugi að sækja harðar fram gegn talibönum í ljósi þess hve loftárásirnar hafa leikið talibana hart. Fram kemur í Washington Post að leiðtogar Norðurbandalagsins viti hins vegar lítið um þann fjölda sem talibanar hafa nú undir vopnum.

Haft er eftir Wahidullah Sabawoon, einum af leiðtogum Norðurbandalagsins, að bandalagið héldi í frekari átök án þess að hafa undirbúið þau nægilega. Hann sagði að hermenn Norðurbandalagsins hefðu undanfarin ár einkum varist árás talibana og því þyrfti tíma til þess að búa sig undir breytt stríð, meðal annars vegna þess að hermenn Norðurbandalagsins væru enn í huga sínum í vörn og hefðu ekki andlegan styrk til þess að sækja fram. Þá sagði hann að fjöldi sjálfboðaliða erlendis frá, í röðum talibana, hafi valdið sér áhyggjum.