Fyrir ekki svo löngu varð fjaðrafok mikið og raddir reystar vegna þess að flytja átti eina stofnun og allt hennar hafurtask til ónefnds staðar á landsbyggðinni. Kannski engann að furða, þarna var verið að ráðskast með framtíð fólks. Eða hvað? Þegar rætt er um “landsbyggðarpólitík”, um hvað er átt?

Það er staðreynd, nú sem fyrr, að fólk flytur frá sínum heimkynnum á landsbyggðinni til að freista gæfunnar á Stór-Höfuðborgarsvæðinu. Þetta finnst öllum mjög “skrítið” og hálfgerð ráðgáta. Öllum okkar þingmönnum sem eru sitjandi á þingi virðist þetta of mikið í askana látið til að taka á réttann hátt á hlutunum.

Hvaða forsendur gefa menn sér fyrir því að fólk vilji búa á svæði sem gefur: Litla sem enga fjölbreyttni í atvinnu?; Littla sem enga möguleika til náms, hvað þá framhaldsnáms á æðri stigum?; Litla möguleika til félagslegrar afþreyingar?; Litla sem enga nýsköpun?.

Mín skoðun hefur ætíð verið sú að menn horfa um of pólitískt á þennan málaflokk. Hvernig væri að sleppa þeim pólitíska bagga og horfa á málin frá sjónarhóli þeirra sem plássin eiga að byggja?

Í fyrsta lagi þarf að tryggja þessu fólki atvinnuskapandi tækifæri. Hvort sem um er að ræða nýsköpun eða styrkja þær stoðir sem fyrir eru. Það er sjálfsagður réttur allra að hafa tækifæri á því að hreiðra um sig á þeim blett sem viðkomandi kýs sjálfur.

Ég heyrði því fleygt, að athuga ætti skattaívilnanir í garð þeirra fyrirtækja sem flyttu starfsemi sína í heilu lagi til smærri og vanmáttugri byggðarkjarna – heldur en sjálfrar Stór-Reykjavíkur. Það sem fylgdi ekki sögunni og olli mér örlitlum áhyggjum; Gera menn sér grein fyrir þeim kostnaði sem því fylgir að flytja meðalstórt fyrirtæki á landsbyggðina? Hver á að bera kostnað þessarra fyrirtækja af flutninginum? En hvað með núverandi starfsfólk þessara fyrirtækja? Hver borgar brúsann af búferlaflutningum fjölskyldnanna – sem væru þá að elta atvinnu sína útá land? Eiga fyrirtækin að gera það? Á ríkið að gera það? Er ekki nærri lagi að styrkja þá starfsemi sem fyrir er til að fyrirbyggja að hreinn skortur verði ekki á starfsfólki, sökum þess að einhverjir starfsmenn kæra sig ekki um búferlaflutninga.

Í öðru lagi þarf að tryggja fólki félagslega afþreyingu. Þetta er reyndar málaflokkur sem mætti vera meira áberandi þegar aðilar eru að tala um að “stoppa landsbyggðarflóttann”. Það verður að vera meira félagslíf í gangi heldur en RÚV og kannski sjoppan á horninu. Sumu fólki myndi jafnvel líða mun betur á landsbyggðinni ef að félagslegi parturinn yrði meira í hávegum hafður. Þetta fer sem betur fer mjög batnandi, ekki pólitíkusum að þakka. Það er mikil vakning, að ég tel, á landsbyggðinni – að einbeita sér að lausnum vandamála sinna – fremur en að velta sér uppúr þeim vandamálum sem blasa við, sem oft á tíðum eru smá, en eru svo blásin út, úr takti og úr samhengi - við heilbrigða skynsemi.

Í þriðja lagi þarf að endurskoða aðgengi að mentun. Þetta er án efa helstu ástæður þess að fólk telur sig þurfa að flytjast búferlum, allavega samkvæmt ýmsum skoðanakönnunum. Fólk vill geta menntað sig á sómasamlegan hátt. Ég held að menn sjái enn mörg “plássin” í einhverjum “frystihúsa-hyllingum”. Ég persónulega tæki til að mynda ekki í mál að ég þyrfti að ferðast til Höfuðborgarinnar til að verða mér útum sómasamlega framhaldsskólamenntun. Ég efast þó um að ég hefði marga úrkosti þegar kemur að Háskólamenntun. Skoða mætti þann möguleika að byggja upp sterkar háskóla-einingar á borð við Bifröst. Þar eru búferlin leyst með “heimavist”. Hvers vegna mætti ekki byggja upp fleiri skóla með þessum hætti? Bifröst til að mynda þykir ekki slor háskóli, þvert á móti. Hann er vel aðlaðaður að þörfum atvinnulífsins og er jafnframt vel metinn af því.

Í fjórða lagi þarf að íhuga eignaverndun á verðlitlum eignum á landsbyggðinni. En ættum við að mismuna fólki á slíkann hátt eftir búsetu? Já, það tel ég, vegna þess að það er þegar gert í dag, á mjög áberand hátt. Engin eru þau rök sem geta staðfest það að ódýrara sé að byggja hús á landsbyggðinni, heldur en á höfuðborgarsvæðinu. T.d. fasteignaverð á Höfuðborgarsvæðinu hefur gjörsamlega sprungið úr takti við allt annað – þar meðtalið heilbrigða skynsemi. Reyndar verður að horfast í augu við þá staðreynd að með þeirri þenslu sem verið hefur í launum allstaðar og hækkunum tengdum byggingarframkvæmda o.s.frv. er nú kannski ekki um ófyrirséðan hlut að ræða. Oddvitar Sjálfstæðisflokksins bentu á þessa staðreynd fyrir mörgum árum og nú er R-listinn búinn að skíta á sig í þessum málaflokk sem og öðrum. Spurningin er bara; Hvers vegna var ekki fyrr gripið inní? R-listinn tók þá ákvörðun t.d. að “teppa” allt aðgengi að lóðum til að sprengja upp verðið, sennilega til að fa fáeina fleiri aura í borgarkassann, með þeim afleiðingum sem borgarbúar sitja uppi með í dag. R-listinn sættir sig ekki enn við það í dag að Kópavogur hafði vinninginn að aðsókn. Hvers vegna skyldi það vera? Á þeim tíma kölluðu R-lista menn þetta “að leyfa markaðinum að ráða”. Þetta er gríðarlega óábyrgt sjónarhorn, sérstaklega í ljósi þess að verðbólga okkar tekur einmitt mið af sveiflum á fasteignamarkaði. Menn tala um “leiðréttingu”, held að réttara væri að segja um ótímabæra sprengingu hafi verið að ræða sem aðilar, Félag Fasteignasala þó sérstaklega, esptu upp í mönnum í lon og don í fjölmiðlum landsns. Þetta er hinsvegar þróun sem ég held að flestir staðir á landsbggðinni hafi orðið utangátta, kannski fyrir utan þéttustu og fjölmennustu kjarnana.

Þennan málaflokk er búið að tala meira og minn um í tæp 15 ár. Það er og mun alltaf verða “landsbyggðarflótti”. Svo framarlega sem menn tala og aðhafast ekki neitt, þá mun fólk halda áfram að flytja og nálgast þarfir sínar hér fyrir sunnan.