Nýlega var opnað sendiráð Íslands í Japan, þar starfa 3 Íslendingar og 2 Japanir. Heildarkostnaður við breytingar og kaup á sendiráðinu eru 770 milljónir króna og er áætlaður rekstrarkostnaður rúmlega 100 milljónir á ári! Ekki er hægt að setja mikið út á það að vilja auka samskipti Íslands og Japan, en er eina leiðin til þess að kaupa 800 fermetra hús nánast í miðborg Tokyo, einnar dýrustu borgar í heimi? Hefði ekki verið hægt að standa öðruvísi að málunum? Hefði verið verra að staðsetja sendiráðið í aðeins ódýrara hverfi?

Eitt af því sem var sérstaklega nefnt sem ástæða fyrir stofnun þessa sendiráðs, og ég leyfi mér að vitna beint í Hannes Heimisson, upplýsingafulltrúa utanríksráðuneytisins : “Við fáum afskaplega fáa japanska ferðamenn til Íslands og það er eitt af hlutverkum sendiráðsins að reyna að fjölga þeim”. Er þá sendiráðið orðin einhvers konar skrifstofa fyrir Flugleiðir?

Það skýtur skökku við að á sama tíma og þetta hús er byggt og bætt, standa samningar ýmissa stéttarfélaga enn lausir. Er þá svo að skilja að það skipti meira máli að agítera fyrir ferðamannaiðnað Íslands í Tokyo en að borga fólki mannsæmandi laun?