Mig langaði að fá smá hugmyndir frá Hugverjum varðandi framtíð krónunnar. Nú er maður ekki hagfræðingur en mér sýnist sem svo að íslenzka krónan sé okkur mestmegnis til trafala. Það er barist og barist fyrir þetta klink okkar til að halda jafnvægi á alþjóðamörkuðum. En er réttlætanlegt að 280.000 manna þjóð haldi uppi eigin gjalmiðli á þessum tíma alþjóðaverzlunnar og fjölþjóða efnahagssamningum? Hvernig væri heimurinn ef t.d. hvert bæjarsamfélag sem telur meira en 250.000 hræður héldi uppi eigin gjaldmiðli. New York væri t.d. með annan gjaldmiðil en Los Angeles í Bandaríkjunum Eða t.d. London og Manchester í Englandi? Erum við, neytendur, ekki að súpa seyðið af þessum endalausu sveiflum krónunnar með hærra vöruverði og ótryggara atvinnuástandi? Og hvaða hvati liggur að baki því að halda krónunni á lífi? Þjóðerniskennd? Króna þýðir kóróna og er vísun í vorn gamla nýlendudrottnara danakonung. Það er því varla stoltið sem veldur. Ekki var það með stoltið í fylkingarbroddi sem menn skiptu Árna Magnússyni út fyrir Hrognkelsi! Eða Guðbrandi biskup fyrir Krabba. Tölum ekki um Arngrím lærða og loðnurnar litlu! Þá væri betra að hafa dali. Til forna notuðu Íslendingar dali og skildinga og það væri miklu meiri þjóðerniskennd á bakvið gjaldmiðil með það nafn!

Jú, að vísu er hentugt fyrir stjórnvöld að fella gengið til að minnka kaupmátt launa, en því ekki nota þá milljarði sem sparast árlega við myntsláttu, seðlaprentun og viðhaldi krónunnar til að jafna óreiðuna. Hinn almenni neytandi fer illa úr þessu í dag. Ef þú t.d. notar kreditkort erlendis er upphæðin umreiknuð í dollara og svo í krónur. Grunlausir Íslendingar fá þannig skyndilega risavaxinn kreditkortareikning eftir fríið.

Nú þætti mér vænt um að mér fróðari menn útskýrðu kosti/galla þess að hreinlega leggja krónuna niður! Persónulega sæi ég ekki eftir þessu hringli.