Nýlega gekk fyrir héraðsdómi dómur gegn manni fyrir niðrandi ummæli og róg um blökkumenn. Hér á Huga sem og annars staðar í þjóðfélaginu hafa skapast heitar umræður um það hvort með þessum dómi sé of hart vegið að tjáningarfrelsi því sem okkur Íslendingum er tryggt með 73. gr. stjórnarskrárinnar. Persónulega er ég þeirrar skoðunar að frelsi ber að vernda, og þessa tilteknu grein beri að túlka rúmt. Því er ég ósammála þessum dómi.
Svo var það hinsvegar nýlega að ummæli tiltekins hóps öfgasinnaðra múslima í Danmörku féllu í grýttan jarðveg og hafa vakið hörð viðbrögð um allan heim. Þó svo að þessi ummæli séu mjög eldfim, þ.e. þau hvetja múslima til að hafna vestrænu þjóðfélagi og hreinsa sig af áhrifum þess, hafa Danskir ráðamenn ákveðið að taka heldur þannig á málinu að svara þessum öfgahópi með orðum frekar en verkum. Danskir ráðamenn gera sér grein fyrir því að í frjálsu samfélagi verða allir að fá að viðra skoðanir sínar - hversu róttækar sem þær eru.
Hvers vegna ætti þessu að vera öðruvísi farið hér á Íslandi? Ætlum við að fara að sekta þá sem tilheyra minnihlutahópum ef þeir tjá sig opinberlega um það hversu (hvítir) Íslendingar eru latir? Ef hæstiréttur snýr ekki við þessum dómi þá þýðir það að ALLIR Íslendinga, hvort sem þeir eru hvítir, gulir eða bláir, að fara að passa það sem þeir segja. Það er alls ekki af hinu góða, því að með einni skerðingu á tjáningarfrelsi okkar opnast leið til þess að skerða það enn frekar.
Lifi frelsið!